04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7396 í B-deild Alþingistíðinda. (5435)

214. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Frv. það sem hér er til umræðu er fylgifrv. frv. til l. um fangelsi og fangavist sem er hér síðar á dagskránni. Þótt þetta frv. fjalli um Innheimtustofnun sveitarfélaga og ætti því að vera flutt af félmrh. hefur orðið að samkomulagi vegna tengslanna við lagafrv. um fangelsi og fangavist að ég mæli fyrir því í beinu sambandi við það mál.

Ég mæli hér fyrir frv. eins og það kemur frá Ed. og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Eins og segir í grg. með frv. eru efnisatriði frv. samhljóða 2. mgr. 7. gr. laga um fangelsi og vinnuhæli nr. 38/1973 svo sem henni var breytt með 1. gr. laga nr. 26/1983. Eðlilegra þykir að þessi efnisatriði séu í lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga fremur en í lögum um fangelsi og fangavist og því er þetta frv. flutt.

Ég legg til að þessu frv. verði að lokinni umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.