04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7397 í B-deild Alþingistíðinda. (5437)

213. mál, meðferð opinberra mála

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Það háttar svo til með þetta mál eins og það sem ég mælti fyrir áðan að hér er um frv. að ræða sem er fylgifrv. með frv. til l. um fangelsi og fangavist, en það frv. hefur hlotið samþykki Ed.

Eins og kemur fram í grg. er frv. flutt í tilefni af þeirri fyrirhuguðu breytingu að nú er gert ráð fyrir að fangelsismálastofnun annist daglega framkvæmd og fullnustu refsidóma. Það er því eðlilegt að dómar berist beint til þeirrar stofnunar í stað dómsmrn. eins og nú er gert ráð fyrir í 179. og 189. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 74/1974.

Ég legg til að þessu frv. verði að umræðu lokinni vísað til hv. allshn. og 2. umr.