11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Í máli frummælanda, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, kom fram að meðal þeirra atriða sem hann taldi ámælisverð væri að til menntmn. hefði verið vísað einu frv. og þar hefði ekki verið haldinn fundur. Mig langar til að gefa á þessu máli skýringu.

Til menntmn. hefur verið vísað einu máli, þ.e. frv. til l. um framhaldsskóla. Við umræður í deildinni um þetta mál upplýsti menntmrh. að innan tíðar væri von á frv. frá stjórninni um nákvæmlega sama mál. Ég mat það þá svo sem formaður þessarar nefndar að eðlilegt væri og reyndar best starfsskipan að fjalla um þessi frumvörp bæði í einu, þar sem þau fjalla bæði um nám á framhaldsskólastigi, um nákvæmlega sama mál, enda hafði ég ástæðu til að álíta að stutt yrði frá framlagningu þess fyrra þar til það seinna kæmi fram. Að vísu getur menn greint nokkuð á um verklag og hversu skuli halda á málum, en það er eindregið mín skoðun að í þessu tilviki, þar sem um er að ræða nákvæmlega sama málið, væri eðlilegt að fjalla um bæði frv. í einu ef stutt er á milli þess að þau koma fram. Ég tel ekki rétt að nota tíma nefndarmanna til að ræða hvort frv. um sig sérstaklega og þá annað vitandi að hið síðara á eftir að koma fram, án þess að vita hvað í því kemur fram, þegar um er að ræða lagasetningu um nákvæmlega sama mál, nám á framhaldsskólastigi.

Þetta er skýring mín á því hvers vegna menntmn. hefur ekki verið kölluð saman til að fjalla um þetta mál. Ég tel þá skýringu fyllilega eðlilega. Það eina sem ég get sagt í framhaldi af því er að ég mun að sjálfsögðu beita mér fyrir því að þetta frv. fái sem ítarlegasta og besta umfjöllun í nefndinni, en árétta að ég tel þetta verklag eðlilegast.