04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7399 í B-deild Alþingistíðinda. (5441)

130. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um meðferð einkamála í héraði nr. 85 frá 23. júní 1936. Frv. hefur hlotið samþykki hv. Ed.

Þetta frv. er samið af réttarfarsnefnd og var flutt sem stjfrv. á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt. Það var svo endurflutt á þessu þingi og ég mælti fyrir því í Ed. þann 24. nóv. sl.

Frv. hefur að geyma ýmis atriði sem fela í sér að starf dómstólanna sé lagað að nútímaaðstæðum, en í því felast ekki neinar grundvallarbreytingar á réttarfari í meðferð einkamála. Það má segja að tilgangur frv. sé fyrst og fremst að einfalda málsmeðferð og auka virkni dómstólanna og taka af tvímæli í nokkrum atriðum.

Af einstökum atriðum, sem ástæða er til að nefna hér, má nefna breytingu á dómaraskilyrðum til samræmis við breytt embættisheiti. Þá er hér gert ráð fyrir auknu agavaldi forstöðumanna dómstóla til að skikka menn til verka, en á það hafa ýmsir dómarar lagt mikla áherslu. Þá er fækkun þingvotta áskilin í þessu frv. og ákvæði í tilefni af því að tekin er í notkun ljósritunar- og tölvutækni eru komin í frv., ákvæði um vitnamál, undirbúning meðferðar mála fyrir dómi, ákvæði um vexti af málskostnaðarkröfum og ákvæði um forsendur úrskurða sem áfrýjað er til Hæstaréttar.

Við meðferð málsins í hv. allshn. Ed. gerði nefndin nokkrar brtt. eftir ábendingum formanns Dómarafélags Íslands og ég tek undir þær tillögur.

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi, enda horfir það til þess að greiða gang mála fyrir dómstólum landsins. Ég legg til að því verði að þessari umræðu lokinni vísað til hv. allshn. og 2. umr.