04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7413 í B-deild Alþingistíðinda. (5449)

454. mál, viðskiptabankar

Guðrún Helgadóttir:

Virðulegur forseti. Ég tek undir það sem þeir tveir hv. þm. sem hér hafa talað hafa sagt og leyfi mér að gagnrýna að frv. eins og þetta skuli lagt hér fram svo seint og svo nálægt þinglokum, og ég undrast að ríkisstjórnin skuli hafa von til þess að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi. Miklu nær hefði verið, eins og hér hefur þegar komið fram, að bankakerfið yrði endurskoðað í heild en að kasta hér fram frv. sem aðeins tekur á einni en að vísu mjög mikilvægri ákvörðun í almennum peningamálum þjóðarinnar. En hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur þegar lýst skoðunum sínum og okkar alþýðubandalagsmanna á því máli. Hann gat þess að hann gæti hugsað sér að samþykkja þetta frv. ef 1. gr. væri numin brott. Ég vil hins vegar segja og hef komið hingað í ræðustól til þess að segja það, að ég get ekki samþykkt frv. nema 2. gr. sé tekin út líka. Og ég skal aðeins skýra ástæður fyrir því.

Hér segir, með leyfi forseta: „Í stað „Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem sendar skulu bankaeftirlitinu.“ í 4. mgr. 21. gr. komi: Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, þar með um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Reglur þessar skal endurskoða eigi sjaldnar en árlega og skulu þær sendar bankaeftirlitinu sem láta skal í té álit á þeim hverju sinni.“

Ég fæ ekki betur séð en að hér sé enn verið að grafa undan bankaeftirlitinu og vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort sá grunur minn sé réttur. Ég minni á að á síðasta löggjafarþingi og raunar á 108. löggjafarþingi líka flutti ég ásamt hv. þm. Geir Gunnarssyni, Steingrími J. Sigfússyni og Svavari Gestssyni frv. til l. um Bankaeftirlit ríkisins þar sem ég lagði áherslu á að bankaeftirlitið yrði stórlega eflt. Það er alveg ljóst að áhugi Seðlabankans á því máli hefur enginn verið. En ég undrast að hann skuli heldur ekki fyrir hendi hjá hæstv. viðskrh.

Bankaeftirlit hefur verið starfrækt hér á landi frá stofnun Seðlabanka Íslands sem deild innan bankans og undir yfirstjórn hans. Ný lög um Seðlabanka Íslands, nr. 36/1986, breyttu þar engu um. Við töldum hins vegar, flm. þessara umræddu frv. um Bankaeftirlit ríkisins, höfuðnauðsyn að á Íslandi yrði eins og í velflestum vestrænum ríkjum starfrækt fullkomlega sjálfstætt og óhlutdrægt bankaeftirlit, óháð m.a. Seðlabanka sem eðli máls samkvæmt ætti að falla undir eftirlit slíkrar stofnunar og er hluti af hagstjórnartækjum ríkisins. Aðskilnað þessara stofnana töldum við tvímælalaust til styrktar eðlilegri verkaskiptingu stofnana ríkisins og eðlilegri starfsemi innlends peningamarkaðar.

Seðlabanka Íslands eru ætluð mörg hlutverk og ekki alltaf samræmanleg. Það hefur a.m.k. enn ekki tekist að finna formúlu fyrir þeirri peninga- og lánsfjárstjórn Seðlabanka sem í senn tryggir stöðugt verðlag og hagkvæmustu nýtingu framleiðslugetunnar hverju sinni. Í þessu samhengi skiptir þó meira máli að það kann að reynast ósamrýmanlegt hlutverk að fara bæði með stjórn peninga og lánsfjármála samkvæmt stefnu stjórnvalda hverju sinni og vera banki innlánsstofnana, en hins vegar að hafa jafnframt þess konar eftirlit með starfsemi bankanna að fjárhagsöryggi sparifjáreigenda sitji í fyrirrúmi. Það hlýtur að vera ósættanlegt ósamræmi í því að Seðlabanki hafi yfirstjórn bankaeftirlits, eftirlit sem hann hlýtur eins og áður segir að falla að hluta undir sjálfur.

Ég hefði því kosið að hinn nýi viðskrh., sem er þaulkunnugur og þekkir flestum betur íslensk peningamál, kæmi fram með metnaðarmeiri mál en mál eins og þetta á sínu fyrsta þingi þar sem ég held að mikil þörf sé á að efla bankakerfið, en tel fráleitt að kalla til þess erlent fé og rýra í raun og veru gildi og vald bankaeftirlitsins. Ég held að ýmsir þeir atburðir hafi orðið á síðustu árum . . . (Viðskrh.: Þetta er einhver voðalegur misskilningur.) Ef þetta er misskilningur minn er ég til þess komin hingað að biðja hæstv. ráðherra að útskýra það fyrir mér. Ég hefði kosið að sjá frv. frá hæstv. viðskrh. sem tóku á þessum málum, bæði málefnum bankaeftirlitsins og eflingu bankanna, á metnaðarmeiri hátt en hér hefur verið sýnt.

Ég skal ekki, hæstv. forseti, lengja mikið þessa umræðu, en ég tel að bankaeftirlitið þurfi að koma inn í ákvarðanir í peningamálum í miklu meira mæli en nú er gert. Ég held að það sé verkefni þess að sjá svo til að bankarnir láni ekki óeðlilegt hlutfall af eiginfjáreign. Atburðir síðustu ára hafa sýnt okkur svo ekki verður um villst að þar hefur ýmislegt farið úrskeiðis. Við höfum þegar, eins og hv. 7. þm. Norðurl. e. gat um áðan, orðið að sætta okkur við að hér voru samþykkt iðnaðarlög á þessu þingi þar sem gert er ráð fyrir erlendu fé til íslenskra fyrirtækja. Nú koma bankarnir. Við hverju megum við búast? Samband ísl. samvinnufélaga stendur ekki allt of sterkum fótum eftir því sem heyrst hefur. Hvað verður næst?

Okkur í Alþb. finnst þetta vera spursmál um hvort við ætlum að reka eigið peningakerfi eða ekki. Ég vænti þess þess vegna að við þurfum ekki að sjá þetta frv. samþykkt á þessu þingi heldur megum vænta metnaðarmeiri aðgerða í peningamálum þjóðarinnar og málefnum bankanna en hér hefur sýnt sig.