04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7415 í B-deild Alþingistíðinda. (5450)

454. mál, viðskiptabankar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég skildi það þannig þegar hæstv. bankamálaráðherra talaði fyrir þessu frv. að þetta væri ekki frv. sem ætti að afgreiða á þessu þingi. Það kom í ljós að t.d. Framsfl. hefði ekki samþykkt að þetta væri flutt sem stjfrv. þó að það hafi verið gert og ég skildi það þannig að það hefði eiginlega verið af misskilningi sem þetta hefði verið flutt sem stjfrv. þannig að mér kemur þetta mjög spánskt fyrir sjónir. Og ég veit ekki hvernig hæstv. bankamálaráðherra ætlar að koma þessu gegnum báðar deildir á þeim tíma sem er ætlaður þinginu. Jafnvel þó það yrði dregið fram á miðvikudag að hafa þinglausnir sé ég ekki hvaða möguleiki er á því miðað við allt það sem er á lista að fara á í gegnum þingið.

Það eru margar spurningar sem hljóta að koma upp í hugann þegar maður les þetta frv. Hvað er t.d. átt við í 1. gr., með leyfi forseta: „Bönkum og viðurkenndum fjármálastofnunum . . . " Er eitthvað af gráa markaðnum viðurkennt? Þeir hafa tekið sér það vald í raun og veru að flytja inn erlent fjármagn þó að þeir megi það ekki a.m.k. formlega í þessum mörkuðum. En gæti það ekki verið? Ég spyr.

Það er verið að tala um að það gæti verið að einhverjar bankastofnanir úti í heimi mundu vilja leggja fram áhættufé til að verða hluthafi í banka á Íslandi. Hvert er lögmál þeirra sem stjórna og eiga peninga? Ef þeir leggja fram áhættufé á annað borð er það vegna þess að þeir hafa hugsanlega einhvern ávinning af því að gera það. Það gerist ekki öðruvísi. Þá held ég að menn eigi að reyna að hugsa áfram. Ég held að þetta frv. sé hvorki hugsað eða nægilega rætt til þess að það sé verjandi að keyra það í gegn með afbrigðum og öllum látum sem við þekkjum nú, sem hér erum búin lengi að vera, til að gera það að lögum á þessum stutta tíma.

Ég segi fyrir mig að ég vil fara varlega í því að láta erlenda aðila komast hér inn með litla puttann hvernig sem þeir gera það. Ég var algerlega á móti því frv. sem var samþykkt um að útlendingar gætu átt eða eignast einhvern hlut í fyrirtækjum hér. Og það má lengi spyrja um þetta.

Ég aftur á móti skil ekki í sjálfu sér viðhorf hv. 13. þm. Reykv. í sambandi við að það væri eðlilegt að það væri einhver annar en bankaráðin sem settu þessar reglur. Miðað við nýju lögin um viðskiptabanka, ef eitthvað út af ber, verða bankaráðin dregin til ábyrgðar að mér sýnist. Ég skil þau lög þannig. Þess vegna er eðlilegra að það séu bankaráðin en eftirlitsaðilinn, að hann setji þessar reglur.

En það er fleira sem er athugavert við frv. Það er 5. gr. Ég mun geyma mér að ræða 5. gr. þangað til við 2. umr. að mestu leyti. En hafa hv. þm. og hæstv. bankamálaráðherra, sem er nú brott genginn, athugað að það eru bankastofnanir, það eru eins og nefnt er hér fjármálastofnanir sem eru með ekki mikið yfir 60% í fasteignum og eigin búnaði, e.t.v. jafnvel tvöfalt meira í dag. Ég segi e.t.v. Ég ætla að kanna það betur fyrir 2. umr. Mér er alveg hulið hvernig ráðherrann ætlar að framkvæma 5. gr. eins og ástatt er. Við skulum bara segja að hæstv. ríkisstjórn detti í hug að pína upp vextina aftur enn meira og verulegar fjárhæðir fari út úr einhverjum bankanum. Er þá meiningin að neyða þessar bankastofnanir til að leggja niður einhver útibú og selja ef slíkt kæmi fyrir? Og hvernig er þetta hugsað eða er þetta yfirleitt bara óhugsað?

Sem sagt: 5. gr. ætla ég að ræða betur við 2. umr. Ég er ekki tilbúinn að ræða hana út í æsar og líka spurning hvað langt ég má í sjálfu sér fara út í þá sálma hér. Ég þarf að athuga þá hlið líka. En hins vegar fullyrði ég að það er svo langur vegur frá því að allar fjármálastofnanir eigi tilskilið fé umfram fastan búnað vegna sinnar starfsemi og ég sé ekki hvernig hæstv. ráðherra hugsar sér að gera það ef þessi lög eiga að taka gildi nú þegar eða á miðju þessu ári sem það í raun og veru þýðir eftir orðanna hljóðan.

Ég held að það þurfi að skoða öll þessi mál og athuga það í einu samhengi hvernig er að fara fyrir fyrirtækjum, fyrir landsbyggðinni og fyrir þjóðfélaginu miðað við þá stefnu sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið í þessum málum.

Það var verið að hringja í mig í dag á þingfundi þar sem var verið að ræða um eitt byggðarlag sem ég sé ekki annað en sé algerlega búið. Í þessu byggðarlagi er ein verslun. Hún er gjaldþrota ef ég veit hvað gjaldþrot er. Ég held að það væri nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að huga að þessum málum, hvernig er verið að sjúga atvinnuvegina og landsbyggðina, en vera að reyna að fá erlent fjármagn inn í landið með þessum hætti.

Það væri þess vert að taka þetta mál allt saman, efnahagsmálin og allt saman, til umræðu og yfirvegunar í sambandi við þetta frv. og reyna að fá umræður um þetta mál úti í þjóðfélaginu og það verður gert ef á að knýja þetta fram með þessum hætti. Þetta er slíkt stórmál að það er ekki forsvaranlegt að afgreiða það án þess t.d. að kalla ýmsa þá menn sem hafa mesta þekkingu á þessum málum og ef sú nefnd sem fær þetta til umfjöllunar ættar að afgreiða það eins og fljótaskriftin er venjulega í þinglausnum eða fyrir jól er það náttúrlega alveg með eindæmum.

Ég endurtek þær spurningar og bið hæstv. bankamálaráðherra að svara þeim, hvernig á að skilja þetta í 1. gr., bönkum og viðurkenndum fjármálastofnunum. Ég vil enn fremur biðja hann að svara því: Hvaða líkur telur hæstv. ráðherra á því að bankar eða peningastofnanir einhvers konar vilji leggja fram hlutafé í íslenskum bönkum sem áhættufé? Og að hann komi mér í skilning um hvað það sé sem þeir eru að sækjast eftir, á hverju þetta er grundvallað. Ég sé nefnilega ekki nokkurt vit í því ef það væri ekki einhver ábatavon með einhverjum hætti og hver er hún þá eftir skilningi þess ráðherra sem flytur þetta og hefði átt að gera í eigin nafni ef rétt hefði verið farið að?

Ég vil einnig spyrja hann í sambandi við 5. gr. Sé það rétt, sem ég sagði hér áðan, að það séu til peningastofnanir, sem séu viðurkenndar, þar sem það sé ekki einu sinni 100% í fasteignum og eigin útbúnaði, hvernig hyggst ráðherrann fara með slíka stofnun? Er þá ætlunin að gefa fyrirmæli um að hún dragi saman seglin að því marki að hún eigi á einhverjum tilteknum tíma, ég veit hvernig þessi grein er, hún er með undantekningu, ráðherra er heimilt. En ef það væri t.d. stofnun sem ráðherrann bæri sérstaklega fyrir brjósti væri þá hugsanlegt að hún fengi einhverra ára heimild til að koma málum sínum í lag? Og eiga þá peningastofnanirnar ekki að vera jafnar fyrir lögunum? Er það meiningin?

Ég mun ræða þetta við 2. umr., en vil áður fullvissa mig um hvað ég má segja hér á hinu háa Alþingi um þessi mál.