05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7421 í B-deild Alþingistíðinda. (5455)

319. mál, staðgreiðsla skatta af orlofsfé

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Efni fsp. er eftirfarandi: „Með hverju hætti fer fram staðgreiðsla skatta af orlofsfé sem launþegi fær ekki í hendur fyrr en að orlofi kemur?"

Orlofsgreiðslur skv. orlofslögum og reglugerðum fara fram með tvennum hætti. Annars vegar fá fastir starfsmenn orlofslaun, þ.e. fá greidd venjuleg laun meðan þeir eru í orlofi. Aðrir launþegar fá hins vegar greitt orlofsfé sem nemur ákveðnu hlutfalli af launum þeirra hverju sinni. Afleiðingin af því að orlofsgreiðslur fara fram með þessum hætti er sú að staðgreiðsla af orlofsgreiðslum er mismunandi eftir því hvernig launþegi fær greitt á meðan hann er í orlofi.

Þegar um er að ræða orlofsfé sem lagt er inn á póstgíróreikning skal skv. 15. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 10. gr. laga nr. 90/1987, um breytingu á þeim lögum, orlofsfé bætt við laun launamanns fyrir hvert greiðslutímabil. Af þannig ákvörðuðum launum greiðslutímabilsins ber launagreiðanda að reikna staðgreiðslu launamanns vegna greiðslutímabilsins og draga hana frá launum. Til frekari skýringar skal tekið eftirfarandi dæmi:

Laun launamanns fyrir janúar 1988, 50 000 kr., voru greidd í lok mánaðarins. Þá lítur dæmið þannig út: Janúarlaun 50 000 kr., orlofsfé kr. 5800, laun með orlofsfé 55 800 kr. 35,2% staðgreiðsluskattur verður 19 641 kr. Frá dregst síðan persónuafsláttur í janúar, 14 797 kr. Skattskyld staðgreiðsla í þessu tilviki yrði þá 4844 kr. Af þessu sést að staðgreiðslan er tekin jafnóðum af orlofsfé sem lagt er inn á póstgíróreikning.

Þegar um er að ræða mánaðarkaupsmenn, þ.e. þá sem fá greidd venjuleg laun á meðan þeir eru í orlofi, gildir sú regla að staðgreiðslu ber að draga af þessum launum þegar þau koma til útborgunar. Þess má geta að orlofsfé sem reiknað hefur verið á laun vegna staðgreiðslutímabila á árinu 1987 kemur ekki til skattlagningar á árinu 1988 vegna niðurfellingar innheimtu tekjuskatts og útsvars á laun, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Rétt er að lokum að minna á ný lög um orlof nr. 30/1987 sem öðluðust gildi 1. maí sl. og fela í sér verulegar breytingar á gildandi orlofsreglum. Eins og fram kom hafa fram að þessu gilt ólíkar reglur um staðgreiðslu af orlofsgreiðslum eftir því í hvaða formi þær hafa verið inntar af hendi. Fjmrn. hefur m.a. af þessu gefna tilefni óskað eftir viðræðum við félmrn. um það hvort ekki sé unnt að samræma reglur laga um staðgreiðslu og reglur nýrra laga um orlof þannig að það skipti ekki máli varðandi skil á staðgreiðslu hvernig orlof er greitt til launþega. Þetta hefur verið erindað félmrn. með bréfi sem dags. var 4. maí.