05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7424 í B-deild Alþingistíðinda. (5461)

484. mál, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Á þskj. 834 legg ég fram fsp. til hæstv. fjmrh. um málefni Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og þá sérstaklega er varðar samning er Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins gerði við hið erlenda fyrirtæki Glenmore Distilleries Company. Að undanförnu hafa birst í blöðum greinar um sigurför drykkjarins ELDUR ÍS á Bandaríkjamarkaði og þá auglýsingaherferð sem hið erlenda fyrirtæki hefur lagt út í til að koma þessum drykk á markað. Hefur nafn Íslands verið notað óspart í þessum auglýsingum og myndir birtar frá íslenskri náttúru til að lýsa hreinleika drykkjarins. Vaknar því sú spurning hvaða hag við höfum af því að selja landið með þessum hætti og hvernig er háttað samningum við hið erlenda fyrirtæki. Getur það verið að við Íslendingar höfum óverulegan hag af þessu vodkaævintýri og getur það verið að við höfum samið af okkur með þeim hætti að hið erlenda fyrirtæki hafi allar heimildir í sínum höndum en við engar, jafnvel ekki tryggðan framleiðslurétt? Fyrirspurnin er annars þannig:

„Hvernig er sá samningur sem gerður hefur verið á milli ÁTVR og Glenmore Distilleries Company um framleiðslu og sölu á vodkategundinni ELDUR ÍS? Í því sambandi er óskað svars við eftirtöldu:

a. Hvað er samningurinn til langs tíma?

b. Hvaða tekjur hefur ÁTVR af samningnum?

c. Hvaða rétt hefur ÁTVR til sölu á Íslandi og erlendis?

d. Er hugsanlegt samkvæmt samningnum að hinn erlendi aðili geti án leyfis ÁTVR sett á stofn framleiðslu- eða átöppunarfyrirtæki í öðrum löndum?"