05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7425 í B-deild Alþingistíðinda. (5462)

484. mál, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessum fsp. hefur fjmrn. óskað umsagnar Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um ofangreindar fyrirspurnir.

a. Hvað er samningurinn til langs tíma?

Svar: Samningurinn gildir í fimm ár talið frá 22. des. 1986. Glenmore Distilleries á rétt á að framlengja samninginn um önnur fimm ár.

b. Hvaða tekjur hefur ÁTVR af samningnum?

Svar: ÁTVR á í samkeppni við framleiðendur vodkategunda á innanlandsmarkaði. ÁTVR og Glenmore eru einnig í samkeppni við framleiðendur ýmissa tegunda vodka sem fluttar eru inn á markað í Bandaríkjunum. Telja verður því óeðlilegt að gera grein fyrir því í opinberu skjali hver líklegur hagnaður ÁTVR sé af nefndum samningi. ÁTVR hefur ekki skuldbundið sig til að stofna til neinna fjárfestinga vegna framleiðslu þess vodka sem hér um ræðir. Efnisþættir í útflutning eru verðlagðir vel yfir kostnaðarverði og vodka á innanlandsmarkaði er selt með hærra álagi á kostnaðarverð en annað vodka. Fsp. verður að sinni aðeins svarað með staðhæfingu um að framleiðsla þessi er ekki rekin með tapi.

c. Hvaða rétt hefur ÁTVR til sölu á Íslandi og erlendis?

Svar: ÁTVR hefur alla sölu innan lands með höndum, þar með talið til fríverslunar, varnarliðs, skipa og flugvéla. Öll önnur sala er í höndum Glenmore Distilleries. Glenmore hefur með sérstökum samningi falið ÁTVR umboðsstörf í Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Tékkóslóvakíu.

d. Er hugsanlegt samkvæmt samningnum að hinn erlendi aðili geti án leyfis ÁTVR sett á stofn framleiðslu- eða átöppunarfyrirtæki í öðrum löndum?

Svar: Meðan samningurinn varir getur Glenmore ekki selt undir vöruheitinu ELDUR ÍS vöru sem framleidd er utan Íslands. Samningurinn takmarkar á engan hátt getu Glenmore til að eignast eða setja á stofn framleiðslu- eða átöppunarfyrirtæki svo framarlega sem þau eru ekki nýtt til þess að framleiða undir vörumerkinu ELDUR ÍS.