05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7425 í B-deild Alþingistíðinda. (5463)

484. mál, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör. Það voru frekar loðin svör sem ég fékk við þessum spurningum. Ég tel hins vegar mjög áríðandi að af svona samningum um sölu á áfengi á erlendan markað og þar sem íslensk náttúra er notuð óspart í þeim söluherferðum þurfi að vera mjög verulegur hagnaður. Ég hef þá trú að þó svo að einhver hagnaður kunni að vera sé hann ekki mikill. Það þarf að vera mikil framleiðsla svo að þetta skili ÁTVR miklum hagnaði.

Það sem vakti furðu mína þegar ég settist niður og fór að hugsa um þessi mál er að þetta ELDUR ÍS merki er algjörlega í eigu hins erlenda aðila og hann hefur einkaleyfi til sölu á þessum drykk á erlendri grund nema í þeim löndum sem hæstv. fjmrh. upplýsti. Það þýðir að ÁTVR getur ekki haft nein áhrif á það ef þetta erlenda fyrirtæki hættir að selja á þessum markaði, þá getur hún ekki haldið áfram og selt í trássi við rétt þessa fyrirtækis.

Ég vil enn og aftur þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin og vonast eftir því að þetta eigi eftir að skila ÁTVR einhverjum tekjum í framtíðinni.