05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7427 í B-deild Alþingistíðinda. (5465)

487. mál, kostnaður vegna auglýsinga

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín er beint fjórum fsp. á þessu þskj. Hin fyrsta hljóðar svo:

„1. Hver er orðinn kostnaður ríkisins vegna nokkurra heilsíðuauglýsinga, sem birst hafa í dagblöðum undanfarið, um „ágæti“ núgildandi skattkerfis, meðferð og ráðstöfun opinbers fjár o.fl. á vegum fjmrn. og hversu miklum fjármunum er ætlað að verja í heild í þessu skyni?"

Svar: Kostnaður liggur ekki fyrir vegna auglýsinga sem birst hafa frá fjmrn. þar sem reikningar hafa ekki borist. Fjmrn. hefur auglýst í eftirtöldum blöðum: Morgunblaðinu, Þjóðviljanum, Tímanum, Alþýðublaðinu, Helgarpóstinum og Degi. Umsamið birtingarverð pr. dálksentimetra er 744 kr. og heilsíða telst 200 dálksentimetrar. Frá þessu verði er veittur afsláttur sem nemur 30% í Morgunblaði, 40% í Dagblaði en 50% í öðrum blöðum. Auk birtingarkostnaðar er greitt fyrir vinnslu auglýsinga, bæði gerð svo og filmuvinnslu og setningu.

Á fjárlögum eru veittar alls 170 millj. 517 þús. kr. til verkefnaflokksins Skattstofur, sameiginleg útgjöld. Undir þeim lið eru 25 millj. og 200 þús. kr. ætlaðar til kynningar á skattkerfisbreytingu, staðgreiðslukerfinu, gerð skattkorta o.s.frv. Ekki liggur fyrir nákvæm áætlun um skiptingu niður á einstök viðfangsefni kynningarstarfs skattkerfisbreytingarinnar, en ljóst er að enn er því starfi ekki lokið og er þá vísað til umfangsmikils áformaðs starfs og áætlana í fyrstu drögum um kynningu á virðisaukaskatti.

2. Var ákvörðun um „auglýsingaherferð“ þessa tekin af ríkisstjórninni í heild eða fjmrh. einum?"

Svar: Ríkisstjórnin ber ábyrgð á gerð fjárlaga og þar með þeim fjármunum sem varið er til þessa málaflokks. Eðli málsins samkvæmt er framkvæmd skattamála á vegum fjmrn. og þar með talin kynning á þessum skattkerfisbreytingum, sbr. þá fjárveitingaliði sem vísað var til.

„3. Var gert ráð fyrir þessum útgjöldum sérstaklega við afgreiðslu fjárlaga og ef svo er, hvar sér þess stað?"

Svar: Eins og fyrr sagði er gert ráð fyrir alls 25,2 millj. kr. til kynningarstarfa og skyldra verkefna í fjárlögum á fjárlagalið 09 212. Á fjárlagalið 09 212 er gert ráð fyrir 40 millj. kr. til undirbúnings virðisaukaskatts og er hluti þess fjár ætlaður til beinnar kynningar á þeirri viðamiklu breytingu sem fyrirhuguð er á skattkerfinu við upptöku hans.

Ef ástæða er til talin verður beitt auglýsingum til að vekja athygli á fleiri málaflokkum er varða hag ríkissjóðs og þegna landsins og verður þá að sjálfsögðu greitt fyrir það úr ríkissjóði. Sérstök ástæða er til að minna á að að því er varðar breytinguna úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt gera áætlanir ráð fyrir að kynningarstarfið verði, ef nokkuð er, umfangsmeira en varðar staðgreiðslubreytinguna.

„4. Er þess að vænta að ríkisstjórnin hefji hliðstæðar auglýsinga- eða kynningarherferðir á stefnu sinni í öðrum málaflokkum sem greitt verði fyrir úr ríkissjóði?"

Svar: Á vegum viðskrn. hafa birst auglýsingar um verðkannanir með það að markmiði að auka verðskyn og verðlagseftirlit neytenda. Þeim auglýsingum verður haldið áfram, enda hafa þær þegar skilað umtalsverðum árangri.

Að öðru leyti um kynningarstarf á vegum einstakra ráðuneyta hef ég ekki haldbærar upplýsingar, en vísa til margvíslegs kynningarstarfs að öðru leyti svo sem eins og útgáfu á kynningarritum sérstökum.