11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að hefja umræður um stöðu mála í þinginu. Það er sannarlega ekki vanþörf á því og væntanlega ekki heldur óþarft með öllu ef við megum nú búast við því að stjfrv. feykist hér inn í þingsali eins og henti áðan. Maður spyr auðvitað hvað valdi þessari töf á öllum þeim aragrúa stjfrv. sem hafa verið boðuð. E.t.v. er orsökin samkomulagið á stjórnarheimilinu og sá tími sem þingmálin þurfa til athugunar í þingflokkunum. En þeir sem hafa reynslu, stutta eða langa eftir atvikum, af þingstörfum hérna eru vitaskuld farnir að hugsa með hryllingi til desembermánaðar, hvernig hann verður, þegar við fáum þennan stutta tíma til að fjalla um ýmis stór mál. Ég get ekki neitað því að þetta kemur við húsmóðurhjartað í þeirri sem hér stendur. Það er kannski ekki að ófyrirsynju að manni dettur í hug ráðið góða sem einhverjir fundu upp um það að fresta jólunum.

Við eigum sannarlega eftir að fjalla um stór mál og mjög flókin mál, sem mér skilst að ætlast sé til að verði fjallað um fyrir þinghlé, og af eðlilegum orsökum er það í sumum tilvikum nauðsynlegt. Ég nefni fiskveiðistefnu næstu ára og skattalagabreytingarnar, sem eru hvort tveggja mjög umdeild mál og stór mál og flókin mál, sem verður eðli málsins vegna að samþykkja og afgreiða fyrir þinghlé. Þetta er ekki bara vandamál þm. stjórnarandstöðunnar heldur alls þingheims því við þurfum öll að ná samstöðu um þetta. Það væri mjög nauðsynlegt, og ég beini því til hæstv. forseta, að fá upplýsingar um hvaða mál það eru í raun og veru sem verður að afgreiða fyrir þinghlé. Það er ljóst að það verður mjög erfitt að verða við ýtrustu óskum í þessu efni frá ríkisstjórninni en það væri nauðsynlegt að fá sem nákvæmastan lista yfir það hvaða mál þetta eru. Því það er alveg ljóst að það verður ekki gert nema í góðu samstarfi við þingið. Ég held, herra forseti, að það sé ekki nóg að ræða um hlutina og hafa áhyggjur af stöðu mála, það þarf eitthvert stórt átak til þess að þetta geti gengið.