05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7430 í B-deild Alþingistíðinda. (5471)

487. mál, kostnaður vegna auglýsinga

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, að þessi auglýsingaherferð hæstv. fjmrh. og reyndar hliðstæðar auglýsingar hæstv. viðskrh. hafa vakið mikla athygli meðal almennings einmitt fyrir það að það kemur mjög vel fram í þessum auglýsingum að þær eru ekkert nema pólitískur áróður. Þær eru einfaldlega framhald af kosningaáróðri Alþfl. frá því í kosningunum sl. vor. Það vakna upp ýmsar spurningar, m. a. þær: Er verið að halda gangandi auglýsingamaskínu Alþfl., halda henni volgri svo að hún geti hafið störf að fullu strax og verður boðað til kosninga, en það heyrist æ oftar að það geti orðið stutt í næstu kosningar.

Almenningur sér í gegnum þetta og það sjá allir sem lesa þessar auglýsingar að þetta er ekkert nema pólitískur áróður. Það er því afar ósmekklegt að sjá hvernig þarna er farið með almannafé og vil ég taka undir það sem hér hefur komið fram.