05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7431 í B-deild Alþingistíðinda. (5474)

485. mál, fiskeldi

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur þróast upp í landinu ný atvinnugrein, atvinnugrein sem bersýnilega á um þessar mundir undir högg að sækja, berst við mjög þungan fjármagnskostnað, á erfitt með að fá lán út á sína framleiðslu eins og aðrar atvinnugreinar í landinu, verður að sæta þar afarkostum með afurðalán upp á allt að 11% raunvöxtum að jafnaði. Það er bersýnilegt að þeir íslensku aðilar sem eru í þessari grein eiga í erfiðleikum og hafa í seinni tíð í vaxandi mæli orðið að grípa til þess neyðarúrræðis að leita samstarfs við útlendinga um uppbyggingu fiskeldis hér á landi. Þetta er alvarlegt umhugsunarefni, herra forseti.

Ég held að ástæðan sé m.a. sú að það hafi verið skortur á heildarstefnumótun í fiskeldismálum hér á landi. Þar hefur Alþingi brugðist, þar hefur ríkisstjórnin brugðist og ekki tekið af skarið um einstök frumatriði hvað þá heldur útfærða heildarstefnu. M.a. hefur ekki legið fyrir hvaða afstöðu stjórnvöld hafa á undanförnum árum haft til þess undir hvaða ráðuneyti fiskeldi ætti að heyra hér á landi, en um það mál hafa verið talsverðar deilur. Fyrir því er lögð hér fram fsp. til hæstv. forsrh. á þessa leið:

„Undir hvaða ráðuneyti telur ríkisstjórnin að fiskeldi eigi að heyra í framtíðinni?"