05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7432 í B-deild Alþingistíðinda. (5475)

485. mál, fiskeldi

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið enn sem komið er neinar ákvarðanir um breytingar á stjórnskipulegri meðferð fiskeldismálefna. Ég tek hins vegar undir það að ýmis atriði í því efni hanga í lausu lofti. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að skipa þessum málum til frambúðar á þann veg að við getum nýtt stofnanir í þágu þessarar nýju og vaxandi atvinnugreinar, stofnanir sem nú heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti, og það skipti mestu máli þegar horft er til frambúðar að þær nýtist, hvort sem það eru aðilar sem nú heyra undir landbrn. eða rannsóknarstofnanir sem heyra undir sjútvrh. Alla þessa aðila þarf að virkja í þágu þessarar atvinnugreinar. En fram til þessa hefur ekki verið tekin ákvörðun um breytingu á stjórnskipulegri vistun þessa málaflokks.