11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Herra forseti. Það er fróðlegt fyrir þann nýliða sem nú stendur hér í stól að hlusta á þá umræðu sem hér fer fram. Bæði er það fróðlegt en eins veltir þetta líka upp ýmsu sem maður hefur verið að bræða með sjálfum sér eftir mánaðar veru hér í þessum sal. Ég náttúrlega get ekki haft í frammi neina samanburðarfræði um hvort ástand mála hér er verra eða betra nú en það hefur verið áður, hvort frv. eru færri eða fleiri. Ég gæti sjálfsagt flett því upp en það er alltaf betra að fólk tali um slíka hluti af reynslu. En hitt verð ég að viðurkenna að eftir skamma setu hér þá er margt sem kemur manni mjög spánskt fyrir sjónir í störfum Alþingis. Ég tek það fram að ég ætla ekki að hafa í frammi neinn dóm um það hvort það sem kemur manni spánskt fyrir sjónir er rétt eða rangt, því þar skortir mig kannski rök til að skilja af hverju hlutir eru eins og þeir eru, en ég get samt ekki stillt mig um aðeins að tæpa hér á nokkrum málum í sambandi við þinghald sem eru ólík vinnubrögðum sem maður á að venjast annars staðar. Sú eina samanburðarfræði sem ég get haft í frammi er samanburður við hinn almenna vinnumarkað, það að hafa unnið hér og þar í þjóðfélaginu og verða svo vitni að því að hér virðast að mörgu leyti vera gerðar aðrar kröfur en gilda á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég var mjög undrandi t.d. á því hve fáir sátu kyrrir í þingsölum og hvað það var auðvelt að mæta ekki til þings. Við gerum þær kröfur til annarra þegna þjóðfélagsins að þeir mæti til sinnar vinnu. Við gerum þá kröfu til nemenda að þeir mæti í sinn skóla. Og við höfum m.a.s. í frammi alls konar refsikerfi til þess að koma í veg fyrir að fólk svíkist um. Nú veit ég að þetta kannski kann að horfa öðruvísi við hér, menn þurfa að sinna ýmsum erindum o.s.frv., en það breytir því ekki að mér skilst að hér sé samt mætingarskylda. En hún virðist ekki vera erfiðari en svo að menn bara tilkynna að þeir ætli ekki að mæta. Eins dugir að mæta og vera svo ekki viðstaddur. Og hvort menn eru þá einhvers staðar inni í þingherbergjum eða fara úr húsinu það er mér ekki kunnugt um. Það getur vel verið að þetta hafi alltaf viðgengist og það getur vel verið að einhverjir geti upplýst mig um nauðsyn þess að þetta gangi svona. En mér finnst þetta dálítið undarlegt. Það er annað í því sambandi sem líka hefur vakið athygli mína og ég hef gert smákönnun sjálf í því sambandi. Það hefur þó nokkrum sinnum komið fyrir að ég hef talið fleiri konur í þingsal heldur en karlmenn og erum við þó í miklum minni hluta. Ég get náttúrlega ekki neitað því að það gleður að vissu leyti hjarta mitt að maður skuli fá svona óræka vitneskju um, ja, að maður vonar, samviskusemi kvenna.

Það eru aðrir hlutir sem mér hafa fundist skrýtnir líka. Eins og t.d. það að maður skuli ekki fá dagskrá Alþingis með lengri fyrirvara. Mér finnst eitthvað sérkennilegt við það að maður fái hana svo seint að maður sé næstum því dæmdur til að mæta illa undirbúinn nema maður búi að langri reynslu þar sem maður getur alltaf farið í eigin sarp til þess að hafa skoðanir á málum. Það er ekki auðvelt fyrir þá sem hér eru að stíga sín fyrstu spor að fá dagskrá þingsins sama morgun. Þetta er annað sem ég held að mundi ekki ganga á hinum almenna vinnumarkaði, að fólk vissi ekki fyrr en á síðustu stundu hvað það ætti að gera þann dag. Við erum jú alls staðar á vinnumarkaði að reyna að hagræða, auka afköst, vera skilvirkari o.s.frv. Þarna kunna aftur að liggja ástæður sem ég skil ekki. En mér er óskiljanlegt af hverju hér liggur ekki fyrir dagskrá næstu viku á fimmtudögum þegar við yfirgefum þing. Ég vona svo sannarlega að hægt sé að ráða þarna bót á og ég býst við að fleiri, sérstaklega nýir þingmenn og varaþingmenn og aðrir slíkir sem ekki hafa hér mikla reynslu, hljóti að vera sammála mér um óhagræði þessa og þá óvissu og það óöryggi sem það skapar.

Í sambandi við nefndarfundi var mér bæði bent á og ég svo sem hafði heyrt og vissi kannski, þegar maður undrast hversu fámennt er hér í salnum og auðvelt að vera fjarri, að þá heyrir maður einmitt þetta: Það er unnið í nefndum. Og ég segi það satt að ég beið eiginlega í ofvæni eftir því að fara að vinna í nefndum. Þar hlyti þetta virkilega að fara í gang og menn færu að fara ofan í málin og ræða þau af alvöru. Ég hef ekki komið á einn einasta nefndarfund enn þá. Ég sit í tveim nefndum og ég hef ekki verið boðuð, — ja, það er ekki alveg rétt hjá mér, ég hef verið boðuð á einn fund í hvorri nefnd. Hvor fundur stóð innan við tíu mínútur og var til þess að kjósa stjórn viðkomandi nefnda.

Nú hefur einmitt frv. um framhaldsmenntun verið vísað til menntmn. neðri deildar, en þar á ég sæti, og mér fannst sú skýring hv. 10. þm. Reykv. mjög einkennileg að þar sem frést hefði af öðru frv. þá væri ekki ástæða til að tala um þetta frv. Ég hélt að við byggjum í lýðræðisþjóðfélagi. Ég hélt að þessi samkunda hér væri hin lýðræðislega samkunda þar sem einmitt umræður um öndverðar skoðanir færu fram. Og ég hélt ekki að fyrir fram hefði skoðun eins meira vægi heldur en annars. Aftur skortir mig vitneskju um hefðir. Það getur vel verið að stjórnarfrv. hafi þann forgang að þeim sé kippt fram fyrir. Þetta vissi ég ekki. En ef svo er þá vona ég að einhver upplýsi mig um það þannig að ég sé þá ekki að hafa fyrir því að taka andköf aftur yfir ummælum eins og hér voru höfð í frammi.

Jafnframt hélt ég að þegar búið væri að skipa í nefndir og kjósa stjórn þá væru haldnir nefndarfundir reglulega. Ég hélt nefnilega að hægt væri að ræða fleira í nefndum en bara fram komin frv. Það hlýtur að vera hægt að nota tímann þar til upplýsingaöflunar, viðtals þar sem aðrir gætu komið og upplýst hv. þm. um ýmislegt sem aflaga fer og þeir vildu kannski láta breyta eða bæta. En aftur kann það að vera á móti öllum venjum. En einhvern veginn svona hafði ég ímyndað mér að þetta gæti gengið. Þannig að þið sjáið að þau eru mörg áföllin sem maður verður fyrir þegar maður kemur hérna inn. Ég býst við að flestir hafi nú gengið í gegnum þetta sama þó sumir séu kannski búnir að sitja svo lengi að þeir hafi þegar gleymt því hvernig það var að vera nýr.

En þetta, hvað allt útlit virðist vera fyrir að hér verði lögð fram mörg frv. á stuttum tíma, þetta er nokkuð sem almenningur úti í bæ heyrir á hverju ári og heyrir í hvert skipti viðbrögð stjórnarandstöðu við þessu frumvarparegni sem hér upphefst í skammdeginu og aftur þegar daginn fer að lengja. Á hverju ári heyrir maður þetta gagnrýnt og maður situr heima hjá sér og veltir vöngum og segir: Já, þetta hef ég nú heyrt oft áður. Og maður kannski veltir því ekki svo óskaplega mikið fyrir sér af hverju þetta gerist eða af hverju þetta virðist vera eitthvað sem gerist á hverju ári og er alltaf mótmælt. Kannski er þetta eðlilegt ástand á fyrsta ári stjórnar. — Það er a.m.k. miklu frekar hægt að skilja þetta þegar ríkisstjórn er ný og hefur sjálfsagt ekki veitt af tímanum til þess að marka sér stefnu og finna síðan hvar þarf að koma þeirri stefnu í framkvæmd, hverju þarf að breyta til þess að hún nái fram að ganga o.s.frv. Maður dregur a.m.k. þá ályktun að kannski sé þetta eðlilegt á fyrsta ári stjórnar. — En þegar þetta gerist ár eftir ár hlýtur maður náttúrlega að velta fyrir sér af hverju. Og þá læðist að manni sá grunur að það þyki ágætt að það sé ekkert allt of mikil umræða um mál. Og þá kemur maður aftur að hlutverki þingfunda: Af hverju eru þm. ekki hérna? Og af hverju þurfa þm. ekki að sitja hérna svona nokkurn veginn meðan þingfundur stendur? Því að málþing er jú eitthvað sem er og á að vera eitt helsta einkenni lýðræðis. Þ.e. að kjörnir fulltrúar skiptist á skoðunum með þeim hætti að öllum öðrum sé heimill þar aðgangur til þess að hlusta á og fylgjast með. Ef skoðanir annarra eru ekki merkilegri en svo að maður nennir ekki að hlusta á þær eða gefur sér ekki tíma til að hlusta á þær, þá spyr maður sjálfa sig að því hvort þetta sé bara einhver leikur sem hafður er í frammi án mikillar alvöru. Eða eru menn svo staðfastir í sínum skoðunum, eru þær svo fyrir fram mótaðar og eru þær svo óhagganlegar, að það sem aðrir kunna að hafa að segja um málin skipti þar harla litlu máli? Þessi grunur læðist að manni og þetta er eitt af því sem veldur manni vissum vonbrigðum þegar maður kemur hingað.

Ég ætla að enda á lítilli lífsreynslusögu. Ég gegni embætti sem formaður þingflokks Kvennalistans og mæti auðvitað sem slíkur á formannafundi. Þar var tilkynnt með miklu írafári fyrir tæpum þrem vikum að það ætti að kjósa í allar nefndir og ráð sem Alþingi kysi í. Ég frétti þetta reyndar af tilviljun vegna þess að það var hringt í mig í öðrum erindagjörðum þó og þetta svona kom upp í samtalinu. Ég náttúrlega hrökk við og hugsaði eitthvað á þá leið: Guð minn góður. Nú hef ég aldeilis misst af einhverju og hvernig gat þetta farið fram hjá mér. Síðan kem ég hér í þingsalinn og hitti þar aðra formenn. Það virðist koma jafnflatt upp á a.m.k. stjórnarandstöðuformenn að þetta standi fyrir dyrum og það er ákveðið að sótt verði um frestun. Það er eiginlega gert óformlega hér frammi í hliðarherbergi að við stjórnarandstöðuþingflokksformenn ræðum við stjórnarþingflokksformenn. Í byrjun voru þeir nokkuð tregir til að fresta kosningunum. Þetta væri orðið nokkuð seint og það hefði verið samkomulag um það að reyna að flýta kosningum o.s.frv., en af almennilegheitum, þar sem þeir skildu að þetta hefði verið með nokkuð skömmum fyrirvara fyrir stjórnarandstöðu, þá féllust þeir á að fresta kosningum fram til mánudags. Það var, held ég, á þriðjudegi sem þessi umræða var og kosningar stóðu til á fimmtudegi.

Við náttúrlega bregðumst hart við og af því að við erum nú grasrótarhreyfing og viljum ævinlega hafa samband við okkar félaga, þá höfum við náttúrlega ekkert minna við en það að við leggjum undir heilan sunnudag, sem margir eru að reyna að halda nokkurn veginn hreinum til að geta sinnt einhverju af öðrum skyldustörfum, en við náttúrlega drífum á fund, við hringjum út um allt land, við hringjum til útlanda og allt gengur á til að gefa nú öllum félögum okkar kost á að segja sína skoðun eða koma með tillögur, taka sæti í nefndum o.s.frv. Í þetta fór heill sunnudagur fyrir utan tímann sem fór hjá mér persónulega í það að ræða við aðra formenn stjórnarandstöðunnar. Jæja, ég mæti hér á mánudegi aftur á formannafund, heldur hróðug, með snyrtilega vélritaðan lista þar sem við höfum mannað allar nefndir af fyllstu samviskusemi. Og eins og ævinlega þegar manni finnst maður hafa staðið sig vel þá er maður dálítið borubrattur. Nei, það var nú ekki aldeilis! Það var tilkynnt um hverja nefndina á fætur annarri: „Nei, við höfum ekki mannað hana. Nei, við höfum ekki mannað hana.“ Og það segir enginn orð! Þá var þetta ekkert einasta mál að fresta og hafði enginn tekið þetta alvarlega að það ættu að fara fram kosningar— nema ég. Þarna er náttúrlega óttalegur byrjandabragur á. En það er ekki góð lexía að læra í byrjun starfsferils að það sé allt í lagi að svíkjast um.