05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7436 í B-deild Alþingistíðinda. (5483)

491. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þessi svör sem svöruðu réttara sagt spurningunni ekki. Hann vitnaði til frv. sem hann hafði samið og lagt fyrir ríkisstjórnina sem ekki hefur komið hingað og ég get ekki séð hvaða breytingar það í sjálfu sér hefur. Það eru a.m.k. 100 manns, ungt fólk, sem hefur lagt inn á þessa reikninga í dag og veit ekki hvað það á að gera, bankakerfið veit ekki heldur hvað það á að gera. Þess vegna er ekki óeðlilegt að maður spyrji fjmrh.: Hvað vill hann gera til þess að leysa þessa réttaróvissu?

Það er enn þann dag í dag verið að auglýsa þetta sparnaðarform. Ég minnist þess fyrir tveimur dögum að ég fór í Verslunarbankann og þar sé ég bækling þar sem auglýst var þetta form um húsnæðissparnaðarreikninga og fólki þar heitið skattaafslætti. Mig furðar mjög að það skuli ekki vera neitt gert í þessu máli til að eyða þessari óvissu, a.m.k. senda bankakerfinu þá tilkynningu um að hætta með þessa reikninga í bili. Þá má einnig benda á að í janúar sl. sendi ríkisskattstjóri út tilkynningu um hámark og lágmark greiðslna sem hver greiðandi á að leggja inn á þriggja mánaða fresti og það hefur engin breyting orðið.

Ég vil endilega fyrir hönd þessa fólks fá skýr svör um hverju það má eiga von á og hvort það eigi að halda áfram með þessa reikninga. Það er sú eina spurning sem máli skiptir í þessu og er raunverulegt efni þessarar fsp.