05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7436 í B-deild Alþingistíðinda. (5484)

491. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í svari mínu áðan hefur af hálfu fjmrn. verið gerð tilraun til að eyða þeirri réttaróvissu sem hér er með réttu vakin athygli á. Í fyrsta lagi með flutningi frv. sem mundi eyða þeirri óvissu. Ég harma að um það tókst ekki samstaða.

Í svari mínu kom fram að verði þetta mál ekki leyst á yfirstandandi þingi muni fjmrn. neyta heimilda í reglugerð til að kveða á um hvernig skattafslátturinn vegna innleggs á húsnæðissparnaðarreikninga verði veittur á þessu ári. Því miður er það ekki á mínu valdi að tilkynna bankakerfinu um hvernig með skuli fara eða grípa fram fyrir hendurnar á Alþingi um málið. Í því efni vek ég athygli á því að það liggur fyrir á Alþingi þmfrv. sem gerir ráð fyrir annarri lausn málsins. Meðan ekki er útkljáð um afgreiðslu þess getur fjmrh. sem slíkur ekki beitt heimildarákvæðum reglugerðar. Ég mun þess vegna bíða þess að vita hvort eitthvað gerist í málinu á þingi, en verði það ekki neyta heimildarinnar skv. reglugerðinni sem ég vitnaði til áðan. En það hefur ekkert gildi að tilkynna fyrir fram um hvert verði inntak þeirrar reglugerðar fyrr en vilji Alþingis liggur fyrir með ótvíræðum hætti.