05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7437 í B-deild Alþingistíðinda. (5485)

498. mál, atvinnunjósnir

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér á þskj. 876 að bera fram fsp. til iðnrh. um varðveislu upplýsinga og áætlana um nýiðnað og um atvinnunjósnir. Fsp. er í þremur liðum:

„1. Hvernig er háttað umfjöllun af hálfu sjóða og lánastofnana um umsóknir og áætlanir vegna ýmissa nýiðnaðarhugmynda, svo og varðveislu gagna er þeim tengjast?

2. Telur ráðherra að gætt sé nægilegrar varúðar að því er varðar slík gögn svo að komið sé í veg fyrir að upplýsingar berist óviðkomandi, jafnvel samkeppnisaðilum á sömu atvinnusviðum?

3. Telur ráðherra ástæðu til að ætla að svonefndar „atvinnunjósnir“ séu stundaðar á Íslandi? Ef svo er, hvaða ráðstöfunum hyggst ráðherra beita gegn slíku?"

Megintilgangur minn með þessari fsp. er að vekja menn til umhugsunar um það sem hér hefur verið að þróast og leita leiða að því hvað gert sé til að tryggja réttarstöðu þeirra er þetta varðar þannig að þeir sem leita til sjóða og stofnana geti treyst því að með mál þeirra sé farið sem trúnaðarmál en ekki, eins og ég hef ástæðu til að ætla að gerst hafi, að málið sé þar með orðið næsta opinbert.

Í blaðaviðtali fyrir stuttu lýsti einn framkvæmdastjóri því yfir að í þjóðfélagi okkar berist upplýsingar milli manna nokkurn veginn með hraða ljóssins. Þetta segir sína sögu og ég velti því svo sannarlega fyrir mér hvort það sé ekki fyllileg ástæða til að gefa slíku nafnið atvinnunjósnir, hæstv. ráðherra. Ég þekki dæmi þess að menn hafi ekki treyst því að leggja mál sín um ákveðnar nýiðnaðarhugmyndir fram af ótta við að málið væri þar með orðið næsta opinbert, eins og ég gat um áðan, og jafnvel með ótrúlegum hraða komið á borð samkeppnisaðila þeirra.