05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7439 í B-deild Alþingistíðinda. (5488)

499. mál, deilur kennarasamtaka og ríkisins

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég ætla hvorki að vitna í ræðu hæstv. núv. fjmrh. frá árinu 1985 þegar hann var einn af hv. þm. Alþfl. né heldur í þær skýrslur sem ég hef þráfaldlega vitnað til þegar málefni kennara ber á góma, en ég vil hins vegar benda á að hinn 15. apríl sl. sendi samninganefnd Hins íslenska kennarafélags fyrirspurn til stjórnvalda um hvort opinber ummæli fjmrh. um vinnutíma kennara endurspegli mat ríkisstjórnarinnar á störfum kennara. Þessi ummæli hæstv. fjmrh. birtust í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu 29. mars sl. og hljóða svo, með leyfi forseta:

„Kennari með meðaltekjur og fulla kennsluskyldu nær þeim með því að kenna um 35 kennslustundir á viku í 26 vikur á ári og sjá um að prófa nemendur sína. Með bærilegu skipulagi er hægt að ljúka skóladeginum með yfirvinnu kl. 14 að jafnaði.“

Samninganefnd HÍK og ríkisins komu saman til fundar 27. apríl, en þá hafði ekki borist svar við áðurnefndri fsp. og fulltrúar ríkisins höfðu ekkert nýtt tilboð. Í framhaldi af þeim fundi sendi stjórn Hins íslenska kennarafélags ályktun sem hljóðar svo, með leyfi forseta, en hún var til hæstv. fjmrh.:

„Stjórn og samninganefnd Hins íslenska kennarafélags hafa af því þungar áhyggjur ef samningar kennara verða enn lausir þegar næsta skólaár hefst. Það er þó ljóst að HÍK telur sér ekki fært að semja um kaup og kjör við fjmrh. meðan hann heldur því fram að kennarar svíkist um í störfum sínum. Stjórn og samninganefnd HÍK leggja því á það höfuðáherslu að stjórnvöld svari þeirri fyrirspurn sem lögð hefur verið fram á síðasta samninganefndarfundi.“

Enn hefur ekkert svar borist þrátt fyrir að auk hæstv. fjmrh. hafi hæstv. forsrh. og menntmrh. einnig verið send ítrekun um þetta. Ætla stjórnvöld virkilega að sýna þann hroka og afskiptaleysi að svara þessu erindi alls ekki? Og ætla stjórnvöld endanlega að tryggja það að kennarar snúi ekki aftur í störf sín?

Ég hef í tilefni af þeim deilum sem eru orðnar langvinnar og með öllu óþolandi fyrir allt skólastarf í landinu leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. ráðherra fjármála og menntamála á þskj. 868, en ég tel að það hljóti að vera komið að þeim punkti að þeir þurfi að mætast einhvers staðar í þessu máli. Ég veit að hæstv. menntmrh. hefur lýst yfir góðum vilja sínum til þess að bæta kjör kennara og á vegum hans ráðuneytis hafa verið gerðar margar skýrslur sem segja það sem hefur reyndar legið ljóst fyrir í mörg ár, en fsp. mín hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvernig ætlar ríkisstjórnin að taka á þeim dellum sem nú eru uppi milli samtaka kennara og ríkisins?"