05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7440 í B-deild Alþingistíðinda. (5489)

499. mál, deilur kennarasamtaka og ríkisins

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Samningar við stéttarfélög kennara hafa verið lausir frá sl. áramótum. Samningaviðræður við félögin voru í gangi fram í síðari hluta marsmánaðar, en þá efndu þau til atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun. Atkvæðagreiðsla annars félagsins reyndist framkvæmd með ólögmætum hætti að mati Félagsdóms og kom verkfallsboðun þess því ekki til framkvæmda. Hjá hinu félaginu fékk verkfallsboðun ekki samþykki tilskilins meiri hluta.

Svör um áframhald á viðræðum hafa ekki borist frá HÍK, en viðræður við KÍ eru hafnar. Eftir að endanleg niðurstaða um verkfallsboðanir lágu fyrir óskaði fjmrn. eftir að viðræðum um samninga yrði haldið áfram og gerði félögunum á fundum 14. og 15. f.m. tillögur um vinnutilhögun á viðræðum. Kennarafélögin óskuðu eftir fresti áður en þau svöruðu.

Fjmrn. hefur í viðræðum við kennarafélögin lýst því yfir að það sé reiðubúið til samninga við þau sem gerðir verði með hliðsjón af kjarasamningum annarra launþegasamtaka og með hliðsjón af tillögum svokallaðrar starfskjaranefndar um vinnutíma og vinnutilhögun. Hafa kennarafélögunum verið gerðar ítarlegar tillögur í því efni og óskað eftir viðræðum um þær.

Að því er varðar erindi sem borist hefur eða bréf þar sem vitnað er til ummæla í svargrein, blaðagrein, þar sem fjmrh. svaraði opnu bréfi frá tilteknum nafngreindum kennara, hefur því verið svarað á samninganefndarfundum efnislega á þá leið að tilvitnuð ummæli voru andsvar við órökstuddum fullyrðingum sem fram höfðu komið um það mál sem þar var fjallað um. Í svargrein fjmrh. voru settar fram upplýsingar um tilteknar staðreyndir, en hvorki lagt á þær mat né dregnar af þeim ályktanir og þær eru því ekki tilefni til sérstakra fyrirspurna þar sem ekki hafa komið fram nein brigsl um vinnusvik af hálfu kennara, enda fráleitt.

Að gefnu tilefni hafði fjmrh. í svari sínu við umræddri blaðagrein, þar sem til hans var beint spurningum, birt eftirfarandi upplýsingar um launakjör:

1. Ársmeðaltal fyrir félaga í HÍK, sem starfa við framhaldsskóla, er áætlað um 98 þús. kr. á mánuði miðað við launaverðlag í des. 1987. Og af því að spurst var fyrst sérstaklega fyrir um það hvort þarna væri verið að vitna til einnar mánaðargreiðslu í desember er því svarað: Launagreiðslur eru breytilegar milli mánaða vegna þess að ýmsar greiðslur falla til með óreglulegum hætti, svo sem greiðslur fyrir heimaverkefni, persónuuppbót o.fl. Þannig voru meðalgreiðslur í des. 1987 til sama hóps og um ræðir í staflið a tæplega 125 þús. kr. Til hækkunar í þeim mánuði kemur einnig persónuuppbót. Loks voru birtar upplýsingar um greidd laun fyrir febrúarmánuð til félaga í HÍK sem þá voru í fullu starfi við framhaldsskóla, en þau laun dreifðust þannig: Undir 70 þús. kr. 17,4%. Á bilinu 70–90 þús. kr. á mánuði 24%, á bilinu 90–110 þús. kr. á mánuði 25,4%, á bilinu 110–130 þús. kr. á mánuði 18,5%, á bilinu 130–150 þús. kr. á mánuði 7,4% en yfir 150 þús. kr. á mánuði 7,3%. Þess var sérstaklega getið að skólastjórar og rektorar brengla þessar tölur lítt því að þeir eru einungis 37 slíkir í þessu og meðalgreiðslur til þeirra um 138 þús. kr.

Herra forseti. Tími gefst ekki til þess að skýra þetta mál frekar. Ég legg á það áherslu að vilji ríkisvaldsins til þess að ganga til samninga við kennarasamtökin er undanbragðalaus og hann lýsir sér í því að fjmrn. er reiðubúið til samninga með hliðsjón af kjarasamningum annarra launþegasamtaka og það stendur ekki á fjmrn. að hefja þær viðræður.