11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Forseti (Jón Kristjánsson):

Í tilefni af orðum síðasta ræðumanns vil ég ekki, og átel það, að að talað sé um það hér í þingsölum að þm. séu að svíkjast um. Ég hef ekki ástæðu til að ætla það. Þingfundir eru hér frá 2–4 að öllum jafnaði, frá 2–5 á mánudögum. Hér er viðveruskylda og þm. eiga að tilkynna forföll ef þeir hafa ekki aðstöðu til að koma á þingfundi. Að öðru leyti eru þeir ekki skyldir til að sitja hér í stólunum þó að ætlast sé til að þeir séu hér við og við atkvæðagreiðslur. En ég hef ekki ástæðu til að ætla að þeir séu að svíkjast um þó að þeir sinni einhverjum málum hér á meðan þingfundur stendur yfir. Ég vildi láta þetta koma fram.

Hvað dagskrá snertir þá hefur það verið rætt hvernig koma megi dagskrá fyrr til þingmanna. Dagskrá fyrir daginn liggur ævinlega fyrir að morgni. Það hefur verið svo og er. Eins og fram hefur komið hefur dagskráin verið bætt. Á dagskrá eru þau mál sem tekin eru fyrir þann dag og vonum við að það sé til mikilla bóta. Hvað það snertir að ganga frá dagskrá fyrir nokkra daga fram í tímann eða viku fram í tímann, þá er það miklum vandkvæðum bundið að ganga frá endanlegri dagskrá vegna þess að sú endanlega dagskrá fer eftir gangi mála hér á þingfundum. Margt óvænt getur komið upp og tími þingsins getur m.a. farið í umræður um þingsköp — t.d. hefur þessi umræða nú staðið í klukkutíma og 20 mínútur — þannig að skv. eðli máls getur dagskrá vart legið fyrir í endanlegu formi fyrir viku fram í tímann.

Þetta vildi ég láta koma fram. En við höfum rætt það og munum reyna eins og möguleikar eru til að fyrir liggi hvaða mál verða til umræðu á næstu dögum og að skrifstofa þingsins hafi um það upplýsingar. En ég á tæpast von á því að hægt sé að ganga frá prentaðri dagskrá viku fram í tímann — og það er reyndar alveg útilokað af þeim ástæðum sem ég nefndi.