05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7442 í B-deild Alþingistíðinda. (5492)

499. mál, deilur kennarasamtaka og ríkisins

Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Það fór sem mig grunaði. Það rignir iðulega yfir okkur einhverjum meðaltölum, en það er auðvitað umhugsunarefni hversu margar kennslustundir á viku þeir kennarar kenna sem fá þau laun sem hæstv. fjmrh. taldi upp áðan og þar að auki er ýmis aukavinna innifalin. Það er t.d. dýr liður í rekstri áfangakerfis skóla að búa til stundaskrár tvisvar á ári þannig að þessi meðaltöl segja auðvitað ósköp lítið. Í máli hæstv. menntmrh. kom fram það sem hefur komið fram í gegnum árin. Við höfum einn menntmrh. af öðrum sem er fullur velvilja og vill auðvitað hafa mál síns ráðuneytis í góðu lagi, en forræði launasamninga er í höndum fjmrn. og þar strandar málið.

En mig langar aðeins vegna þeirra meðaltalstalna sem hér flæddu yfir okkur að vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær, 3. maí, og er skrifuð af Stellu Guðmundsdóttur, skólastjóra Hjallaskóla í Kópavogi, fyrir hönd kennara skólans. Þar segir, með leyfi forseta:

„Okkur lék hugur á að vita hver væru meðallaun í skólanum okkar. Hjallaskóli er venjulegur grunnskóli þar sem vinna kennarar á öllum aldri með mislanga starfsreynslu, allt frá einu upp í 27 starfsár. Margir þeirra eru í hlutastarfi, en við útreikningana er gengið út frá 100% vinnu allra. Það skal tekið fram að í neðangreindum tölum eru laun skólastjóra og yfirkennara reiknuð með.

Grunnlaun í marsmánuði 1988 án yfirvinnu reyndust að meðaltali vera 57 499 kr. Laun með yfirvinnu og forfallakennslu voru 64 882 kr. Í skólanum okkar hafa 25% kennara nú þegar sagt upp störfum gagngert vegna lágra launa.“

Hér segir auðvitað það sem allir vita sem hafa komið nálægt skólastarfi og væntanlega hæstv. fjmrh. líka að kennarastarf er annað og meira en það að ganga inn í kennslustund og opna bók. Með sömu rökum og hann færir í áðurnefndri grein væri hægt að segja að við hér á hinu háa Alþingi ynnum aðeins á þeim tímum sem fundir standa yfir.