05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7443 í B-deild Alþingistíðinda. (5493)

508. mál, iðnráðgjöf

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 918 hef ég borið fram fsp. til hæstv. iðnrh., svohljóðandi:

„Hvað hyggst iðnrh. gera til að tryggja áframhaldandi stuðning úr ríkissjóði við iðnráðgjöf í landshlutunum?"

Lög voru sett um iðnráðgjöf á árinu 1981. Þau höfðu að geyma svokallað sólarlagsákvæði þar eð endurskoða skyldi lögin fyrir árslok 1985. Það var ekki gert af þáverandi ríkisstjórn og féllu lög þessi úr gildi en framlög til iðnráðgjafar í landshlutunum hefur þó verið inni á fjárlögum þau ár sem síðan eru liðin en hafa fengist inn á síðustu stundu, t.d. við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár.

Með iðnráðgjöf í landshlutunum er verið að veita stuðning við þróunarstarf í landshlutunum og tengja þá starfsemi á iðnaðarsviði sem þar fer fram við stofnanir, þjónustustofnanir iðnaðarins og sjóði hér í höfuðborginni.

Virðulegur forseti, mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi hlýða á mál mitt.

Ég tel að reynslan af þessu starfi hafi sannað gildi þess, þó að ríkið hefði þurft að standa með mun myndugri hætti að þessum málum en gert hefur verið. Hugmyndin með lagasetningunni 1981 var sú að þar væri stigið fyrsta skref til aukins stuðnings af opinberri hálfu við þessa starfsemi. Það er t.d. allt of lítið að það sé aðeins einn maður að verki í heilum landshluta til þess að sinna þeim verkum sem þarna er um að ræða og þyrfti að vera unnt að auka þar við en ekki að mál þessi séu í þeirri óvissu frá ári til árs sem nú er.

Til þess að fá skorið úr um hug hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar til þessara mála er fsp. fram borin.