05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7448 í B-deild Alþingistíðinda. (5500)

510. mál, byggingarkostnaður Seðlabankahússins

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Í þeirri umræðu um offjárfestingu, sem gengið hefur í þessu þjóðfélagi og m.a. þróast á þann veg að menn hika við að telja skynsamlegt að skip séu byggð í landinu jafnvel þó að þar sé um endurnýjun að ræða, þykir mér rétt að leita eftir því við hæstv. viðskrh. að hér verði upplýst hver byggingarkostnaður Seðlabankahússins varð, framreiknaður á núvirði í íslenskum krónum. Og þar er að sjálfsögðu átt við að allt sé tekið með, bæði sú bílageymsla sem er undir húsinu og einnig þær innréttingar sem inn í húsið hafa verið settar.