11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það hefur sýnt sig að sú umræða sem hér var hafin í byrjun fundar um þingsköp hefur verið nauðsynleg. Hér hefur margt komið fram sem væntanlega verður forustu þingsins að gagni og hæstv. ríkisstjórn til nokkurrar áminningar í sambandi við þingstörfin og það hefur margt flotið með sem er íhugunarefni. Það er t.d. fróðlegt að heyra viðhorf nýrra þm. til starfshátta þingsins eins og komu fram í máli hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur. Ég er búinn að sitja allnokkur þing, en ég hef enn áhyggjur af því hvernig Alþingi birtist okkur sem erum að starfa hér svo að ekki sé nú talað um fólkið í landinu sem fær svona sýnishorn öðru hvoru af því hvernig Alþingi starfar. Ég er ekki að segja að það sé alltaf rétt mynd sem þar er dregin upp. Það er svo önnur saga. En á sumu eigum við sök sem sitjum hér á Alþingi. Margt mætti þar til langtum betri vegar færa og það hlýtur að vera markmið okkar allra að svo megi verða.

Ég held að eitt af því sem ætti að athuga vegna þeirrar reynslu sem við höfum orðið fyrir á þessu þingi og síðasta þingi, eftir að þingsköpum var breytt, sé að setja eindaga á framlagningu frv. af hálfu ríkisstjórnar, frv. sem ætlast er til að þingið afgreiði fyrir jólaleyfi, að það verði gert svipað og nú er í þingsköpum varðandi framlagningu mála sem ætlast er til að fái afgreiðslu fyrir þinglok. Er það ekki 15. apríl eða 1. apríl? Ég man ekki alveg dagsetninguna en þar er ákveðinn eindagi og ég held að það sé alveg nauðsynlegt að taka slíkt upp varðandi mál sem ætlunin er að ljúka afgreiðslu á fyrir jól. Þar sýnist mér að dagsetning eins og 15. nóv. sé í rauninni eðlilegur eindagi, ef ekki fyrr, ef mál eiga að fá eðlilega þinglega meðferð.

Það var getið um það réttilega í umræðunni að það eru mörg mál sem þurfa ekki að vera pólitískt ágreiningsefni þótt þau komi frá ríkisstjórn. Þau taka hins vegar tíma í meðferð þingsins því að þingið má auðvitað ekki kasta til höndum við afgreiðslu mála. Það eru slík mál sem ætti að vera lágmark að lægju fyrir strax í þingbyrjun, framlenging á gildandi lögum, gjaldamál af ýmsu tagi sem ekki þurfa að vera stór ágreiningsefni og annað af slíku tagi, þannig að það sé þá eðlilegt rúm fyrir hin stærri málin sem þurfa að fá ítarlega umræðu og sérstaklega vandaða meðferð.

Hér hafa störf nefnda verið rædd, herra forseti, með mismunandi hætti. Ég ætla ekki að fara að taka við skýringum þeirra nefndarformanna sem hafa tekið til máls. Ég var ekki sérstaklega að veitast að formönnum tiltekinna nefnda í mínu máli, en ég hlýt þó að gera ákveðna athugasemd við ummæli hv. 10. þm. Reykv. sem ég sé ekki hér í þingsal þessa stundina. Ég leyfi mér samt að mæla orð til hans þótt hann sjái ekki ástæðu til að sitja hér undir umræðu. Það er aldeilis furðulegt sjónarmið hjá þm. að það eigi ekki að taka mál, sem búið er að vísa til nefndar, til meðferðar á hennar vegum vegna þess að einhver ráðherra hafi látið orð falla um það að hann ætli sér að leggja fram mál um sama efni, í þessu tilviki um skipan framhaldsskóla í landinu. Við höfum nú svo oft, sem höfum verið hér á mörgum þingum, heyrt ráðherra hafa það við orð að mála sé að vænta frá þeim að um það hljóta allir sem reynslu hafa af að setja fyrirvara. Það hafa komið yfirlýsingar um mál sem sé von á fyrir næstu mánaðamót, en það hafa liðið ár og ekki bara eitt heldur tvö ár og ekki hafa málin sést og jafnvel ekki á heilu kjörtímabili. Þannig gæti farið um þetta marglofaða frv. af hálfu ríkisstjórnarinnar um framhaldsskóla án þess að ég vilji hafa uppi nokkrar fullyrðingar um það. Ég veit ekki hvar vinnslu þess er komið. En að það geti verið sjónarmið gagnvart þingnefnd af hálfu formanns nefndar að það eigi að bíða með mál frá stjórnarandstöðu vegna þess að ríkisstjórnin hafi látið til sín heyra að hún ætli að flytja frv. um sama efni, slíkar röksemdir eru fyrir neðan allar hellur eins og einhver hv. þm. raunar vék að í sínu máli.

Virðulegur forseti. Ég vænti þess að þessi umræða verði til góðs fyrir þingstörfin því að það hlýtur að vera okkar markmið allra, stuðningsmanna ríkisstjórnar sem stjórnarandstæðinga hér í hv. deild, og við reynum að leggjast saman á árar um það með forsetum og forustu þingsins að það verði hægt að ráða bót á því hörmungarástandi sem hér hefur ríkt í sambandi við þingstörfin undanfarnar vikur eða frá því að þetta þing var sett.