05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7452 í B-deild Alþingistíðinda. (5510)

511. mál, viðskiptahalli

Fyrirspyrjandi (Albert Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. hefur svarað þó svarið gefi ekki neina von um bjartsýni í efnahagsmálum sem fram undan eru því það kom ekkert fram um hvernig ríkisstjórnin ætlar að vinna að þessu mikla vandamáli. Ég harma að í hvert skipti sem ráðherrar koma upp og tala um efnahagsmál skuli þeir opinbera ráðaleysi sitt.

Það er talað um og því var ekki mótmælt að hallinn yrði milli 10 og 20 milljarðar og þá er ekki nauðsynlegt að fara alltaf eftir opinberum stofnunum, stofnunum í þjónustu ríkisstjórnarinnar sjálfrar, sem skapar þennan vanda. Það eru fleiri í þjóðfélaginu sem hafa vit á hvað þeir eru að gera og þá sérstaklega þeir sem vinna við inn- og útflutning og samskipti við útlönd. Þeir finna hvað klukkan slær.

Ríkissjóður er rekinn með jöfnuði, en hvernig er hann rekinn með jöfnuði? Hann er rekinn með jöfnuði m.a. með því að nú er komin fyrirframgreiðsla opinberra gjalda sem þýðir að ríkissjóður þarf ekki að slá út á væntanlegar tekjur frá opinberum stofnunum og borga vexti af því. Þeir fá peningana fyrir fram þannig að það er búið að flytja vaxtakostnað þjóðarinnar, vaxtakostnað ríkisins og ríkissjóðs yfir á fólkið í landinu með fyrirframgreiðslu. Það bætir að sjálfsögðu halla ríkissjóðs fyrir utan 20–25 milljarða kr. meiri innheimtu í opinberum gjöldum og sköttum af fólkinu milli áranna. Það er ekki nema eðlilegt að staða ríkissjóðs batni þar með. En ég vil þá spyrja á móti: Hvað hækka skuldir Íslands bæði inn á við og út á við með gengislækkuninni og vegna gengislækkunarinnar vegna þess að við skuldum svo mikið fyrir? Hver er munurinn í íslenskum krónum á því sem við skulduðum fyrir gengislækkun og því sem við skuldum nú? Hann kemur hvergi fram.

Hæstv. fjmrh. opinberaði um daginn í ræðu sinni að viðskiptahallinn væri að hluta til vaxtagreiðslur ríkissjóðs upp á 7 milljarða og að ætla svo að segja að það séu bara 3 milljarðar í viðbót þannig að viðskiptahallinn verði ekki nema um 10 milljarðar, 3 milljörðum fram yfir það sem ríkissjóður á að greiða í vexti og er innifalið í viðskiptahallaupphæðinni. Þetta er svo mikill blekkingarleikur að það nær ekki nokkurri átt.

Ég veit ekki hvað hæstv. forsrh. meinar með að það hafi orðið áföll hér í efnahagsmálum, efnahagsáföll. Er það góðærið? Er góðærið komið út í það að vera áfall fyrir ríkisstjórnina? Er það áfall fyrir ríkisstjórnina að hafa ekki hámarksverð fyrir afurðir frá útlöndum allan tímann, það þurfi alltaf að vera hærra verð og hærra verð á hverju einasta ári.

Mér þykir vont að heyra að hámarksverð verður alltaf að vera fyrir hverja sendingu til þess að hægt sé að reka þjóðfélagið. Það er með eindæmum og það er ekkert fyrirtæki í landinu sem ekki á að þola einhverjar smásveiflur þó að það sé ekki alltaf hámarksverð sem það fær fyrir afurðir sínar.