05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7454 í B-deild Alþingistíðinda. (5513)

513. mál, rekstrarhalli á Seðlabankanum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Hin slæma afkoma Seðlabankans í fyrra, en þá voru gjöld umfram tekjur 1094 millj. kr., stafaði að langmestu leyti af því mikla misræmi sem varð á liðnu ári milli þróunar innlends verðlags og vaxta annars vegar en gengis og erlendra vaxta hins vegar, fyrirbæris sem hv. fyrirspyrjandi, 2. þm. Vestf., hefur áður gert að umræðuefni í þessum sal og víðar.

Seðlabankinn á verulegan hluta sinna eigna í erlendum gjaldeyri, en á móti koma innlendar innstæður innlánsstofnana og annarra sem þar geyma fé sitt. Þróunin sem ég lýsti í fyrstu orðum mínum var því bankanum einkar óhagstæð. Slíkt hefur áður gerst einstök ár, t.d. árið 1983, en þá varð halli á rekstri Seðlabankans enn meiri að raungildi en hann varð í fyrra. Yfir lengri tíma litið jafnast hins vegar svona sveiflur þar sem á milli koma ár þegar þessar stærðir, sem ég nefndi, innlendur kostnaður, innlent verðlag og vextir annars vegar og gengi og erlendir vextir hins vegar, hreyfast á gagnstæðan hátt. Seðlabankinn hefur þrátt fyrir þessa gengisáhættu sem kalla mætti yfirleitt verið með sæmilega afkomu til jafnaðar. Þá vil ég geta þess sem sérstakrar ástæðu fyrir því hversu mjög gjöld fóru fram úr tekjum í fyrra að byggingarkostnaður á árinu 1987 hafði veruleg áhrif á afkomu bankans, enda munu þá hafa verið gjaldfærðar í rekstrarreikningi 321 millj. kr. ef ég man rétt. En þar sem framkvæmdum við húsið er lokið, eins og kom nú reyndar fram hér áðan, mun þessi þáttur ekki hafa áhrif á afkomu bankans í framtíðinni.

Af þessu sem ég hef sagt má vonandi sjá að afkomusveiflur af þessu tagi verða ekki jafnaðar með því einu að draga úr mannafla eða lækka rekstrarkostnað. Þessi afkomuniðurstaða stafar fyrst og fremst af eignabreytingum og sveiflum í verðlagsstærðum innan lands og utan. Þetta breytir því alls ekki að það er að sjálfsögðu jafnan markmiðið að tryggja sem hagkvæmastan rekstur bankans og halda þar öllum kostnaði og mannafla innan hóflegra marka og mun ég, eins og ég hef þegar gert, beina því til Seðlabankans að þetta eigi þeir, sem þar ráða húsum, að kappkosta. Ég tel það vel farið að þingið beini sjónum sínum að þessari stofnun eins og öðrum sem ríkið á eða eru hluti af ríkiskerfinu.

Vegna orða hv. fyrirspyrjanda um fjölgun starfsmanna við bankann vil ég leyfa mér að vekja athygli á því að í lok sl. árs voru starfsgildi við bankann 143. Þeim hafði þá fjölgað á sl. tíu árum um níu starfsgildi, en við þetta hafa nú bæst 15 störf vegna þjónustu í hinu nýja húsi bankans, m.a. vegna leigjendanna sem eru þrír, Reiknistofa bankanna, langstærst, og svo Þjóðhagsstofnun og Iðnþróunarsjóður, sem taka þátt í þessum kostnaði varðandi rekstur hússins.

Varðandi þá þætti fsp. sem lúta að sölu eigna langar mig að benda á að um leið og bankinn flutti í nýtt húsnæði seldi hann fasteignir við Austurstræti og geymsluhúsnæði við Dugguvog. Þannig hefur hann að því leyti hlýtt ráðum af því tagi sem hv. fyrirspyrjandi hafði hér helst uppi.

Miðað við núverandi aðstæður og nýtingu bankahússins, sem nú er leigt að 4/10 til öðrum aðilum, er ekki grundvöllur fyrir sölu eignar bankans við Einholt hérna í bænum. Þó finnst mér ástæða til þess að athuga það. Þar eru nú skjalageymslur bankans og sameiginlegt seðla- og myntsafn hans og Þjóðminjasafnsins, en það er sameign safns og banka, og er hin mesta þjóðargersemi, ég veit að hv. fyrirspyrjandi lætur sér annt um slíka hluti.

Öðrum fasteignum er nú ekki til að dreifa nema íbúð að Ægisíðu 54 sem bankinn fékk í arf eftir fyrrverandi bankastjóra sem bar hag bankans svo mjög fyrir brjósti að hann gerði hann að erfingja sínum. Það mun ekki, eftir því sem ég veit best, standa til að selja þá íbúð að svo stöddu.