05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7459 í B-deild Alþingistíðinda. (5521)

512. mál, innheimta söluskatts

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Fyrst er spurt: „Hvað veldur því að fjmrh. hefur ekki enn gefið út reglugerð um sérstaka innsiglaða afgreiðslukassa í verslunum?"

Svar: Skýringin á því að sú reglugerð er ekki birt er sú að tæknilegar ástæður hafa valdið töf. Sú töf sem hefur orðið á útgáfu þessarar reglugerðar á rætur að rekja til þess að ráðuneytið hefur viljað kanna alla möguleika og ganga úr skugga um það til hlítar hvaða tegundir peningakassa uppfylltu best þær öryggis- og eftirlitskröfur sem ráðuneytið vill gera með tilliti til skatteftirlitskerfis.

Drög að þessari reglugerð hafa verið lögð fram tvisvar. M.a. að höfðu samráði við mikinn áhugamann um þetta mál úr röðum þingmanna komst ég í fyrra skiptið að því að reglugerðarákvæðin væru ekki viðhlítandi og að því er varðaði seinni drögin var það niðurstaðan eftir umræður við tæknimenn að enn þyrfti að gera betur. Þessar athuganir hafa orðið tímafrekari en ætlað var, en þær athuganir eru nú á lokastigi og það líður ekki á löngu áður en þessi reglugerð verður gefin út og verður þá um skyldu til notkunar á peningakössum í smásöluverslun og þjónustustarfsemi ýmiss konar að ræða og þá frá því gengið að viðkomandi peningakassar uppfylli ströngustu skilyrði um innri búnað. Þar má fyrst og fremst nefna ytri og innri strimil og innri dagsöluteljara sem ekki er á færi nema fagmanna að endurstilla. Niðurstaðan er því sú að þarna hefur orðið töf á framkvæmd málsins sem á sér fyrst og fremst tæknilegar skýringar. En þetta mál er ekki gleymt.

„2. Hver eru skil verslana á söluskatti fyrstu þrjá mánuði þessa árs í samanburði við sl. ár?"

Svar: Innheimta söluskatts vegna sölu eftir áramót á umræddu tímabili, 1987, var 2 milljarðar 486 millj. kr. Á fyrsta ársfjórðungi 1988 nemur innheimta söluskatts 3.milljörðum 953 millj. kr. Aukningin milli ára er þess vegna 1467 millj. eða 59%. Það er mat sérfræðinga fjmrn. að u.þ.b. 2/3 hlutar þessarar auknu innheimtu stafi af breikkun skattstofnsins og fækkun undanþága, en afgangurinn, seinasti þriðjungurinn, stafi einkum og sér í lagi af bættri innheimtu.

„3. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu þess opinbera til að sporna við svokallaðri „svartri atvinnustarfsemi“?"

Svar: Eins og fram kom í tilvitnun hv. fyrirspyrjanda til mín áðan var dregin upp áætlun um sérstakar athuganir, eftirlitskannanir, sem gerð var í samráði þriggja stofnana, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, skattstofu í Reykjavík og reyndar fjórða aðilann, skattstofu í Reykjaneskjördæmi. Í þessu fólst að tekið var úrtak þeirra greina sem samkvæmt fyrri athugunum töldust undir áhættuflokka í þessu efni og sendar voru út eftirlitssveitir tveggja manna í senn, tólf sveitir alls, á sl. tveimur mánuðum. Ég vænti þess nú einhvern næstu daga að fá skýrslu frá skattrannsóknarstjóra um niðurstöður af þessum skyndikönnunum.

Þá er þess að geta að fyrir dyrum stendur að ráða í tekjudeild fjmrn. sérstaklega starfsmann sem hafi það verkefni á hendi öðrum fremur að annast samskiptin við framkvæmdaaðila í skattakerfinu, þ.e. ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og skattstofurnar í umdæmunum, til þess að fylgja eftir með daglegu eftirliti framkvæmd þessarar áætlunar um kannanir og kalla eftir skýrslum, meta árangur og fylgja framkvæmdinni að öðru leyti betur eftir.

Þær skattkerfisbreytingar sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir á skattkerfinu miða allar að því marki að auðvelda eftirlit og með vísan til þeirra upplýsinga sem ég gaf áðan teljum við að nokkur árangur hafi náðst nú þegar.

Að því er varðar frv. um virðisaukaskatt, sem nú liggur fyrir Alþingi, er það skattform þess eðlis að það gefur enn verulega bætta möguleika á að rekja feril viðskipta og er í áætlunum um virðisaukaskatt, sem fylgja grg. þess frv. sem hér verður rætt á eftir, gert ráð fyrir því að sá árangur náist vegna bættrar innheimtu að tekjuaukinn af þeim sökum verði um 1 milljarður kr. Það stafar einkum af þeim þætti þess skattkerfis sem lýtur af þeim hag sem framteljandi hefur af því vegna endurgreiðslu á innskatti að tryggja m.a. að dregið verði úr nótulausum viðskiptum.