05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7461 í B-deild Alþingistíðinda. (5525)

490. mál, biðlaun

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Það er á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar eins og þeirrar sem síðast sat að selja ríkisfyrirtæki. Þá er ríkið oft að leggja niður stofnanir og fyrirtæki sem hefur í för með sér uppsagnir starfsmanna. Þá vill það einnig henda að starfsmönnum er sagt upp störfum löglega eða ólöglega með brottrekstri. Vaknar þá sú spurning í hve miklum mæli þetta á sér stað og hvaða kostnað ríkissjóður hafi af slíkum ákvörðunum fram yfir það sem gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði, en biðlaun eru þar mjög fátíð.

Fyrirspurnin um þetta efni er á þskj. 840 og er beint til hæstv. fjmrh. Fsp. er í tveimur liðum og er þannig, með leyfi forseta:

„1. Hvað greiddi ríkissjóður háar fjárhæðir í skaðabætur og biðlaun vegna skipulagsbreytinga, sölu ríkisfyrirtækja, ólögmætra uppsagna eða annarra ástæðna á árunum 1984–1987?

2. Hve margir fengu þessi biðlaun og í hve langan tíma að meðaltali hver um sig?"

Einnig væri fróðlegt að fá að vita, þótt spurningin sé ekki beint þannig orðuð, hvaða starfsmönnum ríkissjóður greiði biðlaun. Er það einungis í þeim tilvikum sem kveðið er á um í lögum um ríkisstarfsmenn þegar staða er lögð niður og starfsmaður er ekki endurráðinn eða á þetta líka við í öðrum tilvikum eins og þeim þegar stofnun er gefið nýtt nafn og starfsmaðurinn gegnir sömu eða sams konar stöðu og hann hafði?

Ef ástæður gefa tilefni til væri fróðlegt að fá álit hæstv. fjmrh. á því hvort í undirbúningi er, annaðhvort með lagasetningu eða á annan hátt, að breyta þeirri skipan sem verið hefur.