05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7477 í B-deild Alþingistíðinda. (5536)

436. mál, bifreiðagjald

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti minni hl. fjh.- og viðskn. sem leggur til að frv. verði fellt. Frv. gerir ráð fyrir því að það verði lögð sérstök gjöld á umferðina í landinu, svokallaður bifreiðaskattur eða bifreiðagjald. Út af fyrir sig er ég þeirrar skoðunar að það geti vel komið til greina að leggja skatta á bifreiðar og jafnvel bifreiðaeldsneyti þegar um er að ræða framkvæmdir í vegamálum eða mikilvæg verkefni á því sviði. Nú háttar hins vegar þannig til í annað sinn, hygg ég, að það er ekki varið krónu úr ríkissjóði til vegaframkvæmda. Þrátt fyrir markmið vegáætlunar um að verja 2,4% af vergri þjóðarframleiðslu til vegamála stöndum við núna frammi fyrir þeirri staðreynd að á árinu 1988 er gert ráð fyrir að framlög til vegamála nemi um 1,4% af vergri þjóðarframleiðslu. Þarna vantar upp á mjög verulega fjármuni sem teljast í milljörðum króna.

Ég tel ástæðulaust að halda þessum vinnubrögðum áfram, að skattleggja umferðina með þeim hætti sem gert hefur verið í þágu ríkissjóðs. Eðlilegra hefði verið að taka fjármuni af þessu tagi til vegaframkvæmda. Þess vegna leggjumst við þingmenn Alþb. gegn þessu frv.