05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7478 í B-deild Alþingistíðinda. (5539)

433. mál, sala fasteigna Grænmetisverslunar landbúnaðarins

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Nefndin hefur athugað frv. og mælir með samþykkt þess á grundvelli kaupsamnings um fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins milli ríkisstjórnar Íslands og Sölusamtaka íslenskra matjurtaframleiðenda sem dags. er 29. júlí 1986.

Á fund nefndarinnar komu Magnús Sigurðsson, formaður Samtaka íslenskra matjurtaframleiðenda, Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og Guðmundur Sigþórsson frá landbrn. sem lögðu áherslu á að þessi heimild yrði lögfest á því þingi sem nú situr.

Jafnframt hefur nefndinni borist ályktun aðalfundar Landssambands kartöflubænda frá 1. maí sl. sem skorar á Alþingi að endurnýja heimild til fjmrh. til að staðfesta kaupsamninginn.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa miklu fleiri orð um þetta. Ég vek athygli á því að við undirritun þessa samnings féll úr gildi samkomulag kaupenda og landbrh. dags. 25. nóv. 1985 um skipan gerðardóms til að skera úr því hver sé réttarstaða Grænmetisverslunar landbúnaðarins svo að ljóst er að sú söluheimild sem hér liggur fyrir er bundin við þennan samning. Að öðrum kosti hlytu kaupendur að eiga þess kost að sá gamli ágreiningur risi upp á nýjan leik hver væri eignarstaða Grænmetisverslunarinnar. Legg ég áherslu á að þetta mál fái góðan og hraðan framgang.