05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7497 í B-deild Alþingistíðinda. (5562)

Frumvarp um breytingu á áfengislögum

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil spyrja hverju það sætir að það er ákveðið að halda fundum áfram á afbrigðilegum tíma seinni partinn í dag til þess að taka fyrir eitt þmfrv. af fjöldamörgum sem liggja fyrir þessari deild.

Mér er kunnugt um að það eru ein fimm þmfrv. sem ekki hafa enn þá komið til l. umr. hér í deildinni og hafa ekki komist inn á dagskrár á undanförnum fundum. Við flm. þessara frv. höfum reynt, eins og við höfum getað, að greiða fyrir meðferð þingmála með venjulegum hætti og ég held að það sé útilokað að saka stjórnarandstöðuna um að hún hafi sýnt ósanngirni við meðferð mála undanfarna sólarhringa. Þess vegna verð ég að segja það alveg eins og er að mér þykir það skjóta nokkuð skökku við að eitt þmfrv., frv. til laga um breytingu á áfengislögum, fái alveg sérstaka meðferð hér, neðrideildarmál sem búið er að liggja í neðri deild langtímum saman og á sama tíma liggur fyrir að a.m.k. fimm þmfrv. liggja órædd í deildinni og hafa ekki komist inn á dagskrána enn þá. Þar er um að ræða mörg mjög mikilsverð málefni, eins og t.d. frv. um meðferð á skattpeningum til Þjóðarbókhlöðunnar og fleira, svo dæmi séu tekin, sömuleiðis frv. um breytingu á lögum um almannatryggingar sem við flytjum, þm. Alþb. í deildinni. Það sætir mikilli furðu ef núna á, eftir þann langa fund sem við héldum í gær, frá því kl. tvö í gær og til kl. hálfþrjú í nótt, að fara að troða hér á fundi um eitt þmfrv. seinni partinn í dag.

Ég sé heldur ekki, virðulegi forseti, að staðan sé þannig núna hér í þessari deild að það séu svo mörg mál sem þurfi að keyra fram að ekki sé hægt að halda fundi á eðlilegum tíma, föstudag, mánudag, þriðjudag, ef þinginu lýkur á miðvikudag. Þannig að ég spyr forseta hverju það sæti að það er verið að taka þetta þmfrv. um breytingu á áfengislögum fram yfir öll önnur þmfrv. og hvort ekki er hægt að slíta nú fundi með eðlilegum hætti þannig að þm. geti undirbúið nál. fyrir morgundaginn í mörgum málum sem hér þurfa auðvitað umræðu eins og framhaldsskólafrv. og að menn taki þá til við umræðu um áfengismálin á eðlilegum tíma á morgun.

Ég bendi einnig á það, herra forseti, að það eru ýmis fleiri mál sem þarf að taka til hendi við og eyða nokkrum tíma í en ég sé þó ekki betur en að þessi breyting á áfengislögunum, sem á að fara að ræða hér á eftir á afbrigðilegum tíma, geti fengið eðlilega umræðu þó að það verði ekki fyrr en á morgun og mánudaginn.

Ég mótmæli því, forseti, að það sé verið að taka sérstakan tíma í þetta þmfrv. og gera það rétthærra en öll önnur þmfrv. sem hér liggja fyrir. Það er meiri vikalipurðin við þessi neðrideildarmál í þessari deild, það er meiri vikalipurðin. Það er sýnd meiri „respekt“ gagnvart þessum neðrideildarmálum en þeim málum sem við erum að basla við að flytja þessir þingmannaræflar hér í efri deild sem fá ekki einu sinni að komast hér á dagskrá til eðlilegrar umræðu. (EgJ: Nema með illu.) Nema með illu eins og hv. 5. þm. Austurl. varð í gær að beita flokksbróður sinn hörðu, hv. 2. þm. Norðurl. e., til þess að fá rædd mikilsverð mál eins og málefni landbúnaðarins og kjör bænda.

Herra forseti. Ég óska eftir skýringum á þessu máli um leið og ég mótmæli því að það sé verið að halda fund á afbrigðilegum tíma til að taka í gegn þetta neðrideildarmál. Það liggur ekkert á.