05.05.1988
Efri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7499 í B-deild Alþingistíðinda. (5564)

Frumvarp um breytingu á áfengislögum

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir þessi orð forseta Það er auðvitað bæði rétt og eðlilegt að þingmál fái eðlilega meðferð ef þau eru á dagskrá. Hins vegar hlýt ég að styðja málaleitan hv. 7. þm. Reykv. um það að önnur þingmannamál sem hér hafa verið flutt í deildinni njóti sömu eðlilegu afgreiðslu og komi hér á dagskrá eins og þau mál sem t.d. koma frá neðri deild. Ég vil líka minna hæstv. forseta á það að við vorum hér til hálfþrjú í nótt og það eru ekki svo mörg mál sem liggja fyrir þessari deild. Sum eru þó ærið veigamikil eins og t.d. mál sem varðar húsnæðismálin, kaupleigufrv., en það verður í nefndarumfjöllun á morgun. Það er auðvitað mikilvægt að vanda meðferð þess máls. Við munum væntanlega fjalla um það hér í deildinni á morgun. En málin eru ekki það mörg að við getum ætlað okkur eðlilegan fundartíma og þurfum ekki að keyra úr hófi fram.