11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka veitt leyfi til að taka til máls. Ég vil gjarnan gera það vegna ummæla hv. þm. Maríu Ingvadóttur áðan þegar hún talaði um að kanna áhuga kvenna á ábyrgðarstöðum. Í fyrsta lagi vantar okkur alla skilgreiningu á ábyrgðarstöðu og kunna skilgreiningarnar að vera mismunandi eftir því hvað maður leggur til grundvallar.

Í öðru lagi væri líka fróðlegt að vita hvað hv. þm. á við. Býst hún við að mjög mörgum konum hafi verið boðnar svokallaðar ábyrgðarstöður og þær neitað þeim? Hafa þær skorast svona mikið undan? Það gæti líka verið fróðlegt, fyrst við erum að tala um kannanir, að kanna hvort margar konur, t.d. ef þær neita eða ef þær víkjast undan eða sækjast ekki eftir ábyrgðarstöðum, gera það vegna þess hve þær gegna miklum ábyrgðarstöðum, hvað flestar konur skynja það þunga og mikla ábyrgð að bera ábyrgð á heimili sínu, börnum og fjölskyldu. Vegna þess hve þær eru oft einar um það og taka þær skyldur alvarlega hafa þær ekki á öxlunum rúm fyrir mikið meira en það þó að axlir kvenna séu nú oft ærið breiðar.

Talandi um að svona kvóti gæti hleypt konum óverðskuldað að, þá liggur kannski í orðunum: Eru þær sem ekki hafa komist í nefndirnar ekki þar vegna þess að þær verðskuldi ekki setu þar? Þegar ég talaði í gær var ég ekki að gefa nein endanleg svör við af hverju þetta væri, en ég var aðallega að lýsa áhyggjum í sambandi við þá skýrslu sem var hvati þessa frv., þ.e. mitt áhyggjuefni er fyrst og fremst þegar stjórnkerfið, þ.e. Alþingi, bæjar- eða sveitarstjórnir, er svo langt á eftir þegnum þessa lands sem treysta þessum konum til trúnaðarstarfa á vegum t.d. hins opinbera, þegar starfsfélagar þeirra innan kerfisins treysta þeim verr en kjósendur. Aðalástæðan fyrir bollaleggingum mínum í gær um ástæður var þessi skýrsla en ekki almenn staða kvenna. Ef það eru ekki fleiri konur sem verðskulda setu í nefndum og ráðum, þó þær hafi þegar verið kjörnar, hlýtur að vakna sú spurning: Voru þær kjörnar óverðskuldað á þing eða í bæjar- og sveitarstjórnir?