05.05.1988
Efri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7503 í B-deild Alþingistíðinda. (5598)

293. mál, áfengislög

Frsm. meiri hl. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 939 frá meiri hl. allshn. um frv. til laga um breytingu á áfengislögum nr. 82/1969, með síðari breytingum. Nefndin hefur athugað frv. og kallað á sinn fund fulltrúa frá áfengisvarnaráði, Böðvar Bragason, lögreglustjóra í Reykjavík, Ólaf Ólafsson landlækni og Höskuld Jónsson, forstjóra Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt eins og það kom frá Nd. Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar.

Þetta nál. er gert 28. apríl 1988 og undir það skrifa Jóhann Einvarðsson, Guðmundur Ágústsson, Salome Þorkelsdóttir, Eiður Guðnason, Eyjólfur Konráð Jónsson og Stefán Guðmundsson.

Minni hl. nefndarinnar, hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir, hefur skilað sérstöku minnihlutanefndaráliti. Rétt er að taka fram líka að allar þær umsagnir sem allshn. Nd. hafði fengið um þetta mál fengu meðlimir hv. allshn. þessarar deildar og gátu kynnt sér þær umsagnir mjög vel. Ég held að ekki þurfi að hafa mörg orð um þetta. Þetta er það mál sem Alþingi hefur sennilega hvað mest fjallað um í allan vetur. Það er búið að vera á dagskrá meira og minna á fundum í Nd. lengi fram eftir vetri og er sennilega það mál sem fjölmiðlar hafa einna mest fjallað um í vetur.

Ég ætla því ekki að fjölyrða á þessu stigi meira um frv. sem flm. þessa meirihlutanál. Ég legg til að frv. verði samþ. eins og meiri hl. nefndarinnar gerir.