12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

37. mál, fréttastofur Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Fsp. er ég legg fyrir hæstv. menntmrh. á þskj. 37 um rekstur fréttastofa Ríkisútvarpsins, sjónvarpsins og kostnað við fréttaöflun er í samræmi við þá ábyrgð, er ég tel að m.a. hvíli á herðum okkar alþm., að benda á hvar hugsanlega megi betur fara í rekstri, hvar hugsanlegt sé að samræming verkefna geti orðið til hagræðis, hvar megi ná fram sparnaði o.s.frv. í ríkisreknum fyrirtækjum. Þó ber að varast að breyta aðeins breytinganna vegna.

Ég tel að víðar megi beita hagræðingu og sparnaði en nú er gert hjá ríkisfyrirtækjum. Stór liður í að ná fram meiri sparnaði á rekstrarkostnaði fyrirtækja í umsjá ríkisins er að gera starfsfólk meðvitaðra um mikilvægi þess að spara. Í því sambandi mætti vel hugsa sér einhvers konar keppnisform milli fyrirtækja eða deilda innan fyrirtækja, keppni í hagræðingu og sparnaði, því ekkert er eins hvetjandi og kitlar metnað fólks meira en samkeppni og samanburður við aðra.

Alls staðar í ríkisgeiranum á að gera starfsfólk ábyrgara og gera því að standa skil á hugsanlegri ofnotkun á vörum og tækjum í þess umsjá. Gera þarf úttekt á því hvers eðlis notkun tækja og hluta sé innan viðkomandi fyrirtækis eða deilda innan fyrirtækis og miða síðan aðhald og eftirlit við það. Með þessu móti má áreiðanlega ná árangri á sviði sparnaðar.

Fsp. sú er ég legg fram er tilkomin m.a. með ofangreint í huga.

Ég tel að hugsanlega megi beita meiri hagræðingu á sviði fréttaflutnings og ná meiri sparnaði þar. Sú hagræðing er ég sé fyrir mér er fólgin í því að samræma fréttastofur Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps.

Ég fæ ekki séð að með eins lítinn markað og við erum með sé nauðsynlegt að halda úti tveim fréttastofum og tel reyndar að ein ætti að duga. En það skýrist væntanlega í svari hæstv. menntmrh. hér á eftir eða staðgengils hans, hæstv. iðnrh.

Þarna má hugsanlega spara á sviði vinnuafls og í sambandi við kostnað við tæki og aðkeyptar fréttir. Sameiningarvottur er reyndar farinn að sjást og á ég þar við að t.d. eru nú fluttar útvarpsfréttir í dagskrárlok sjónvarpsins og nú er í undirbúningi samvinna íþróttafréttamanna þessara tveggja fréttastofa. Þetta er vel og sýnir að menn eru að vakna upp við það sem eðlilegt hlýtur að teljast, þ.e. að óþarfi sé að aðskilja þessar tvær fréttastofur svo algjörlega sem verið hefur. Auðvitað verður alltaf einhver aðskilnaður milli deildanna en yfirbyggingin á að vera ein og hin sama.

Spurt er einnig um kostnað við fréttamenn og fréttaöflun erlendis frá. Það er gert með það í huga að það telst varla eðlilegt að mínu mati að halda úti fréttamönnum erlendis þaðan sem við kaupum allar helstu fréttir frá þarlendum fréttastofnunum eða alþjóðafréttastofnunum. Það er hins vegar ekkert við það athuga að senda út fréttamenn þegar tilefni gefast.

Ég vil í lokin, herra forseti, lesa fsp. eins og hún liggur frammi fyrir þingheimi:

„1. Er nauðsynlegt að Ríkisútvarpið, sem rekur útvarpsstöð með tveim rásum og eina sjónvarpsstöð, haldi úti tveim fréttastofum?

2. Hvað kostar fréttaöflun frá erlendum fréttastofnunum?

3. Hver er kostnaðurinn af fréttamönnum er starfa erlendis á þeim stöðum þaðan sem keyptar eru fréttir, annaðhvort frá þarlendum fréttastofum eða alþjóðlegum fréttastofnunum?"