05.05.1988
Efri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7519 í B-deild Alþingistíðinda. (5603)

293. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hinn 30. des. 1982 lagði ég fyrir þáv. ríkisstjórn sem heilbr.- og trmrh. tillögu um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum. Tillagan var á þessa leið:

„Skipuð verði á vegum ríkisstjórnarinnar nefnd sem vinni að undirbúningi tillagna um opinbera stefnu í áfengismálum, sbr. efni þál. sem samþykkt var á Alþingi 7. maí 1981. Með starfi þessarar nefndar á að stefna að því að ná fram þeim grunni er byggja mætti á heildstæða og markvissa stefnu og löggjöf um stjórnun áfengismála, þ.e. um tilbúning og dreifingu áfengis, áfengisvarnir, meðferð áfengissjúkra, rekstur meðferðarstofnana og um upplýsinga-, rannsókna- og fræðslustarfsemi.“

Gert var ráð fyrir því að nefndin tæki til starfa strax frá og með áramótun 1982, en þar sem það dróst að tilnefna menn í nefndina frá þeim fjölmörgu aðilum sem við óskuðum eftir tilnefningu frá var hún ekki skipuð fyrr en nokkrum mánuðum síðar. Nefndin skilaði áliti sínu til ríkisstjórnarinnar 6. jan. 1987, en hún hafði áður skilað þremur áfangaálitum til ríkisstjórnarinnar.

Nefndin gerði tillögu 6. jan. 1987 til ríkisstjórnar um áfangaskiptingu verksins þannig að tillögur um ákveðna þætti gætu legið fyrir á mismunandi tímum. Áfangarnir voru þessir:

Fyrstu þrír mánuðirnir í starfi nefndarinnar fóru í að kanna sértillögur um átak í þessum málum sem yrði unnt að hrinda í framkvæmd þegar á næstu missirum og áður en ríkisstjórnin hefði endanlega ákveðið hvernig standa ætti að stefnumótun í áfengismálum. Ég segi þetta í tilefni af orðum hv. 8. þm. Reykv. áðan þegar hann sagði að það væri nauðsynlegt að um þessi mál, áfengismál og þann vanda sem þeim fylgir í okkar samfélagi óhjákvæmilega, og í slíkum nefndum væru menn sem hefðu góða yfirsýn, þekktu til mála sem gerst.,

Hverjir voru kallaðir til í þessa nefnd samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar? Það voru fulltrúar frá öllum þingflokkunum, einn frá hverjum þingflokki, einn fulltrúi frá hverju þeirra ráðuneyta sem með áfengismál fara, þ.e. heilbrmrn., dómsmrn., menntmrn. og fjmrn., og að auki einn frá forsrn. og síðan tilnefndu í nefndina landlæknisembættið, áfengisvarnaráð, meðferðarstofnanir ríkisins og SÁA, alls 17 manns.

Nefndin fékk frjálsar hendur um samráð við aðila sem tengjast þessum málum á einn eða annan hátt. Í starfi sínu fylgdist nefndin nákvæmlega með tillögum og ákvörðunum sem urðu til á þessum tíma á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þeir sem áttu sæti í nefndinni voru þessir, hér nefndir til að sýna að það voru kallaðir til þeir sem þekktu þessi mál og höfðu víðtæka yfirsýn: Árni Einarsson uppeldisfræðingur, tilnefndur af samvinnunefnd bindindisfélaga, Árni Gunnarsson alþm., tilnefndur af Alþfl., Björgólfur Guðmundsson, formaður SÁÁ, tilnefndur af SÁÁ, Guðrún Ágústsdóttir borgarfulltrúi, tilnefnd af Alþb., Guðrún Ragnarsdóttir þjóðfélagsfræðingur, tilnefnd af Bandalagi jafnaðarmanna, Gunnar Gunnarsson sálfræðingur, tilnefndur af fjmrh., Jóhannes Bergsveinsson yfirlæknir, tilnefndur af meðferðarstofnunum ríkisins, Jón Ormur Halldórsson, tilnefndur af forsrh., Jón Helgason þáv. alþm., nú ráðherra, tilnefndur af Framsfl., Kristín Jónsdóttir kennari, tilnefnd af Samtökum um kvennalista, Níels Árni Lund íþróttafulltrúi, tilnefndur af menntmrh., Ólafur Haukur Árnason áfengisvarnaráðunautur, tilnefndur af áfengisvarnaráði, Ólafur Walther Stefánsson skrifstofustjóri, tilnefndur af dómsmrn., Pétur Sigurðsson alþm., tilnefndur af Sjálfstfl., Sigmundur Sigfússon geðlæknir, tilnefndur af landlækni. Ritari nefndarinnar og sérstakur starfsmaður var ráðinn þegar í upphafi Hrafn Pálsson félagsráðgjafi, nú deildarstjóri í heilbr.- og trmrn.

Nefndin sendi frá sér, eins og ég sagði áðan, ítarlegar tillögur um þessi efni til ríkisstjórnarinnar, fyrst áfangatillögur allmargar, en síðan heildartillögur í ársbyrjun 1987.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég hygg að það séu fá dæmi þess að Alþingi hafi foraktað nefnd og álit hennar með jafneindregnum hætti og gerðist í þessu máli. Hér var virkilega um það að ræða að hópur sérfróðra aðila var kallaður til til að gera tillögur um raunverulega stefnu í áfengismálum á vegum opinberra aðila. Þessi nefnd sendi skýrslur til dómsmrh., til heilbrmrh., til menntmrh., til forsrh. og það var ekkert gert með þessar tillögur. Þannig gerðist það að í rauninni varð það plagg sem nefndin sendi frá sér heldur gagnslítið, en í staðinn fyrir að taka alvarlega á þeim þáttum sem í plagginu eru ákvað Alþingi aftur og aftur að fjalla hér um það hvort ætti að innleiða áfengt öl í landinu eða ekki.

Þegar þessi nefnd samþykkir að leggja til að gripið sé til ráðstafana til að draga úr áfengisneyslu í landinu með markvissum hætti, hvernig svarar hið virðulega Alþingi þessari vönduðu tillögugerð sem er sett fram með heiðarlegum hætti að bestu manna yfirsýn, hvernig svarar þessi virðulega stofnun þá? Hún tekur plaggið, því er dreift á borð þingmanna og svo fer það þarna í ruslakörfurnar. Punktur.

En í rauninni bætti Alþingi svo um betur og tók fyrir frumvörp þráhyggjumanna sem hafa hér aftur og aftur verið að reyna að koma í gegn þessu bjórfrv. fyrst og fremst með þeim rökum að þeir segja: Það er ómögulegt fyrir Íslendinga að vera ekki eins og hinir. Og þeir segja: Það er hlegið að okkur þegar við komum til útlanda. Það er beinlínis þannig að menn standa á öndinni af flissi, útlendingar, þegar Íslendingar segja að það sé enginn bjór til á Íslandi. Og menn eru svo ógnarlega spéhræddir að þeir þoldu ekki að standa framan í útlendingum í þessu máli fremur en í virðisaukaskattsmálinu sem við vorum að ræða um í gær, þeir þorðu ekki og þoldu ekki að standa framan í útlendingum og segja: Við höfum engan bjór, og sögðu: Við verðum að vera eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir, og það var farið að róta hér í gegn bjórfrumvörpum.

Nú geta menn auðvitað sagt sem svo: Í rauninni breytir þetta sáralitlu, vegna þess að við höfum áfengi í landinu. Þetta breytir sáralitlu. Þetta er aðeins formbreyting. Og þá spyr ég hv. alþm. sem hér eru og ætla að styðja þetta mál: Til hvers eru þeir á Alþingi? Til hvers eru menn kosnir á Alþingi og til hvers sitja menn hér og starfa? Sitja menn ekki hér í þeirri góðu trú og sannfæringu að þeir eigi að vera hérna til að láta gott af sér leiða? Það eru örugglega uppi skiptar skoðanir um hvernig við með bestum hætti látum gott af okkur leiða. Það eru örugglega skiptar skoðanir um hvaða meginstefnum á að fylgja í þeim efnum. En við erum öll sannfærð um að við séum hérna til þess að valda einhverju jákvæðu með atkvæði okkar, með málflutningi, með áherslum, með tillögugerð í þessari virðulegu stofnun. Ég spyr þá hv. alþm. sem ætla að standa að því að samþykkja frv. um áfengan bjór: Er einn einasti þingmaður sem ætlar að standa að því sannfærður um að þetta muni bæta ástandið á Íslandi? Er einn einasti þingmaður sem ætlar að styðja frv. sannfærður um að það muni bæta ástandið í áfengismálum? Er einn einasti þingmaður í þessum sal sannfærður um að þetta muni fækka áfengissjúklingum? Er einn einasti þingmaður í þessum sal sannfærður um að þetta muni draga úr kostnaði ríkisins við meðferð áfengisvandamála? Enginn þingmaður er þeirrar skoðunar. Allir þingmenn viðurkenna, líka þeir sem styðja þetta mál, að með því að keyra það í gegn sé verið að taka áhættu, ekki fyrir okkur sem einstaklinga heldur fyrir þjóðina í heild. Það eru allir sammála um að það sé verið að taka umtalsverða áhættu. Og ég segi: Til hvers að vera að taka hana? Til hvers að vera að taka þessa áhættu? Erum við að taka þessa áhættu fyrir fáa vegna þess að við gerum marga hamingjusama? Eru það rökin? Það geta ekki verið rökin. Það væri ekki mannúðarstefna vegna þess að hamingja hinna fáu kemur okkur líka við. Þess vegna er það þannig í grundvallaratriðum að þegar fólk skoðar hug sinn og mér liggur við að segja hjartalag í máli af þessu tagi hljóta allir að komast að þeirri niðurstöðu að hér er ekki verið að ganga götuna til góðs. Hér er verið að taka áhættu fyrir þjóðina sem engin ástæða er til að taka. Við leysum engan vanda með því til eða frá.

Og af hverju ætli það sé, herra forseti, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, þar sem eru saman komnir þeir menn sem best þekkja til þessara mála með vísindalega þekkingu, gróna um áratuga skeið, komast að þeirri niðurstöðu á þingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að það beri að stefna að því að reyna að draga úr neyslu áfengis? Það er vegna þess að menn gera sér grein fyrir þeim hættum sem þessi efni hafa fyrir heilsufar þjóðanna. Og er það þannig að hér í þessari góðu deild okkar, Ed., norður við ysta haf, sé saman komin vísindaleg þekking og vissa innan í mönnum fyrir því að það sé hægt að segja: Allt þetta eru í raun og veru tóm aukaatriði sem verið er að segja við okkur af þessum alþjóðlegu sérfræðingum. Ég segi fyrir mig: Ég tel mig ekki þess umkominn að standa frammi fyrir þjóðinni sem ábyrgur alþm. og segja: Öll þessi sérfræðiálit eru lítils virði, þau eru einskis virði. Eða hafa menn kannski sannfærst um að rétt sé að innleiða áfengt öl hér á landi vegna þess að þeir hafi farið yfir þær stofnanir sem sinna meðferð áfengismála í þessu landi og sannfærst um að það sé nauðsynlegt að auka heldur við þær en hitt? Ég spyr hv. þm.: Hafa þeir kynnt sér ástandið á þessum stofnunum? Hafa þeir rætt við það fólk sem hefur orðið áfengisvandamálinu að bráð? Hafa þeir hitt allan þann fjölda ungs fólks, barna, unglinga sem hefur orðið fyrir barðinu á þessu vandamáli? Ætla menn þrátt fyrir þessa reynslu, sem allir hafa, að ganga núna fram fyrir þjóðina og segja: Það sem þjóðin þarf núna er meira áfengt öl?

Ég hef velt því fyrir mér hvernig stendur á því að hv. þm., sem hljóta að hafa þennan skilning á sínum stað, ætla samt sem áður að hella áfengu öli yfir þjóðina. Getur það verið vegna þess að menn segi sem svo: Það er svo mikið af þessu hér í landinu hvort eð er? Getur það verið vegna þess að menn segja sem svo: Það er svo miklu smyglað, það kemur svo mikið með skipunum, það kemur svo mikið í Fríhöfninni að það þýðir í raun ekkert að vera að þessu? Getur verið að það séu rökin? Þá eru það nákvæmlega jafnvitlaus rök og segja: Hættum að innheimta skatta af því að skattsvikararnir eru svo margir. Það væru pottþétt rök eða hitt þó heldur. Nei, það væri hundalógík, hv. þm. En það er einmitt það sem verið er að segja. Í stað þess að sporna við vandanum, í stað þess að taka á vandanum á að gefast upp, setja upp tærnar, leggjast flatur og segja: Úr því að þetta er svona skulum við bara leyfa þessu öllu að koma hérna inn. Auðvitað getur Alþingi Íslendinga ekki brugðist við með þessum hætti. Auðvitað hlýtur Alþingi Íslendinga að horfa á hlutina heildstæðara en svona. Þessi rök duga ekki. En þau eru, ég finn það alveg á hv. þm. sem styðja þetta mál, einu rökin sem þeir eiga, að það sé hvort eð er svo mikið af þessu sulli að það sé best að sulla því bara löglega yfir, það er svo mikið af því ólöglega.

Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að ég held að það sé nauðsynlegt þegar menn ræða þessi mál að þá séu grunnrökin skoðuð eins og þau sem ég hef verið að reyna að setja fram í fullri alvöru. Mér hefur stundum fundist að umræðan um þessi mál, t.d. hjá vinum okkar þarna hinum megin við hurðina, sem ég hef að vísu mest séð í fjölmiðlum og reyndar heyrt aðeins í gegnum vegginn, hafi oft ekki verið til að skýra vandann satt best að segja. Ég segi alveg eins og er að mér finnst að þar halli sáralítið á í málflutningnum.

Mér finnst t.d. ekki í rauninni neitt innlegg í mál af þessu tagi að búa til sakaskrá og lesa upp nöfn 130 eða 140 lækna á annan hvorn veginn. Ég held að slíkur málflutningur þjóni ekki þinginu þegar það er að komast að niðurstöðu í þessu máli. Ég held að það sé miklu vænlegra að við skoðum grundvallaratriðin lið fyrir lið. Það eru þessi grundvallaratriði, herra forseti, sem ég hef hér verið að gera að umtalsefni.

Ég tel ekki ástæðu til þess, herra forseti, og hef aldrei verið þeirrar skoðunar að það þjónaði neinum tilgangi að vera að halda hérna langar málþófsmessur um þetta mál frekar en önnur. Það hefur ekki verið tíðkað í þessari deild í vetur að menn væru í málþófi heldur hafa menn skipst á skoðunum með eðlilegum málefnalegum hætti. Frá því kunna að vera örfáar undantekningar og þar held ég að við eigum öll einhvern hlut að máli og enginn sé heilagur. En í heildina tekið hafa umræður verið málefnalegar og jákvæðar. Og ég vona að rök sem eru sett fram heiðarlega hrífi enn á menn. Ég vona að menn geti enn þá eða öllu heldur þori að skipta um skoðun undir umræðum í þinginu ef þeir heyra betri rök en þeir hafa áður hlustað á. Ég vona að það sé þannig að hver einasti þingmaður finni hjá sér þörf fyrir að taka sjálfstæða, heiðarlega og málefnalega afstöðu á grundvelli þeirra raka sem flutt eru hverju sinni. Ég vona satt að segja í fullri alvöru, herra forseti, að áður en atkvæðagreiðsla fer fram um þetta mál skoði menn hug sinni og spyrji allir, hver einasti þingmaður: Er ég að bæta ástandið með okkar þjóð með því að styðja frv. um áfengt öl? Er ég trúr þeirri skyldu sem ég hef sem alþm. gagnvart þjóðinni?

Það er ofboðslegt satt að segja, herra forseti, í þessum málum þegar þeir sem eru að styðja þetta mál eru að halda löngu forvarnarræðurnar. Það er eðlilegt að menn vilji efla forvarnarstarf, það er eðlilegt í þessu efni. En það stangast á annars vegar að hella þessum milljónum lítra yfir þjóðina og hins vegar að segja: Forvarnir, forvarnir! Ætli það væri ekki skynsamlegra að forvarnirnar væru þær að við byrjum á Alþingi Íslendinga og ákveðum að fella þetta frv.? Það bætir ekki neitt, það leysir engan vanda og við vitum öll að við erum að taka áhættu fyrir þjóðina, fyrir börnin okkar og fyrir komandi kynslóðir í þessu landi.