12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

37. mál, fréttastofur Ríkisútvarpsins

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Þar sem hæstv. menntmrh. er ekki við í dag og ljóst er að fyrirspurnatími verður ekki nk. fimmtudag þótti eðlilegt að ég gerði tilraun til að svara þessari fsp. í stað hans.

Ég tel ástæðulaust að endurflytja þær fyrirspurnir sem koma fram á þskj. 37 en vegna þeirra leitaði menntmrn. eftir umsögn útvarpsstjóra og svar mitt byggist á þeim upplýsingum sem frá honum koma. Mun ég svara öllum þremur fyrirspurnunum í senn.

Þegar sjónvarpið hóf rekstur sinn árið 1966 var útvarpið eini ljósvakamiðillinn í landinu. Það var álit manna þá að fréttastofa útvarpsins hefði gott af því að fá samkeppni frá annarri fréttastofu ljósvakamiðils og algjör samstaða var um það hjá yfirstjórn Ríkisútvarpsins og útvarpsráði og viðkomandi ráðuneytum að önnur fréttastofa yrði sett á laggirnar. Reynslan sýndi að þessi ráðstöfun átti fullan rétt á sér. Nú má segja að viðhorfin séu önnur að því leyti að nú er samkeppni frá fleiri ljósvakamiðlum. Hvað sem því líður verður ekki fram hjá því horft að öflun frétta og enn frekar úrvinnsla frétta er með allt öðrum hætti fyrir sjónvarp en útvarp þannig að ekki eru horfur á að teljandi sparnaður næðist við að sameina fréttastofurnar.

Samvinna fréttastofanna hefur farið vaxandi í seinni tíð. Má þar nefna að áskrift að erlendum fréttastofum — þá er átt við Reuter og norrænar fréttastofur — er sameiginleg og þess eru ýmis dæmi að fréttamaður frá annarri hvorri fréttastofunni er fenginn til þess að sjá um fréttir fyrir báða aðila. Þegar öll starfsemi Ríkisútvarpsins verður komin saman í einu húsi eru líkur á að enn meiri samvinna verði hagkvæm.

Árið 1986 var kostnaður við fréttaöflun frá erlendum fréttastofum eins og hér verður greint frá: Í fyrsta lagi er það fréttastofa útvarpsins. Þar voru greidd til fréttastofu Reuters 608 þús. kr. Fréttastofa sjónvarps greiddi í fyrsta lagi áskrift að fréttamyndum Visnews og síðan World Television News, samtals 5 millj. 755 þús. kr. Síðan voru greidd gjöld á árinu 1986 vegna gervihnattasendingar og fyrir það greiddi fréttastofa sjónvarps 6 millj. 321 þús. kr. Önnur þjónusta sem greitt var fyrir af hálfu fréttastofu sjónvarps, þ.e. þjónusta frá erlendum fréttastofum, var 606 þús. kr. Samtals hafa þessar fréttastofur þess vegna greitt vegna fréttaöflunar frá erlendum fréttastofum á árinu 1986 12 millj. 682 þús. kr.

Fréttamaður sjónvarpsins í Kaupmannahöfn er eini fastráðni fréttamaður Ríkisútvarpsins erlendis. Aflar hann frétta frá öllum Norðurlöndunum. Heildarkostnaður vegna starfs fréttamanns sjónvarps í Kaupmannahöfn nam 3 millj. 84 þús. kr. árið 1986. Allmargir Íslendingar við nám eða störf erlendis senda fréttastofu útvarpsins pistla um erlend málefni sem sérstaklega snerta íslenska hagsmuni og tíðindi er áhugaverð þykja hér á landi en hinar alþjóðlegu fréttastofur gera lítil sem engin skil. Enn fremur flytja fréttaritararnir frásagnir af stórtíðindum í viðkomandi löndum þegar þess er sérstaklega óskað.

Í fyrra, þ.e. á árinu 1986, áttu 14 fréttaritarar erlendis þátt í þessari tegund fréttaöflunar en framlag þeirra var mismunandi mikið. Greitt er fyrir hverja frétt samkvæmt mati. Heildarútgjöld vegna þessarar þjónustu námu 4 millj. 114 þús. kr. hjá fréttastofu útvarps.

Fréttastofa sjónvarpsins greiddi hins vegar 1251 þús. kr. vegna fréttaöflunar íslenskra fréttaritara erlendis, aðallega vegna frétta frá Bandaríkjunum.

Eins og ég sagði í upphafi er þetta svar sem byggist á upplýsingum frá útvarpsstjóra og vonast ég til að fyrirspurnunum hafi hér með verið svarað en ég vil þó nota tækifærið til að taka undir það með hv. fyrirspyrjanda, eins og kom fram í hans máli, að auðvitað hefur samkeppni á milli ljósvakamiðla gjörbreytt þessari stöðu og leitt til hagræðingar eins og kom fram í máli hans.