05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7525 í B-deild Alþingistíðinda. (5610)

441. mál, ábúðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á ábúðarlögum á þskj. 791. Efni frv. er um að veita heimild til veðsetningar vegna bústofnskaupa á ríkisjörðum. Áður voru í gildi heimildir fyrir sveitarstjórnir að veita ábyrgð fyrir bústofnskaupalánum, en sú heimild fyrir sveitarstjórnir hefur nú verið niður felld. Þá skapast vandamál fyrir ábúendur ríkisjarða þar sem samkvæmt núgildandi ábúðarlögum er ekki heimild til að þeir geti veðsett eignir sínar á ríkisjörðum. Þess vegna er frv. flutt. Þetta hefur komið upp núna sérstaklega hjá þeim bændum sem hafa vilja til að hverfa að einhverju leyti frá refarækt yfir í minkarækt, en þá strandar á því að þeir geti notið þessarar aðstöðu til jafns við ábúendur annarra jarða.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.