05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7525 í B-deild Alþingistíðinda. (5612)

389. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar eins og það kemur frá hv. Ed. og vísa til þskj. 1021.

Í 1. gr. voru í upphaflegri gerð frv. talin nöfn nokkurra manna sem sótt höfðu um íslenskan ríkisborgararétt og uppfylltu að mati dómsmrn. ótvírætt þau skilyrði sem Alþingi hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum. Þegar ég mælti fyrir frv. í Ed. lágu fyrir í ráðuneytinu nokkrar umsóknir að auki um borgararétt sem á ýmsan hátt virtust meðmælaverðar þótt þær uppfylltu ekki að öllu leyti þau skilyrði sem Alþingi hefur yfirleitt sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum. Þessar umsóknir voru sendar hv. allshn. Ed. Hv. allshn. Ed. hefur tekið afstöðu til þessara umsókna og bætt við allmörgum nöfnum þannig að alls er hér gerð tillaga um að 38 menn hljóti íslenskan ríkisborgararétt. Við þessa vinnu naut hv. allshn. Ed. aðstoðar embættismanna Alþingis svo sem venja hefur verið auk starfsmanna dómsmrn.

Ég er sammála hv. allshn. Ed. um tillögur þeirra eins og þær birtast á þskj. 1021.

Í 2. gr. eru sömu ákvæði um nafnabreytingar þeirra manna erlendra sem ríkisborgararétt öðlast og gilt hafa á undanförnum árum.

Ég vil láta þess getið að við umræður í Ed. kom fram að ráðgert er að dómsmrn., allsherjarnefndir beggja deilda og skrifstofa Alþingis efni til samráðs á komandi sumri um hugsanlegar breytingar á þeim reglum sem gilt hafa frá því í maí 1978 til viðmiðunar við veitingu ríkisborgararéttar. Var þar m.a. nefnt að fyrir dyrum standi að Íslendingar gerist aðilar að þeim samningi milli Norðurlanda sem gilt hefur frá því árið 1969 um gagnkvæman rétt Norðurlandamanna til að öðlast ríkisborgararétt í öðru landi innan Norðurlandasvæðisins með skjótari hætti en gildir um menn með annað ríkisfang. Þá eru einnig til umræðu á vettvangi Evrópuráðsins breytingar á gagnkvæmum rétti til þess að öðlast ríkisborgararétt innan Evrópu. Verður það hvort tveggja lagt fyrir og tilraun til þess gerð að móta um þetta nýjar reglur.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.