05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7540 í B-deild Alþingistíðinda. (5615)

431. mál, virðisaukaskattur

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það hefur lengi verið í athugun hjá stjórnvöldum, einkum í fjmrn., að breyta álagningu veltuskatts á vörur og þjónustu úr söluskattsformi og yfir í virðisaukaskatt. Þetta mál hefur verið rætt og rannsakað af ríkisstjórnum undanfarinn 11/2 áratug og þetta mál var m.a. ásamt mörgu fleira til athugunar þegar ég starfaði í fjmrn. Ég lét þá kanna sérstaklega þetta mál frá mörgum hliðum, en ég flutti ekki frv. um álagningu virðisaukaskatts einfaldlega vegna þess að það varð niðurstaða mín að þessi skattaleið væri ekki heppileg, ekki skynsamleg af ýmsum ástæðum.

Auðvitað er skoðun málsins sjálfsögð og eðlileg.

Málið hefur verið athugað býsna lengi, en það er ekkert sem segir að málið hafi batnað við það að vera lengi til athugunar og ég sé ekki að málið sé neitt betra nú en það var þegar ég hafnaði því á sínum tíma að flytja frv. um upptöku virðisaukaskatts.

Það voru fyrst og fremst tvær almennar ástæður sem ollu því að ég var ekki hlynntur upptöku virðisaukaskatts. Í fyrsta lagi óaði mér og mörgum öðrum við því að skriffinnska mundi aukast gríðarlega við upptöku skattsins og það held ég að sé enn þann dag í dag alveg óumdeilt að starfsmenn skattstofanna verði að vera tvöfalt fleiri en áður var þegar þessi skattur kemur til framkvæmda og sjálfsagt mun þeim fjölga sem vinna að þessum málum mjög verulega, sumir telja að það bætist við allt að 100 manns. Þetta var þá orðin reynsla margra annarra þjóða og ýmsir í nálægum löndum, sem stutt höfðu á sínum tíma upptöku virðisaukaskatts, höfðu skipt um skoðun kannski fyrst og fremst vegna þessa atriðis, þessarar hliðar málsins. Hins vegar er það svo með skattbreytingar af þessu tagi að þegar menn eru á annað borð komnir út í kviksyndið er oft erfitt að hífa sig til baka og þar af leiðandi hefur það hvergi gerst að menn hyrfu aftur frá þar sem álagning virðisaukaskatts hefur verið ákveðin, en enginn vafi á því að víða hafa menn áttað sig á því eftir á að um hafi verið að ræða feilspor.

Hitt atriðið sem ég hef lengi sett fyrir mig í sambandi við virðisaukaskattinn er það að með álagningu hans er verið að leggja skattbyrði í stórauknum mæli á launafólk í landinu og létta skattbyrði á móti hjá atvinnurekstri. Það felst sem sagt ákveðinn tilflutningur í þessu skattformi frá því sem er í söluskattsforminu og ég hef ekki talið mig geta mælt með því að sá tilflutningur ætti sér stað, síst af öllu þegar eins illa er búið að launafólki og raun ber vitni hér á landi hvað kjör snertir.

Vissulega væri hægt að komast að nokkru leyti hjá þessu með því að haga skattlagningunni með ákveðnum hætti og þá erum við komin að þriðja stóratriðinu sem varðar þessa skattlagningu, þ.e. hvaða búningur skattkerfinu er valinn. Þar kemur þrennt til greina. Í fyrsta lagi hvort undanþiggja á ákveðnar tegundir vöru og þjónustu og þá í öðru lagi hvort lagður er skattur á brýnustu lífsnauðsynjar og svo í þriðja lagi sá möguleiki að skatturinn sé lagður á í þrepum þannig að hann sé mismunandi eftir því hvaða vörutegundir eiga í hlut.

Ég vil fyrst taka fram að jafnvel þótt ég hefði fallist á að hyggilegt væri að leggja á virðisaukaskatt hefði ég aldrei talið koma til greina að leggja skattinn á mat og menningu frekar en félags- og heilbrigðisþjónustu sem allir virðast vera sammála um að ekki eigi að leggja skattinn á. En ég vek á því athygli að í mörgum nálægum löndum hefur sú leið verið valin að hafa fleiri en eina prósentu í skattinum og í aðildarríkjum OECD mun það oftar vera að um fleiri en eina prósentu sé að ræða en hitt að skatturinn sé algerlega flatur. Og sums staðar er matur hreinlega undanþeginn eins og er í Bretlandi.

Það er engin furða þótt Alþýðusamband Íslands hafi sérstaklega andmælt þeim skatti sem fólginn er í frv. með þeim rökum að ætlunin sé að leggja skattinn á með flatri prósentu yfir línuna. Það er auðvitað stórkostlegt hagsmunamál fyrir hina lægra launuðu að nokkur munur sé þar á gerður og eins nokkuð víst að ekki hefði verið ráðist í matarskattinn illræmda á liðnum vetri ef ekki hefði verið ætlunin einmitt að undirbúa jarðveginn fyrir upptöku virðisaukaskatts. Matarskatturinn í vetur var sem sagt skref í þá átt til þess að lokaskrefið yrði auðveldara og sætti ekki eins miklum andmælum.

Ég vil sérstaklega nefna annað atriði sem er meira en lítið vafasamt, en það er að nú á að skattleggja vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað og hækka þannig verð á íbúðarhúsnæði, fyrst og fremst nýju húsnæði sem síðan mun hækka almennt fasteignaverð í landinu að sama skapi. Þetta er að vísu eitt af þeim atriðum sem eru þess eðlis að ríkisstjórnin virðist ekki hafa gert upp við sig hvort hún ætlar að leggja skattinn á eða ekki eða hvort hún ætlar að endurgreiða skattinn með einhverjum ákveðnum hætti. Þetta er eitt af fjöldamörgum einkennilegum götum á þessum málatilbúnaði þar sem enginn veit í raun og veru hvað snýr upp og hvað snýr niður og um hvað verður að ræða og um hvað verður ekki að ræða. Ég minnist þess satt að segja aldrei að annað eins mál hafi verið til umræðu hér á Alþingi að menn væru að leggja á skatta svo næmi þúsundum milljóna og samt vissi í raun og veru enginn nákvæmlega á hvað skatturinn væri lagður vegna þess að ríkisstjórnin segði að hún væri að athuga það á síðara stigi hvort þetta eða hitt yrði nokkuð skattlagt. Þetta eru slík vinnubrögð að ég er viss um að þau eiga sér ekkert fordæmi í þingsögunni, hvorki fyrr né síðar, en það er mál út af fyrir sig sem ég ætla að víkja að á eftir. Frv. er þannig úr garði gert að vinna byggingarmanna á iðnaðarstað er skattlögð og við verðum að ræða málið út frá því sjónarmiði.

En það er ekki aðeins að þessi ákvörðun valdi því að byggingarkostnaður muni hækka um 5–7% og ný íbúð muni kosta kannski 200–300 þús. kr. meira en áður var. Þessi ákvæði fela það líka í sér að eigin vinna verður virðisaukaskattsskyld, eigin vinna sem veldur eignaauka væntanlega. Maður sem dundar við það á kvöldin að byggja innréttingu í íbúðinni sinni, pússa gólf, byggja sér bílskúr, steypa upp grindverk í kringum lóðina sína verður að gera svo vel og meta það samkvæmt ákveðnum formúlum hversu mikil vinna hafi verið innt af hendi þetta og þetta sumarkvöldið og svo á hann að borga fjmrh. virðisaukaskatt af þessari vinnu. Það er í öllu falli engin leið að finna í þessu frv, neitt það ákvæði sem undanþiggur vinnu af því tagi virðisaukaskatti. Og ég þarf ekki að segja neinum að ef þetta kemur til framkvæmda er þetta alveg einstakt högg í andlit þeirra þúsunda manna sem hafa verið að reyna að auka við eigur sínar og bæta húsnæði sitt af litlum efnum með mikilli vinnu. Þetta er rothögg á sjálfsbjargarviðleitni þúsunda manna og almennt má segja að það ákvæði sem ég hef verið að ræða, að eigi að fara að skattleggja vinnu á byggingarstað, er einhver stórfelldasta árás á kjör og líf fólks, sérstaklega fátæks fólks, víðs vegar um land sem nokkru sinni hefur séð dagsins ljós því að það er fyrst og fremst hið fátækara fólk sem er að reyna að bjarga sér með eigin vinnu, vinnu kunningja sinna og vina eða ódýrri aðkeyptri vinnu til að eignast einhver verðmæti, hús, húsbúnað, lóðir og garða.

Þetta ákvæði mun þá væntanlega hafa í för með sér að hæstv. fjmrh. verður að láta sendimenn sína fylgjast með því hvað þeir eyða mikilli vinnu við gerð kartöflugarða og uppsetningu á litlum gróðurhúsum og yfirleitt öllu sem hingað til hefur verið skattlaust og engum heilvita manni hefur dottið í hug að skattleggja.

Nú má eins vera að hæstv. fjmrh. segi að þetta verði allt til nánari athugunar síðar og það sé meiningin að skipa nefnd sem taki svona vandamál til nánari meðferðar. En er þetta ekki ágætt dæmi um hve illa undirbúið þetta mál er, að hv. Alþingi skuli boðið upp á að samþykkja ákvæði af þessu tagi því það er það sem okkur er boðið upp á?

Ég hafði ekki hugsað mér að hafa langt mál við 1. umr. Þetta mál á eftir að athugast betur í nefnd og verða allmörg tækifæri til að ræða það og þurfa margir að komast að. En ég get ekki annað en lagt á það áherslu hér að lokum að ef menn á annað borð taka þá ákvörðun að koma með virðisaukaskatt í staðinn fyrir söluskatt er alveg ljóst að það má velja honum ýmiss konar búning. Þar eru fjöldamörg álitamál á ferðinni. En það ætti engin ríkisstjórn að leyfa sér þá vanvirðu við Alþingi að koma með tillögur um svoleiðis skattlagningu fyrr en hún hefur sjálf gert það upp við sig og áttað sig á því hvernig hún vill haga skattlagningunni, á hvað skatturinn á að lenda og á hverju ekki. Því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki unnið sína heimavinnu. Hún hefur ekki undirbúið málið með þeim hætti að viðunandi sé. Þetta mál er hálfkarað. Það er viðurkennt að skattprósentan eigi kannski eftir að verða einhver allt önnur en nefnt er í frv. Það er viðurkennt að allt sem varðar byggingarstarfsemi, hvort sem er vinna iðnaðarmanna, eigin vinna eða annað, sé óljóst, verði kannski skattlagt, verði kannski ekki skattlagt. Það er viðurkennt að kannski verði orkugjafar til hitunar skattlagðir, kannski verði þeir ekki skattlagðir. Það er viðurkennt að nú sé verið að leggja þungar byrðar á menningarstarfsemi í landinu, skattleggja t.d. tónleikahald, leiksýningar og alla menningarstarfsemi, en kannski verði það samt alls ekki gert því það sé meiningin að athuga málið á síðara stigi. Og það er viðurkennt að mikið álitamál sé hvort eigi að skattleggja tímarit. Að vísu er allt önnur formúla um það því að tímaritin eru tekin út úr og þau eru undanskilin í brtt. sem samþykktar voru í Ed. nú á dögunum sem gildir ekki í hinum tilvikunum þannig að það virðist ekki vera allt of mikil rökfesta í uppsetningu þessarar nefndar. Sumt er hreinlega tekið út úr og því breytt formlega með lögunum eða í frv. Annað er haft sem lauslegir fyrirvarar í nái. Eins er það með gjaldfrest af innflutningi, með fólksflutninga, um viðskipti bænda og afurðastöðva o.fl. Allt er þetta óljóst og enginn veit almennilega hvað mun snúa upp og hvað mun snúa niður að lokinni þeirri athugun. Þetta eru vinnubrögð sem engin ríkisstjórn getur leyft sér hversu lágt sem risið er á henni. Ég vil því alveg sérstaklega mótmæla því að hæstv. fjmrh. skuli leggja fyrir Alþingi jafnilla undirbúið mál.