05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7544 í B-deild Alþingistíðinda. (5616)

431. mál, virðisaukaskattur

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Virðulegi forseti. Þá er frv. um virðisaukaskatt komið á borð í Nd. og ekki seinna vænna, þingi er að ljúka. Það voru þau tvenn skilaboð helst sem þingið fékk fyrir skömmu. Það á að senda þingmenn heim, en fyrst eiga þeir að flýta sér að samþykkja virðisaukaskatt.

Helstu rök fyrir því að það megi hafast á svo skömmum tíma eru þau að virðisaukaskattur hafi verið til umræðu hátt á annan áratug og frv. þar að lútandi verið lagt fram tvisvar áður. Þar af leiðandi eigi öllum að vera málið kunnugt, það sé vel undirbúið og þarfnist því lítillar umfjöllunar.

Þá er fyrst til að taka að lesi maður yfir þær umræður sem urðu um málið á þinginu t.d. þegar frv. var lagt fram síðast bera þær með sér að allir álíta að það sé einungis lagt fram til kynningar og umfjöllun þar af leiðandi ekki ítarleg. Menn lýsa í stórum dráttum yfir afstöðu sinni til frv. í heild og ræða lítillega um kosti og galla virðisaukaskatts samanborið t.d. við söluskatt og láta þar við sitja. Smærri efnisatriði eða útfærsla eru ekki rædd að ráði.

Látum það nú vera. Með rökum má auðvitað halda því fram að með því að málið kæmi til umfjöllunar þingsins væri búið að koma umræðunni í gang sem ekki mundi ljúka og ættu því allir að vera vel undirbúnir nú. En viti menn. Tíminn hefur þá ekki verið nýttur betur en svo að frv. eins og það birtist nú er ekki heilsteyptara en svo að jafnvel stjórnarliðar eru að krukka í það, flytja brtt. og uppi harðar innbyrðis deilur um hin ýmsu atriði frv. Og það sem meira er: Með fylgir listi upp á ellefu liði sem á að endurskoða í sumar og eru þar nú engin smámál upp talin.

Fyrsti liðurinn varðar hvorki meira né minna en mat á skattprósentu virðisaukaskatts. Hvernig er hægt að ætlast til þess af nokkurri sanngirni að þingmenn kyngi því að samþykkja frv. þar sem skattprósentan er ekki einu sinni ákveðin? Og síðan tekur við hvert smámálið á fætur öðru. Það eru reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við nýbyggingar eða endurbætur og meiri háttar viðhald af íbúðarhúsnæði og annað sem tengist byggingarstarfsemi. Það eru reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts á orkugjöfum til hitunar íbúðarhúsnæðis, reglur um skattskil af hráefni til fiskvinnslu sem tryggi jafna stöðu fiskvinnslufyrirtækja hvort sem þau gera út eigin skip að ekki. Tryggt verði að endurgreiðsla á virðisaukaskatti þeim sem leggst á hráefni fiskvinnslufyrirtækja gangi svo greiðlega fyrir sig að ekki valdi íþyngjandi rekstrarvanda. Reglur um hvernig með virðisaukaskatt af menningu og listastarfsemi skuli farið. Reglur sem tryggja að jafnræði sé í samkeppni milli einkafyrirtækja og opinberra aðila. Reglur um hversu skattskilum skuli háttað á útgáfu tímarita. Reglur um skattskil í viðskiptum bænda og afurðastöðva og annað sem varðar landbúnað sérstaklega. Reglur um heimild til að veita gjaldfrest á innflutningi. Reglur um það hvernig með virðisaukaskatt á fólksflutningum skuli farið. Önnur atriði sem upp kunna að koma.

Þetta spannar sem sagt í rauninni allt virðisaukaskattsfrv. Þetta eru þau smámál, eins og áhrif virðisaukaskatts á fiskvinnslu og landbúnað, sem á að ræða í sumar, málaflokkar sem þarf að taka til athugunar. Og svo eru nýbyggingar og viðhald íbúðarhúsnæðis og hvernig með virðisaukaskatt af menningar- og listastarfsemi skuli farið. Ég ítreka aftur 11. liðinn, önnur mál sem upp kunna að koma. Og þá hlýtur spurningin að vakna: Hvað er það sem er svo hugsað að það eigi ekki að endurskoða það? Hvað er þessi listi annað en yfirlýsing um að það sé illa staðið að undirbúningi frv. og harla lítið vitað um afleiðingar virðisaukaskatts? Rökrétt er að álykta sem svo að það muni þurfa víðtæka endurskoðun á frv. í haust. Og því þá þessi asi? Er það til að hæstv. fjmrh. geti haft sjálfdæmi um breytingar á frv.? Því ekki að fresta endanlegri umfjöllun til haustsins eftir endurskoðun sumarsins?

En það eru e.t.v. líka dæmi um vinnubrögð hæstv. fjmrh. að endurskoðunin er einungis falin stjórnarliðum og embættismönnum, væntanlega þeim sömu og sömdu frv. í núverandi mynd og hafa því þegar skerta sýn. Allir hafa tilhneigingu til að verja sín eigin afkvæmi og svo mun einnig í þessu tilfelli eða svo býður manni í grun. Væri nú ekki lýðræðislegra og skynsamlegra á allan hátt, hæstv. fjmrh., að reyna að sætta menn og sníða í sameiningu af helstu agnúa eða vill hæstv. fjmrh. ekki afskipti annarra en jábræðra í þessu máli?

Afstaða okkar kvennalistakvenna er sú að við munum leggja til að öllu óbreyttu að frv. verði fellt og fyrir því eru margvísleg rök. Við erum hreint ekki enn sannfærðar um að virðisaukaskattur sé betri innheimtuaðferð en söluskattur. Allir eru sammála um að söluskattskerfið sé gloppótt og á því ýmsir annmarkar, en þeir peningar sem fara í kerfisbreytingar af þessu tagi eru miklir. Við erum sannfærðar um að með miklu minni kostnaði mætti endurbæta og laga söluskattskerfið. Með bættum innheimtuaðferðum og eftirliti getur það eflaust skilað meiru í ríkissjóð en það gerir í dag.

Embættismaður fjmrn., sem spurður var um hvað þessi kerfisbreyting kostaði, sló á 100 milljónir. Það eru engir smápeningar. Ég get ekki stillt mig um að taka til samanburðar að framlög til lista undir liðnum 02 982 á fjárlögum eru samtals 138 millj. Kvennalistakonur lögðu til að sú fjárhæð yrði tvöfölduð í fjárlagaumræðunni fyrir áramótin. Þá voru þetta svo miklir peningar að þótti mesta óráðsía. En þegar það þarf að leggja álíka upphæð í þessa kerfisbreytingu, og ég segi álíka því varla hefur embættismaðurinn sem er einn aðalhöfundur virðisaukaskattsfrv. farið með ýkjur þegar hann nefndi 100 millj., var álíka upphæð varla umtalsverð. „Ódýrasta skattheimta sem völ er á“, sagði hæstv. fjmrh. áðan. Ja, tölur eru sannarlega afstæðar.

Reyndar vill svo til að hæstv. ráðherra hefur nú þegar fundið leið til að fjármagna skattkerfisbreytinguna því þau nýmæli eru í þessu frv. að nú á að skattleggja þá menningarstarfsemi sem eftir margra ára baráttu tókst að fá söluskatti aflétt af starfsemi sinni. Hér á ég við leiklistarstarfsemi og tónleikahald og mun ég koma betur að því síðar.

Skattlagning sem gengur út á að skattleggja helstu nauðþurftir fólks eins og matvörur er okkur kvennalistakonum gjörsamlega óskiljanleg og munum við aldrei standa að slíkum aðgerðum. Gildir þá einu hvort um er að ræða söluskatt eða virðisaukaskatt. Skattlagningu af þessu tagi hafa flestar aðrar þjóðir vílað fyrir sér og eru matvörur ýmist algjörlega undanþegnar virðisaukaskatti eða bera lægra skattstig en aðrar vörur og þjónusta. Líklega er hægt að finna eitt dæmi líkt því og hér er lagt til og þá þykir sjálfsagt að apa það upp, finna sér í nafni réttlætis, skilvirkni og einföldunar versta fordæmi sem hugsast getur og síðan er það varið af hörku.

Hæstv. fjmrh. talar þannig um matarskattinn, sem þjóðin og lýðskrumararnir eiga að skammast til að þakka fyrir, að það verður nánast óskiljanlegt hvernig þjóðin lifði af hörmungarnar áður en matarskatturinn var lagður á. Á sama tíma var komið í veg fyrir fleiri skattþrep, t.d. stóreignaskatt o.fl. sem hefði aukið tekjuöflun eftir öðrum leiðum en með flötum skatti á nauðþurftir fólks. Og lítið fer fyrir sparnaðaraðgerðum þótt fyrra vandlætingartal hæstv. fjmrh. um óráðsíu og bruðl sé nú í öðrum stíl. Hann getur svo sannarlega kallað þá öllum þeim nöfnum sem honum þykir hæfa sem vilja ekki fallast á þá grundvallarskoðun okkar „mjúkmálu klassapíanna“ og annarra húsmæðra landsins að matarskattur er og verður vondur kostur.

Um þetta ætla ég ekki að fjölyrða meira í þessari umræðu svo mikið hefur þegar verið rætt um þennan ljóta blett á hæstv. ríkisstjórn og hafa þó hvorki „klassapíurnar“ né aðrir lýðskrumarar, húsmæður og launafólk sagt sitt síðasta orð í því máli. (Gripið fram í.) Þeir hafa kosningarrétt og málfrelsi eins og aðrir. Þeir geta kannski flokkast undir launafólk eða lýðskrumara. Ég er bara að nota þau nöfn sem hæstv. fjmrh. velur andstæðingum sínum.

Dómur um íslensku þjóðina féll rétt áðan. Almenningur á hinum Norðurlöndum er betur upplýstur en almenningur á Íslandi, sagði hæstv. fjmrh., og því líklegri til að skilja rök fremur en lýðskrum, það að skilja að bætur og hækjur ýmiss konar af því tagi eru betri en að fá skikkanleg laun fyrir eðlilega vinnu og hafa svo efni á að kaupa mat og e.t.v. örlitla menningu sem krydd. Nei, tekjum fólks skal ráðstafað í gegnum ríkisvald sem síðan greiðir bætur. Þetta heitir á venjulegu máli forræðishyggja því þannig er talað að allt sem innheimt er með matarskatti fari til fólks aftur í formi bóta. Því þessi hringrás peninga? Því þessi skriffinnska? Því þessi hræsni? En það er kannski vegna þess hve þjóðin er á lágu menningarstigi sem nú er ályktað sem svo að hún hafi ekkert með menningu að gera.

Og komum við þá að fjöðrinni sem nú bætist við matarskattsfjöðrina sem blaktir svo glaðlega í hatti hæstv. fjmrh. Með álagningu virðisaukaskatts á menningarstarfsemi á borð við leiklist og tónlist er verið að greiða obbanum af þessari starfsemi rothögg og ég bið hv. þm. að marka orð mín.

Nú í morgun þingaði helsta forsvarsfólk leik- og tónlistarstarfsemi landsins. Álagning virðisaukaskatts kom þessu fólki gjörsamlega í opna skjöldu. Svo mikið var grandaleysið að það hafði ekki ímyndunarafl til að láta sér detta í hug þessa aðför eftir margra ára baráttu til að losna við söluskatt og vinnur það þó flest við störf þar sem skapandi hugsun er forsenda. Þegar söluskatti var aflétt af þessari starfsemi var söluskattsprósentan 11%. Sem dæmi má taka að svo háttaði til hjá Leikfélagi Reykjavíkur að það greiddi alltaf meira til ríkisins í formi söluskatts en sem nam styrk ríkisins til starfseminnar. Á þessu var ein undantekning en það ár var minni aðsókn en fyrr og síðar. Það var fyrsta árið sem sjónvarpið starfaði.

Það eru ekki góð rök að vera með samanburð á virðisaukaskatti á Norðurlöndum og hér á Íslandi. Í fyrsta lagi eru ekki öll Norðurlönd með virðisaukaskatt á menningarstarfsemi af þessu tagi. Í öðru lagi eru aðstæður svo ólíkar að það er ekki saman að jafna. Ber þá fyrst að telja að þar eru styrkir margfalt hærri til menningarstarfsemi, miðaverð miklu meira greitt niður og mun að jafnaði vera um 80% af miðaverði sem kemur í formi styrkja en hér er það líklega hæst um 50 og stundum eitthvað upp undir 60% eftir því hvernig árar og það hjá þeirri stofnun landsins sem best er stödd í þessum efnum, þ.e. Þjóðleikhúsinu.

Annað má líka taka til og það er að leiksýningar og tónleikahald eru í þessum löndum ekki almenningseign á sama hátt og hér á landi. Leikhúsfólk t.d. á Norðurlöndum þykist harla gott ef það nær 5% þjóðarinnar í leikhús á ári hverju. Ef maður vill verja virðisaukaskatt getur maður því sagt: Það er ekki mikið. Það er einungis verið að skattleggja 5% þjóðarinnar ef hún vill menningu.

Ef við leggjum álíka virðisaukaskatt á menningu hér á landi erum við að skattleggja alla þjóðina, t.d. bara hvað varðar leiklistarstarfsemi, tvisvar. Ef við tökum alla starfsemina hér í Reykjavík og áhugastarfsemina út um allt land og reyndar þá atvinnustarfsemi sem þar er líka mun láta nærri að við náum allri þjóðinni tvisvar inn í leikhús og það er ekkert sambærilegt hvaða álögur er þarna verið að leggja á fólk.

Þeir styrkir sem íslensk menning nýtur núna eru svo litlir að þar er af engu að taka og er þó ekki úr háum söðli að detta t.d. hvað varðar laun og annan aðbúnað listamanna, þannig að ég fullyrði að komi þetta til framkvæmda verði samdráttur í þessari starfsemi svo mikill að það muni taka langan tíma að bæta þar úr. Og eins og nú háttar til með íslenska menningu með allri þeirri aðför sem er að henni í gegnum fjölmiðla og erlenda menningu ýmiss konar, sem mér dettur ekki í hug að halda fram að við ættum að loka fyrir, á íslensk menning í vök að verjast og þarf á öllum þeim styrk að halda, siðferðilegum og fjárhagslegum sem um er að ræða.

Það er hægt að rekja sig í gegnum helstu dæmin. Ég nefndi aðeins Leikfélag Reykjavíkur áðan og hvernig háttaði til hjá því. Þá var skattprósentan aðeins 11% . Nú er gert ráð fyrir að hún verði 22% , a.m.k. þangað til við vitum hvað það mat á skattprósentu sem á að fara fram í sumar skilar. Það á eftir að koma í ljós. Við skulum vona að það hækki ekki, en ég held að jafnvel bjartsýnustu menn ímyndi sér ekki að það lækki mikið.

Ef við tökum dæmi t.d. af fyrirtæki sem hér hefur barist í bökkum núna í mörg ár af fádæma dugnaði, sem er Íslenska óperan, þá háttar þannig til þar að hún er þegar komin yfir þau mörk sem almenningur hefur efni á og þeir súpa seyðið af því núna. Þeir fá ekki áhorfendur sem skyldi vegna þess að miðaverð er of hátt. Miðaverð er núna 1800 kr. og það getur hver og einn bætt við það í huganum og erum við þá komin talsvert yfir eða rétt yfir 2000 í miðaverði. Það er of hátt og þeir geta ekki tekið þetta af sinni starfsemi. Það er einfalt mál, það er ekki eitthvert svartsýnisraus, að því fyrirtækinu verður lokað.

Þjóðleikhúsið mun þurfa að draga úr starfsemi og var þó verið að leggja þar í kostnað fyrir tveimur árum að bæta við svið og stendur víst til að bæta einu enn við svo ég veit ekki hvað á að fara fram á þessum sviðum. Kannski eiga þau bara að vera til sýnis almenningi og ókeypis og ekkert gerist á þeim. Það er hægt að sýna þau eins og hvern annan minnisvarða um stórhug fyrri tíma.

Ég býst við að eitthvað álíka verði uppi á teningnum hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þeir hafa verið að reyna að halda uppi ferðalögum um landið. Þeir hafa verið með ýmsa viðleitni til fjölbreyttari starfsemi svo sem eins og tónleikahalds fyrir unglinga og börn og annað slíkt sem reyndar leikhúsin hafa verið að hafa í frammi líka en mætir harla litlum skilningi hjá stjórnvöldum og ég býst við að að við þeim blasi ekkert annað en samdráttur líka. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að Þjóðleikhúsinu verði lokað eða sinfónían verði lögð niður eins og t.d. ég mun halda fram um óperuna, en samdráttur verður þar.

Um Leikfélag Akureyrar gildir það sama og Leikfélag Reykjavíkur. Ég minnist þess að þegar ég starfaði við leikhúsið á Akureyri fyrir nokkrum árum var einmitt það sama uppi á teningnum þar og hjá Leikfélagi Reykjavíkur að styrkur frá ríki var alltaf heldur lægri en söluskattur og styrkur frá bænum var alltaf heldur lægri en leiga húsnæðisins sem bærinn leigði leikfélaginu svo ekki riðu þeir feitum hesti frá opinberum aðilum.

Hér er haldið uppi alls konar frjálsri — ja, frjálsri er náttúrlega öfugmæli, við skulum kannski fara að taka upp orð eins og „óháðri“ — leik- og tónlistarstarfsemi bæði í Reykjavík og eitthvað úti á landsbyggðinni þó ekki sé eins mikið af því vegna þess að ferðalög eru dýr og í þau er ekki hægt að leggja fyrir fjárvana fyrirtæki og einstaklinga. T.d. háttar þannig til hjá þessum óháðu leikhópum hér í Reykjavík að þeir geta ekki greitt nokkur laun að ráði fyrir þá vinnu sem þar er fram lögð. Það er alltaf það, að ef sú greiðsla er einhver er hún það sem afgangs er þegar allt annað hefur verið greitt. Og það er hægt að taka dæmi af leiksýningu sem fram fer hér í einhverjum kjallara eða háalofti. Það er það eina húsnæði sem leiklistarstarfsemin hefur í að venda nú því að annað er ekki fyrir hendi nema kannski verði einhver smáskiki í íþróttahöllinni, hæstv. fjmrh. ætti kannski að athuga það og láta teikna smáviðbót. En það eru nú nokkur ár í það. En innkoman af þessum sýningum er ekki meiri en svo sökum þess hve sætin eru fá að meira en helmingur af innkomu hvers kvölds fer í auglýsingakostnað hjá Morgunblaðinu einu. Takið eftir: Hjá Morgunblaðinu einu! Það er auðvitað styrk staða þess sem gerir það að verkum að það gefur sáralítinn afslátt. Önnur blöð neyðast til þess að gefa meiri afslátt. En þetta er bara hjá Morgunblaðinu einu. Þá eru hin blöðin eftir og útvarp. Menn geta séð það sjálfir hversu mikið er afgangs og ef síðan á að taka enn þá meira af miðaverði leggst þessi starfsemi niður því þó að menn geti kannski unnið launalaust geta menn ekki gefið með sér. Og varðandi miðaverð er það ekki bara óperan ein. Hún er að vísu komin yfir markið, hún er komin yfir línuna, en það er samdóma álit annarra að miðaverð hafi þegar verið teygt það hátt upp að lengra verði ekki farið þannig að úrkostir verði ekki aðrir en að taka þessa skattprósentu af miðaverði álíka eins og það er í dag. Það verður ekki hækkað miðaverð sem nemur þessum skatti.

Ég býst við, ég er ekki eins kunnug því, en ég býst við að um tónleikahald ýmissa hópa og einstaklinga utan Sinfóníuhljómsveitarinnar gildi nokkurn veginn sömu rök og um leiklistarstarfsemi þó það megi segja að vísu að oft er tilkostnaður ekki eins mikill, en mér segir svo hugur um að þar verði mikill samdráttur.

Þá er eitt ótalið og það er sú áhugastarfsemi sem fram fer um allt land á vegum Bandalags ísl. leikfélaga og tónlistarstarfsemi ýmiss konar, hljómsveitir og kórar og annað slíkt sem eru að reyna að halda uppi félagslífi og menningarstarfsemi úti um allt land og komum við þá að byggðastefnunni því eins og margoft hefur verið bent á hér fer það ekki bara eftir atvinnu og efnahagslegum aðbúnaði hvar fólk velur sér bústað, það fer líka eftir því félagslífi og þeirri menningarstarfsemi sem þar fer fram og gerir fólki kleift að búa þar. Ef sú starfsemi legðist af held ég að það mundi ekki draga úr fólksflóttanum og byggðaröskuninni. En það gildir það sama og með atvinnustarfsemi sem þó er launuð, misjafnlega þó, að þar er svo naumt skammtað að ekki verður klipið þar af. Mér skilst að það standist nokkurn veginn á endum að leikfélög úti á landi geti, ef vel árar, náð sér í einhvern leiðbeinanda sem þau borga að vísu ekki há laun en það er sá eini launakostnaður sem þau leggja í og meiru hafa þau ekki efni á þannig að ekki veit ég hvar þau eiga að klípa af.

Einhvers konar tónleikahald er sú fjáröflunarleið sem kórar og aðrir slíkir byggja á til að halda uppi sinni áhugastarfsemi og býst ég við að sama gildi þar, að ef þarf að hækka miðaverð mikið verða þær fjáröflunarleiðir ekki vænlegar.

Á heildina litið er samdráttur það eina sem við blasir nema komið verði til móts við menningarstarfsemi í landinu með myndarlegu móti, en um það hefur maður ekki heyrt nein áform eða áætlanir.

Ég mun víkja miklu betur að þessu aftur í seinni umræðum um þetta mál, en ég vil samt hér og nú kalla þá menn til ábyrgðar sem ætla að standa að þessum aðgerðum án þess að kanna það í grunn fyrst hvaða afleiðingar það hefur fyrir menningarstarfsemi í landinu. Íslensk menning á í vök að verjast núna og hún þarf stuðning, ekki bara sjálfrar sín vegna heldur þjóðarinnar vegna og það verður að bregðast við því, annaðhvort með niðurfellingu þessa skatts eða loforðum um stóraukin fjárframlög. Það má kannski hafa það til marks um, þó ég voni að svo sé ekki hvarflar það að manni að hafa það til marks um menningarlegt verðmætamat þeirra sem þetta frv. leggja fram að þar skuli t.d. tímarit talin svo nauðsynleg íslenskum almenningi að það sé meira áríðandi að þau séu undanþegin virðisaukaskatti í sölu en íslenskar bækur. Ég vona að það sé ekki menningarlegt verðmætamat sem þarna liggur að baki. (Gripið fram í: Till. um undanþágu var studd af Kvennalistanum í Ed.) Það var um útgáfu tímarita. — Var einhver brtt.? Þetta er hér. Var þetta ekki í upphaflega frv.? Sala tímarita? (Gripið fram í.) Já, ég veit að hún kom fram. Það var um útgáfu tímarita. En ég vil líka minna á að kvennalistakonur fluttu auðvitað brtt. um niðurfellingu virðisaukaskatts á bókum. Það er ekki þar með sagt að maður hafi eitthvað svo mikið á móti tímaritum að maður vilji ekki að þau komi út heldur er það enn og aftur forgangsröðin sem maður heggur eftir.

En það er nú einu sinni svo með þetta olnbogabarn íslensks þjóðfélags að það á alltaf að koma síðast. Það er alltaf sagt að það þurfi að gera þetta fyrst eða hitt fyrst og svo komi að þessu fjöreggi þjóðarinnar, þ.e. menningunni. Og nýjustu fréttir eru, ég vil enn ítreka að nýjustu fréttirnar eru um íþróttahöll og mér skilst á máli manna, a.m.k. hafa þeir verið að reyna að koma vitinu fyrir mig með þeim rökum, að með því að reisa íþróttahöll fáum við svo miklar gjaldeyristekjur að þá getum við stutt menninguna. En því miður, ég trúi ekki svona yfirlýsingum. Ég hef heyrt þær svo oft áður. Íþróttahöllin er sagt að kosti 300 millj. og ef fylgt verður íslenskri byggingarhefð eins og kom fram t.d. í flugvallarskýrslunni er líklegt að hún kosti svo sem eins og hálfan milljarð. Og það á eftir að sjást að hún skapi slíkar gjaldeyristekjur að það verði stórbreytingar á menningarlífi landsins.

En ég ætla ekki að hafa þessi orð mikið fleiri núna. Það verða tækifæri í síðari umræðum og auðvitað munum við kvennalistakonur flytja brtt. við aðrar umræður þessa máls um helstu þætti sem okkur þykja ámælisverðir í þessu frv. En að öðrum kosti munum við leggja til að það verði fellt.