05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7551 í B-deild Alþingistíðinda. (5617)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér liggur vissulega fyrir stórt mál, frv. um virðisaukaskatt sem fór í gegnum Ed. Alþingis í nótt. Um það verður að segja almennt að auðvitað er hér um að ræða mjög opinn víxil sem í eru margar óvissur.

Það er nú svo að þegar stóru málin koma á dagskrá skyldum við halda að Alþingi kafaði dýpst og legði mesta vinnuna í verkefnið. Nú, þegar við hér í hv. deild ræðum þetta mikla mál við 1. umr., er eins og oft áður fámennt á bekkjum þingmanna og ráðherrarnir fjarri vettvangi. Nú þegar hefur hæstv. fjmrh. vikið úr þessum sal. (Fjmrh.: Nei, ég hlusta hér.) Þakka þér fyrir.

Ég ætla kannski fyrst og fremst að gera athugasemdir sérstaklega við eitt atriði þessa máls. Ég vil þó segja það um atriði sem hv. síðasti ræðumaður, 18. þm. Reykv., minntist á um að tímaritaútgáfa yrði undanþegin virðisaukaskatti en aftur á móti yrðu bækur með virðisaukaskatti að ég held að það væri virkilega verðugt verkefni fyrir fjmrh. að festa klærnar á þeirri miklu tímaritaútgáfu sem nú tröllríður þessu þjóðfélagi. Ég held að þar sé um verulega tekjulind að ræða og mín vegna mætti skattleggja þá útgáfu. En ég mundi fremur vilja líta til þeirra sem ástunda það að halda uppi menningu og leggja sig fram um að skrifa bækur núverandi kynslóðum og komandi kynslóðum til gagns og ánægju.

Í umræðum um vantraustið á ríkisstjórnina voru fluttar tvær ræður sem settu að mér verulegan ugg. Það var ræða hæstv. viðskrh., sem hér er fjarri vettvangi, og ræða hv. þm. Kjartans Jóhannssonar. Hæstv. viðskrh. komst svo að orði, með leyfi forseta, í þessum umræðum:

„Auðvitað hefði verið æskilegt að ná líka nokkurri lækkun útgjalda til annarra þarfa en velferðarmála almennings, sérstaklega að hætta að ausa í þá botnlausu hít sem landbúnaðarútgjöldin eru að verða og að fresta ýmsum framkvæmdum sem þola bið, en um þetta hefur enn ekki náðst samkomulag.“ Ég vil taka þessi orð hans til frekari umfjöllunar.

Enn fremur sagði hv. þm. Kjartan Jóhannsson í sömu umræðum, með leyfi forseta: „Í þessu sambandi verður ekki hjá því komist að minna sérstaklega á landbúnaðarmálin. Það kerfi sem hirðir milljarða á milljarða ofan ár eftir ár í alls kyns bætur og styrki úr ríkissjóði á sama tíma og sífellt sverfur meira og meira að bændum getur ekki gengið. Þetta er sóun sem við þolum ekki. Þetta kerfi þjónar ekki hagsmunum bænda og það er andstætt þjóðarhag. Þess vegna verður að leita nýrra leiða. Meðan ekki er náð tökum á þessu fargani verða bæði bændur og ríkissjóður í sífelldri úlfakreppu. Mín skoðun er sú að hætt sé þá við að þau brýnu viðfangsefni sem ég taldi hér í upphafi muni áfram sitja á hakanum.“

Þarna voru sögð stór orð og settar fram miklar fullyrðingar. Ég er sannfærður um að á bak við þessi orð hæstv. ráðherra og þingmanns býr það að stríð er fram undan ekki síst um niðurgreiðslurnar sem þeir telja að séu styrkir til landbúnaðarins. Ég tel að í þessum orðum þeirra sé fólgin stríðsyfirlýsing sem mjög varðar hag heimilanna í landinu og einnig að hér sé fram undan nýtt stríð á milli landbúnaðarins og ákveðinna afla í landinu. Mig minnir að viðskrh. hafi síðar í þessum umræðum sagt eitthvað á þá leið að mikilvægast væri að skera niður framlög til landbúnaðarins sem væru á þessu ári yfir 3 milljarðar. Þetta sannfærði mig um að þar átti hann fyrst og fremst við niðurgreiðslur og kallar það hér fullum fetum styrk til landbúnaðarins. Þarna kom það strax fram sem við margir óttuðumst við skattkerfisbreytinguna þegar við féllumst á þau rök að til að koma í veg fyrir skattsvik væri nauðsynlegt að fækka undanþágum og að allar vörur væru seldar með sömu söluskattsprósentunni. Við gerðum þær kröfur að mikilvægustu neysluvörur heimilanna fengju verulegar niðurgreiðslur til að mæta hækkuninni. Í sumum tilfellum yrðu vörur vegna mikilvægis að fullu og meira en það niðurgreiddar.

Þarna gerist það að einn vígalegasti ráðherrann í þessari ríkisstjórn, hæstv. viðskrh., segir þessum niðurgreiðslum stríð á hendur og fer eins og ég hef sagt rangt með það: Hann kallar þær styrki til landbúnaðarins en ekki til hagsbóta fyrir heimilin eins og þær eru vissulega hugsaðar. Hvað þýðir það ef svo fer að hér verður smátt og smátt farið að lækka niðurgreiðsluhlutfallið á landbúnaðarvörunum, þ.e. að vörur sem þegar eru verðþandar verða einfaldlega svo dýrar að heimilin munu taka að spara við sig kaup á hollum og góðum mat? Það kemur niður á börnum og næstu kynslóð. Ríkið fær bakreikninginn í verra heilsufari landsmanna. Þetta hefur áhrif á eina gróskumestu atvinnugrein okkar, komu ferðamanna til landsins sem hefur sífellt verið að aukast. Í ár munu koma hingað 130 þús. erlendir ferðamenn. Eftir sjö ár, 1993, með sömu aukningu og verið hefur ca. 300 þús. erlendir ferðamenn. Hér eru matvörur verðþandar eins og ég sagði og verða það sjálfsagt ávallt, en verði pakkinn til Íslands svo dýr munu útlendingar hverfa annað.

Af hinu hef ég reyndar mestar áhyggjur, sem fólst í hótun ráðherrans í umræðunum, að í þessari ríkisstjórn, ef hún lifir, hefjist þegar í haust deilur um hverjum upphæðum skuli varið til niðurgreiðslna, að öflin sem vilja landbúnaðinn í landinu feigan hefji á ný sönginn um að bændur séu þjóðfélaginu dýrir og innflutning ætti í ljósi þess að gefa frjálsan sem auðvitað kemur aldrei til greina. Þetta stríð mun áður en varir hafa mikil áhrif á sölu landbúnaðarafurðanna eins og öll neikvæð umræða hefur.

Ég sé á ýmsum sviðum að virðisaukaskattur getur orðið hér til góðs og er kannski mikilvægur gagnvart okkar viðskiptalöndum. Nú hafa hér á Alþingi bæði fyrr og síðar stangast á fullyrðingar um þá sem þetta kerfi nota í Efnahagsbandalagslöndunum. Sumir segja að nú sé verið að leggja drög að því að samræma þar fjölbreyttara virðisaukaskattskerfi þar sem þeir falla frá því að hafa sama skattstig yfir alla línuna. Þar sé verið að vinna að því að matvæli og nauðsynjar verði með lágum skatti. Sé rétt að lönd sem eðlilega bjóða fólki mun ódýrari landbúnaðarafurðir á borð fjölskyldunnar áformi að falla frá einni skattprósentu, hvers vegna reynum við hér með okkar verðþöndu vörur ekki að fara þessa leið einnig? Ég spyr fjmrh., sem ég hygg að hafi vel kynnt sér þessi mál um víða veröld um þetta atriði, hvort vinir vorir, sem þetta kerfi í útlöndunum nota, séu að áforma þá breytingu sem hér hefur verið fullyrt um á hv. Alþingi. En fólksins vegna hygg ég að það verði veskið sem ræður mestu um matarkaup. Því miður er það verðið en ekki hollustan sem ræður í allt of ríkum mæli innkaupum fjölskyldunnar. En það atriði sem ég einnig nefndi og er stórt í mínum huga er að ferðakarfan til Íslands verður allt of dýr ef við föllum frá niðurgreiðslunum á landbúnaðarafurðirnar og kannski þurfum við einmitt þess vegna að hafa tvær prósentur, aðra lægri á matvörunum, til þess að þessir erlendu menn, og við vissulega ætlum að hagnast á komu þeirra, haldi áfram að koma.

Ég hef hér sagt að ég óttast baráttuna við að halda niðurgreiðslunum inni til að lækka nauðsynjar fjölskyldunnar. Ég spyr því enn og bið sérstaklega fjh.og viðskn. Nd. að íhuga vel hvort þeir sem þetta kerfi nota úti í heimi séu að huga að því að taka upp tvö skattstig. Nefndir þingsins verða að fara vel ofan í saumana á þessu máli þó ég treysti vel svari hæstv. fjmrh. á eftir í þeim efnum. Ég vil fá fram skýr og afdráttarlaus svör af hans hendi um það einnig hvort hann ætlar í haust að halda inni í fjárlögum næsta árs því niðurgreiðsluhlutfalli sem samstaða náðist um á síðasta ári. Ég spyr þig, hæstv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson, að því hvort þú sért tilbúinn að staðfesta það hér á Alþingi að þú munir beita þér fyrir því að halda niðurgreiðsluhlutfallinu inni í fjárlögum næsta árs og marka þar skýra og afdráttarlausa stefnu um að hér sé ekkert stríð að fara af stað.

Við skulum átta okkur á því að það er dýrt að lifa í þessu landi. Ég kom á heimili í gærkvöld, dvalarheimili þar sem voru hjón um nírætt. Þau mega borga fyrir dvöl sína á þessu heimili 92 þús. kr., fyrir húsnæði, fyrir fæði, fyrir þjónustu. Þetta segir manni að maturinn hlýtur að vega þungt. 92 þús. kr. er mikil upphæð og það hlýtur að vera fátt fólk sem svo vel er sett í lífeyrissjóði að það geti verið inni á slíkum stofnunum. Ég segi þetta hér máli mínu til áherslu. Ég get kannski glatt fjmrh. með að þessi öldruðu hjón borga honum að auki 15–20 þús. kr. í skatta mánaðarlega og þeirra skattar hafa því miður hækkað með tilkomu staðgreiðslukerfisins um ca. 200 þús. kr. á árinu.

Herra forseti. Ég get ekki staðið að frv. sem skerðir mjög kjör barnafólksins og þeirra sem síst skyldi ef það liggur í svari ráðherrans að líkur séu á því að hleypt verði af stað stéttastríði sem koma mun þungt niður á framleiðslustétt sem framleiðir matvæli í landinu sjálfu. Ef það blasir við að landbúnaðarafurðir standa hallloka með tilkomu þessa skatts miðað við innflutning er ekki hægt að sætta sig við hann. Þá mun ég verða sannfæringar minnar vegna að falla frá öllum þeim góðu rökum sem mæla með samþykkt frv. af þessari einföldu ástæðu.