05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7566 í B-deild Alþingistíðinda. (5619)

431. mál, virðisaukaskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti.

Ótrúlegt en samt þó satt,

suma menn ég aldrei skil.

Þeir vilja leggja skatt á skatt,

skatt á það sem ekki er til.

Og svo er hæstv. fjmrh. eftir því sem mér er sagt að tala um lýðskrumara, lýðskrumara sem eru á móti matarskattinum. Ég hélt nú satt að segja að það hefðu flestir aðrir frekar efni á að kalla aðra lýðskrumara en hann. Ég mótmæli því að þeir sem eru á móti matarskattinum séu lýðskrumarar og bið hæstv. ráðherra að líta sér nær.

Það er verið að tala um að það sé ekki hægt að hafa nema eina skattprósentu og síðasti ræðumaður kom töluvert inn á þetta mál áðan. Umfjöllun í Danmörku við Efnahagsbandalagsþjóðirnar er um hvernig eigi að afgreiða það mál þar vegna þess að það eru aðeins tvær þjóðir sem standa utan við að hafa tvær eða jafnvel fleiri skattprósentur í sambandi við virðisaukaskattinn. Meira að segja járnfrúin hin margumtalaða leggur ekki skatt á matvæli, en múrbrjóturinn á Íslandi virðist ætla að halda sig við það að leggja sama skatt á matinn og allt annað.

Hvernig er reynslan í Svíþjóð af þessum virðisaukaskatti sem er ef ég man rétt um 23%? Hver er hún? Er hún ekki einmitt sú að það er vitað mál að það fer mjög mikið fram hjá verslunum t.d. af landbúnaðarvörum? Þeir fá ekki rönd við reist. Þeir gera það í því formi að ef menn vilja komast hjá því kaupa þeir nautið eða svínið og að nafninu til slátra þeir því sjálfir í þar til gerðum bílskúrum sem eru fullnægjandi fyrir heilbrigðiseftirlitið. Þeir eru að slátra nautinu fyrir sig eða svíninu. Þetta er gert út um alla Svíþjóð. Svo eru menn að tala um að það sé ekki hægt að fara fram hjá þessum skatti. Hver er reynsla annarra eða læra menn yfirleitt ekkert hér af reynslunni, reynslu annarra?

Ég held að í því formi sem þetta mál er komið í væri þó skásta lendingin í þessu máli að fresta því til haustsins vegna þess að það eru svo mörg spurningarmerki eins og kom fram hjá hv. þm. hér áðan sem talaði fyrir Kvennalistann. Það er í mörgum liðum. Sem sagt að þegar maður horfir á 2. gr. frv. eins og hún kemur frá Ed. er mjög margt sem er ekki upp gert hvernig fara skuli með. Okkur var að berast bréf frá leiklistarráði þar sem þeir eru að kvarta undan því eðlilega að þessi skattur sé settur á leikhúsin. Eru einhverjar tekjur sem er hægt að benda á þannig að það sé hægt blátt áfram að setja skatt á leikhúsin? Er hugsanlegt að hækka leikhúsmiðann um 22% eða hafa leikhúsin yfirleitt möguleika á því að missa tekjur? Ég held að þarna sé verið að seilast t.d. þangað sem enginn grundvöllur er fyrir. Það er verið að leggja skatt á það sem ekki er til.

Og hvernig er svo umhorfs í okkar þjóðfélagi? Það á að leggja skatt á lögfræðingana, þ.e. ekki á lögfræðingana sjálfa heldur þá sem leita til þeirra. Þeir hafa nóg að gera og það eru margir sem eru í erfiðleikum. Það er verið að innheimta hjá mörgum og ýmsir að verða gjaldþrota. Hverjir eiga að borga þennan skatt? Halda menn að það séu lögfræðingarnir? Halda menn að það séu þeir sem eru að láta innheimta kröfurnar? Nei, þeir ætla að bæta þessu á þolendurna, á þá sem eru komnir í vandræði.

Ef maður fer að athuga í sambandi við húsbyggingarnar, hvernig það er hugsað. Það er hugsað að borga þennan skatt þar til baka, þ.e. það sem er unnið á byggingarstað. Við vitum hvernig þetta hefur verið fram að þessu. Verkstæðisvinnan hefur verið að verulegu leyti talin fram þannig að hún sé unnin á byggingarstað jafnvel þó að svo sé ekki. Sums staðar er líka verið að reisa hús á byggingarstað til að hafa möguleika á að vinna verkstæðisvinnuna á þeim stað og gera þetta löglega. Halda menn að þetta haldi allt saman? Ég gæti vel komið með dæmi sem ég þekki um hvernig er farið í kringum þetta og hvernig er verið að hugsa um að fara í kringum þetta. Ég ætla að geyma það til næstu umræðu.

En hvernig er farið svo með eigin vinnu eða það sem fátæklingar eru að reyna að byggja og fá hjálp frá nágrönnunum í stórum stíl sem ég þekki dæmi til? Á að meta framlag nágrannanna og eigin vinnu fjölskyldunnar og borga skatt af því? Er það hugsað þannig? Er það hin nýja jafnaðarmennska á árinu 1988? Er það? Eða hvernig á að fara með þetta? Ég sé nú að hæstv. fjmrh. hefur ekki þolað að sitja hér í salnum (Fjmrh.: Ég hlusta hérna.) enda er ég ekkert hissa á því. Ég vil fá svör við því hvernig á að fara með það. Ég gæti komið með ýmis dæmi. Ekki einungis úr mínum byggðum heldur annars staðar þar sem hópur manna hefur lagt fram vinnu sína til að gera mögulegt að byggja upp atvinnurekstur á sumum heimilum þar sem eru mörg börn og mikil fátækt. Á að skattleggja þetta? Ég skil það svo. Þá leiðréttir hæstv. ráðherra mig og skýrir hvernig þetta er hugsað. Eða er eitthvað af þessu hugsað? Ja, það er illt þeirra ranglæti, en mér sýnist að þar sem þeir tala um réttlæti í þessum málum sé það hálfu verra. Og ætla hv. þm. Framsfl. — þeir eru nú fáir hér viðstaddir sem von er — að láta fara þannig með sig, miðað við þá stöðu sem er úti á landsbyggðinni, að samþykkja að matarskatturinn verði í einni prósentu? Ætlar hann að gera það? Ætla þeir að láta þessa ríkisstjórn, hver sem ræður ferðinni, þó ég hafi mínar hugmyndir um það, fullkomna verkið með því að halda þessum matarskatti í sömu prósentu og öðrum skatti, eins og skatti á lúxusvörur, og vera eina undantekningin í Evrópu í þessu? Á að ganga svo langt?

Ég sagði í gær eða fyrradag að margar byggðir væru nú að gefast upp. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það sé eingöngu þessari ríkisstjórn að kenna. En hún á stærsta þáttinn í því með því að pressa upp fjármagnskostnaðinn, gera hann meira en tvöfaldaðan á sinni valdatíð. Hæstv. bankamálaráðherra sagði að það væri ekki hægt að lækka vextina með valdboði. Það var hægt að hækka þá. Hvað er það annað en valdboð að bjóða alltaf hærri og hærri vexti? Ef ég skil mælt mál er það ekkert annað. Það er rétt hjá ráðherra að það er erfiðara að ná þeim niður með valdboði. Það skal ég viðurkenna. En ég hef reynt að taka þátt í því og sá banki sem ég hef svolítið að gera með hefur gengið á undan öðrum til að reyna að lækka vextina. Þó eru þeir allt of háir miðað við auglýsta verðbólgu. Ég segi: auglýsta verðbólgu.

Auðvitað er lánskjaravísitalan og öll þessi vísitala ekkert annað en hrein vitleysa eins og flest annað sem er verið að gera nú í okkar þjóðfélagi. Þó það sé ekki þessari stjórn að kenna er það hagfræðingum að kenna, fyrrverandi ráðgjöfum ríkisstjórnarinnar. Hvaða vit er í því að miða vísitölu við það ef innfluttar vörur hækka erlendis? Væri ekki nær að taka upp aðra vísitölu þar sem væri miðað við það sem við framleiðum á hverjum tíma? Ætli sé ekki meiri skynsemi í því? Eða eru menn alveg hættir yfirleitt að hugsa rökrétt?

Ég er á móti þessum virðisaukaskatti eins og hann er lagður fyrir. Og ég er fyrst og fremst á móti matarskattinum. Og þó ég segði í upphafi máls míns að ég væri hneykslaður á hæstv. fjmrh. að hann kallaði þá sem eru á móti þessum matarskatti lýðskrumara verð ég að viðurkenna að innst inni er þetta lofsöngur í hans munni. (HBl: Hvernig þá?) Að kalla þá sem eru á móti matarskattinum lýðskrumara. (Gripið fram í.) Nei, Halldór Blöndal, hv. þm. er algerlega orðinn ruglaður í þessu sem von er. Það eru bara fleiri af þessu stjórnarliði.

Ég ætla ekki að hafa langt mál í þetta sinn. En ef þetta frv. á að fara í gegn í þeim búningi sem það er í og með öllum þeim fyrirvörum sem þar eru, sem eru í raun og veru að gefa heimild þessari ríkisstjórn ef hún situr í einhverjar vikur enn, sem er ólíklegt, þá tek ég ekki þátt í slíku, enda, þó að þetta verði samþykkt ef að líkum lætur, verður þetta mál í þinginu aftur að hausti þar sem eru 90% líkur fyrir því að það verði kosið fyrir hið reglulega þing eins og nú horfir í þessu þjóðfélagi og líklega fáum við þá að glíma aftur um bjórinn áður en lögin taka gildi.