05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7569 í B-deild Alþingistíðinda. (5620)

431. mál, virðisaukaskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég var frekar fylgjandi þessu virðisaukafrumvarpi þangað til ég heyrði hæstv. fjmrh. tala fyrir frv. Hann talað mig frá fylgi við það. Nú er það svo að þegar ég gegndi því embætti sem hann er kenndur við núna lagði ég þetta frv. fram (Gripið fram í.) til kynningar, mælti ekki með samþykkt heldur aðeins til kynningar. Þá var hvorki fylgi við frv. í Sjálfstfl., sem ég tilheyrði þá, né heldur í Alþfl. Þá fékk ég þau boð frá formanni fjh.- og viðskn. hv. Ed. að frv. hefði ekki fylgi í nefndinni og það yrði fellt ef það kæmi til afgreiðslu deildarinnar. Út af fyrir sig voru það engar fréttir fyrir mig. Ég sagði þá viðkomandi aðila, formanni nefndarinnar, að hann skyldi bara láta það daga uppi. Ég væri búinn að gera það sem ég var beðinn um, þ.e. að kynna frv., leggja það til kynningar fyrir Alþingi.

Nú kemur þetta frv. með fyrirvörum og er komið í gegnum þá deild sem neitaði að afgreiða það frá nefnd. Mér er ekki nokkur leið að skilja hvers vegna og hvað það er sem hefur snúið tveimur „hringlandi“ stjórnmálaflokkum, Sjálfstfl. og Alþfl., til fylgis við frv. sem er hvorki fugl né fiskur nema að því leyti, sem ég get vel sætt mig við og viðurkenni, að það getur verið til hagsbóta fyrir atvinnurekstur, þ.e. sumar greinar atvinnurekstrar, ekki allar. Í mörgum tilfellum er það svo íþyngjandi fyrir lítil fyrirtæki að það fer fyrir þeim eins og kom hér fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e., annaðhvort verður að kaupa sér of dýra þjónustu endurskoðenda, því þau ráða ekki við starfið sem fylgir öllum þessum nýju ráðstöfunum sem ríkisstjórnin er að þvinga inn á atvinnureksturinn, eða hreinlega hætta. Þriðji möguleikinn er sá, sem sami hv. þm. gat um, að verða í hópi þeirra sem eru neyddir til að brjóta lög. Þeir eru neyddir til þess með ráðstöfunum sem þeir geta ekki staðið við, en verða að vinna, þeir verða að gera eitthvað til þess að draga fram lífið, til að skapa sér og sínum lífsviðurværi. Þessa möguleika er verið að taka frá mörgum af þessum litlu atvinnurekendum.,

Ég skil ekki hæstv. fjmrh. þegar hann heldur því fram á sama hátt og íhaldsmenn gerðu í tíð Macmillans, hvernig sem þjóðfélagið braust um í þeim ólgusjó sem þá var undir þeirri íhaldsstjórn hélt forsætisráðherra þeirrar stjórnar alltaf áfram að segja í hvert skipti sem hann opnaði munninn: Þið hafið aldrei haft það eins gott. Og hæstv. fjmrh. okkar hefur tekið upp þessa tækni og hann notar til þess fé ríkissjóðs að auglýsa og auglýsa og blöðin hafa ekki svo ég viti til nokkurn tímann haft eins miklar tekjur úr fjmrn. og nú. Hann er að segja fólki hvað það hefur það gott. Á sama tíma er hann að hækka fjárlög um 50%, auka skattheimtu á einstaklingum um tugi milljarða á milli ára og fyrirtæki, bæði í einkaeign og kaupfélögin, hrynja allt í kringum okkur. Daginn eftir eldhúsdagsumræður hér kemur skýrsla frá Þjóðhagsstofnun sem staðfestir allt sem stjórnarandstaðan hefur verið að segja og sagði í þessum eldhúsdagsumræðum, að allir atvinnuvegir þjóðarinnar, hvort sem það er fiskvinnslan, -veiðin eða hvað það er, frystingin, landbúnaðurinn, iðnaðurinn, eiga í vaxandi erfiðleikum. En þá heldur hæstv. fjmrh. áfram að telja fólki trú um að það hafi aldrei haft það eins gott. Á sama tíma sem skattpeningarnir streyma inn í ríkissjóð á fólkið að hafa meira og meira til ráðstöfunar þegar tilfellið er að fólk á í vandræðum með að borga tryggingar af farartækjum sem það nauðsynlega þarf að eiga til þess að komast í og úr vinnu. Þegar fer að líða á mánuðinn, rétt áður en fólk fær útborgað, notar það alls ekki bíl. Það hefur ekki efni á að kaupa bensín á bílinn hvað þá að láta skoða hann. Svona er ástandið.

Og hver segir að ekki liggi eitthvað á bak við þá ellefu liði, eins og hv. 18. þm. Reykv. taldi upp hér áðan, Þórhildur Þorleifsdóttir, plús einn óákveðinn sem á eftir að athuga betur? Hvaða lagafrv. er það sem hæstv. fjmrh. leggur hér fram og biður um hálfgert einræði til að ganga frá? Það á að athuga þessa ellefu til tólf liði með sumrinu. Svo skal ég láta ykkur vita. Þetta felst í látbragði mannsins. Ég skal láta ykkur vita hvað ég ákveð seinna, hvernig þetta verður endanlega. Eftir að hæstv. fjmrh., jafnaðarmaðurinn, sem telur sig vera, er búinn að hækka fjárlög á fyrsta fjárhagsári um meira en 50% treysti ég honum ekki til að hafa frjálsar hendur til að gera tillögur um prósentutölu virðisaukaskatts. Hann gæti alveg eins þotið upp í 30% þess vegna fyrir næstu fjárlög ef hæstv. ráðherra og ríkisstjórn telur sig þurfa að bæta öðrum 50% við útgjaldaliði fjárlaga á næsta ári. Er nokkur maður, nokkur Íslendingur, nema þá þeir sem vilja vera blindir, vilja líta fram hjá staðreyndum, sem trúir því að öll þessi útgjaldaaukning, allir þessir nýju skattar beri þann árangur einan að allir hafi það miklu betra með því að borga meira en þeir vinna fyrir í skatta, meira en þeir hafa efni á? Af hverju hækkaði þá ekki hæstv. ráðherra skattana og útgjaldahlið fjárlaga miklu meira ef það er lausnin á öllum vanda ríkisins og einstaklinganna?

Því miður er það staðreynd að fólkið í landinu á enga samleið með þeirri stjórn sem nú situr með þessar aðgerðir sem hún býður upp á. Ég segi því miður vegna þess að það eru ekki lengur stjórnmálaflokkar í þeim hefðbundna skilningi sem hér var áður en þessi ríkisstjórn var mynduð vegna þess að andstaðan í þjóðfélaginu er öll komin í sömu sængina. Fjölmiðlarnir, hið skrifaða mál, það er allt úr sömu herbúðunum núna. Þeir eru allir með sama stofninn til að skrifa um. Lýðræðið er að því leytinu til í hættu. Og upplýsingar sem koma frá þessu fríða liði eru: Borgið þið, borgið þið. Borgið þið meira. Við þurfum meira. Við erum eins og óseðjandi padda sem verður að borða og borða og borða. Það skiptir engu máli hvort einhver annar líður fyrir það.

Ég er ansi hræddur um að það sem er óákveðið í þessu frv., sem ég var frekar hlynntur, geri að verkum að það sé hættulegt að samþykkja það. En það eru punktar í þessu frv. og þetta er stofn að skattheimtu sem ég er ekki frá því að geti verið til bóta. En eins og það er lagt fram og það sem farið er fram á með þessu plaggi og sérstaklega í höndum þeirra manna sem eiga eftir að meðhöndla það, þá er það stórhættulegt og ég vara við því.

Ég get ekki með nokkru móti samþykkt matarskattinn eins og hann er. Hæstv. ráðherra getur sýnt vinnufélögum sínum hér, þó í stjórnarandstöðu séu, þá lítilsvirðingu að kalla þá hvaða nafni sem hann vill. En ég mótmæli því að forseti, hver sem hann er, leiðrétti ekki eða víti ekki ráðherra þegar hann kallar stjórnarandstöðuna lýðskrumara vegna þess að þeir hafa aðra skoðun en hann á málum sem hann flytur. Það er ráðherra ekki til sæmdar að haga orðum sínum þannig til stjórnarandstöðunnar.

Ég get ekki samþykkt virðisaukaskatt á marga þá liði sem hér voru taldir upp og ég er sammála frú Þórhildi Þorleifsdóttur, hv. 18. þm. Reykv., um allt sem hún sagði um listir og menningu. Og ég vil bæta við, þó að henni sé kannski illa við að fá þá viðbót, að ég vil koma íþróttunum þar undir. Kvennalistinn hefur barist frá því að þær komu til setu á Alþingi fyrir mjúku málunum og öllu því sem snertir börnin m.a. En það er ekkert barnaheimili til stærra í Reykjavík eða á landinu en íþróttafélögin. Þar eru börnin í hundruðum eða þúsundum og þar eru stærstu leikvellirnir. Og þegar komið er upp í eldri aldursflokka eru það áhugamenn, ekki launafólk, sem dregur að nokkra áhorfendur til að safna peningum fyrir rekstri á þessum stóru ég mundi segja barnaheimilum í þeim skilningi sem ég er að tala nú. Það á auðvitað ekki að setja á þá skatta, hvorki söluskatt, virðisaukaskatt né neitt annað. Það er að brjóta niður þjóðfélagið. Það er að brjóta niður það skipulag sem við höfum haft. Og það sama á við leikhúsin sem eru öll ung. Þetta er ung starfsemi eins og við erum ung sem lýðveldi. Það á að gefa þeim frið á þessum uppvaxtarárum.

En virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri núna. Það er búið að segja margt af því sem ég hefði viljað segja og ég sé enga ástæðu til að endurtaka það frekar, en því miður er ég farinn að sjá svo marga galla, svo stóra óvissuþætti í frv. að ég er farinn að undrast að fjmrh. skuli láta sér detta í hug að bera það fram eins og það er útbúið. Og ég furða mig líka á því að bæði Sjálfstfl. og Alþfl. hafa snúist og stefna í öfuga átt við það sem áður var í þessu máli.