05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7575 í B-deild Alþingistíðinda. (5622)

431. mál, virðisaukaskattur

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég er ekki einn af þeim sem taka járnfrúna svokölluðu mér til fyrirmyndar og ég harma ef einhver af okkar hæstv. ráðherrum gerir það frekar en orðið er. Það er lítið svigrúm í okkar litla þjóðfélagi fyrir slíka framkomu jafnvel þó að þeir sem framkvæma hana hafi sérpróf og sérmenntun í að vera forsætisráðherrar. Ég nota bara orð hæstv. fjmrh. sjálfs. Þetta er hans eigið mat á sjálfum sér.

En í tilefni af upphafsorðum hæstv. fjmrh. þar sem hann segir: Enginn verður með orðum veginn. Ég held að það sé rangt. Ég held að það sé hliðstæða milli byssukúlu og orðs. Talað orð verður ekki aftur tekið og byssukúla verður ekki aftur kölluð. Hún gerir þann skaða sem henni er ætlað og kannski í mörgum tilfellum miklu meiri skaða en til er í upphafi ætlast þegar menn skjóta. Þetta er kannski til umhugsunar fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að ég held að hann hafi ekki hugsað orð sín til enda. Það líka að gefnu tilefni sem þetta er sagt.

Annars vil ég taka upp þráðinn þar sem hæstv. ráðherra sagði að frv., sem ég kalla vont og get ekki samþykkt eins og það er, verði gert gott með starfi milliþinganefndar. Við skulum segja að það sé rétt. Við skulum vera reiðubúin til að samþykkja þá málsmeðferð. En af hverju að ganga frá frv. endanlega með þeim ágalla að milliþinganefnd þurfi að fínpússa það? Af hverju ekki að ganga frá því þannig að milliþinganefnd sé búin að skila sinni vinnu þannig að Alþingi geti unnið sitt verk sómasamlega? Auðvitað er það lýðræðislegra en láta ráðuneytið eitt ákveða einhverja reglugerð sem á að koma í staðinn fyrir allt sem vantar í þetta frv. Þessi vinna á að vera búin þegar málið kemur fyrir Alþingi. En viðurkenningin á því að hún er ekki búin bendir til þess að þetta frv. er ekki tilbúið til þess að Alþingi afgreiði það og er staðfest með þeirri ósk og með þeirri ákvörðun hæstv. ráðherra að nefnd skuli fjalla um það á milli þinga og síðan ráðuneytið með sínar reglugerðir sem ráðherra setur sjálfur. Ráðuneytið á mínum tíma var ekkert hrifið af virðisaukaskatti og lagði ekki til við mig sem ráðherra að fá það samþykkt. Það voru meira að segja sumir ágætir starfsmenn þar, reyndir í þessum málum, sem ráðlögðu gegn því. Ég skal ekki segja hvað hefur komið á borð hæstv. fjmrh. síðan. Af hverju á einhver milliþinganefnd að vinna verk sem heyrir Alþingi til? Af hverju skilar Alþingi ekki þeirri vinnu sjálft? Látum Alþingi skoða hvað milliþinganefnd hefur til málanna að leggja og tökum svo ákvarðanir á eftir.

Það getur vel verið að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að það sé hægt að skattpína frekar en orðið er veitingahús, samkomuhús, poppskemmtanir sem er ekki mjög mikið af hér. Þær hafa tapað peningum sumar sem hafa haft heimsfræg nöfn sem aðdráttarafl. En ég skil ekki hvar hann ætlar að taka peninga af íþróttahreyfingunni þó hún selji inn á sína toppleiki sem maður kallar. Íþróttahreyfingin er styrkt að óverulegu leyti, um 24 millj. kr., það hefur eitthvað hækkað, ég veit ekki hvort það er komið upp í 40 millj. núna, en hún kostar um milljarð að reka. Ég veit ekki hvaða peninga hæstv. ráðherra ætlar að taka af henni eða leikhúsunum.

Efnahagur fólks hér er að kikna undan 1700–1800 kr. aðgöngumiða að vel uppsettri óperu hér. Ég var nokkra daga í London fyrir fáeinum vikum. Þar kostaði aðgöngumiðinn, sem ég varð að kaupa, vegna þess að það var ekkert annað að fá, milli 12 og 15 sterlingspund og það var útselt á allar sýningar sem ég reyndi að fá miða á fyrsta kvöldið. Ég held að það sé meira en helmingi hærra en á leikhúsin hér. Fólk hefur ekki peninga hér og við höfum ekki erlenda gesti í Reykjavík eða á Íslandi eins og í heimsborgunum til að halda uppi leikstarfsemi. Við verðum að taka tillit til þess. Það er ekki hægt að halda áfram að skattpína. Það verður að hjálpa í þessu tilfelli. Ég held nefnilega að það sé ekki málið að skattpína og það er langt frá því, hæstv. fjmrh., og ég fer á hnén hér og bið hæstv. ráðherra um að átta sig á því, að það sé ímyndaður kjarkur sem hann er að sýna með því að skattleggja og skattpína eins og hann gerir. Ég bið ráðherra að átta sig á því að það er hrein heimska, ekki kjarkur. Svona hagar maður sér ekki gagnvart fólkinu. Það er ekki kjarkur sem þarf til að innheimta. Það er skynsemin. Ég tek undir þau orð sem oft hafa komið frá ráðherra áður en hann varð ábyrgur í ríkisstjórn. Það á að taka peningana þar sem er hægt að taka þá, en ekki taka frá þeim sem mega ekki missa þá, geta ekki komist af án þess að hafa þá á milli handanna. Það er allt annað.

Ég átti tal við nokkuð umfangsmikinn innflytjanda í morgun til að spyrja hann hvernig virðisaukaskatturinn kæmi við hann. Hann sagðist vera með hráefni á lager sem væri í kringum líklega 60 millj. Hann þarf að borga virðisaukaskatt af þessum 60 millj. sem hann er með á lager. Hann sagðist ekki hafa efni á því. Hann sagði: Ég verð að fá lán til þess að geta staðið í skilum, til þess að fá ekki uppboð á mig frá opinberum aðilum og þetta lán er á svo háum vöxtum að fyrirtækið stendur ekki undir því.

Ég talaði við þrjá aðila með sama vanda og þeir kvíða fyrir þessu. Þetta eru aðilar sem liggja með hráefni fyrir iðnaðinn á lager. Iðnaðurinn sjálfur, sem ekki þarf að liggja með mikinn lager heldur getur keypt af þeim sem flytja inn, er í allt annarri aðstöðu. Þetta á eftir að koma við fyrirtæki á margan hátt. Við megum alls ekki við því að fá fleiri fyrirtæki á vinnumarkaðinn með þá erfiðleika sem eru nú. Við erum alltaf að íþyngja fólkinu í landinu með okkar aðgerðum. Þetta getur ekki gengið lengur.

Ég bendi á það aftur núna í fullri vinsemd að samvinnuhreyfingin, kaupfélögin, sem jafnaðarmenn hafa nú stutt hingað til, birta sínar ársskýrslur hvert af öðru og samtals eru þau með hundruð milljóna kr. í taprekstur.

Og að sjálfsögðu neyðir þessi ríkisstjórn fólkið úti á landi að flytja þangað sem það hefur vonir um betri lífsskilyrði, oftast nær til Reykjavíkur. Og hvað skeður í Reykjavík? Það verður ekki pláss fyrir allt þetta fólk á vinnumarkaðnum. Svona er hægt að halda áfram. Þegar fólkið hættir að fá laun og fer jafnvel á atvinnuleysisstyrk hættir það að kaupa, hættir það að versla við kaupmanninn á horninu skulum við segja eða stórmarkaðina sem eru þyrnir í augum Alþfl. Það hættir þá að gefa peninga af sér í ríkissjóð. Svona er hægt að halda áfram keðjuverkandi. Þið eruð að setja þjóðina á hausinn, ekki bara eitt og eitt fyrirtæki, ekki bara kaupfélögin, ekki bara samvinnuhreyfinguna. Þið eruð að setja þjóðina á hausinn. Þið eruð að mylja undirstöðu þjóðfélagsins með aðgerðum ykkar. Og svo sitjið þið bara og segið við þjóðina bæði í töluðum orðum og skrifuðum: Þið hafið aldrei haft það eins gott. Trúið okkur bara þó að þið séuð svöng. Trúið okkur bara þó að fyrirtækin séu að fara á hausinn. Trúið okkur þó að þið séuð að missa atvinnuna af því að þið hafið aldrei haft það eins gott.

Ég bið ykkur um að vakna og athuga hvað þið eruð að gera. En í sambandi við þetta virðisaukaskattsfrv. er það viðurkenning á göllum þess og þörf fyrir frekari vinnu að milliþinganefnd skuli eiga eftir að leggja eins mikla vinnu í það og ráðherra gat um áðan og ég óska eftir því að sú nefnd verði látin starfa í friði. Þar eru ágætir menn og það skiptir mig engu máli hvort þeir eru stjórnarliðar eða ekki stjórnarliðar, bara að hún fái að starfa í friði og málið komi svo betur undirbúið til afgreiðslu á Alþingi.