05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7586 í B-deild Alþingistíðinda. (5630)

360. mál, umferðarlög

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt að ráði. Ég er sammála því að breyta fyrirkomulaginu varðandi númeraskráninguna. Afstaða mín í því efni kom reyndar fram á síðasta þingi þegar umferðarlögin voru til afgreiðslu þar. Sú skoðun hefur ekkert breyst síðan. Ég hef hins vegar, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e., miklar efasemdir um fyrirkomulagið á bifreiðaskoðuninni.

Ég ítreka þær spurningar sem hann var búinn að bera fram, hvernig menn hugsa sér þessar skoðunarstöðvar í hverju kjördæmi, hvort eigi að vera ein, tvær eða hugsanlega fleiri. Ég veit að krafa almennings hefur verið að fá þessa þjónustu nær sér og mér er sem ég sjái, t.d. á Austurlandi, Vopnfirðinga keyra á sínum bílum til Egilsstaða eða Reyðarfjarðar og Hornfirðinga kannski norður á Reyðarfjörð eða Egilsstaði til þess að láta skoða bílinn sinn. Ég held að þetta sé ekki nægjanlega vel hugsað. Þó að meiningin sé kannski góð hefur þessi krafa verið mjög áberandi undanfarin ár að menn vilja fá þessa þjónustu nær sér og menn vilja að það taki ekki eins mikinn tíma og oft hefur verið að fá skoðun á sínum bílum.

Ég vildi því ítreka þessar spurningar sem reyndar var búið að bera fram áður af hv. 4. þm. Norðurl. e.