05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7590 í B-deild Alþingistíðinda. (5636)

360. mál, umferðarlög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Mér skilst að það liggi ljóst fyrir að hæstv. forseti telur að það sé nauðsynjamál að halda þm. hér í matartímanum þó að sumir líti svo á að þetta sé nú kannski gert mest vegna áhuga manna á að vera hér á þessum tíma. En það sem sækir á minn hug í þessu sambandi er að það hljóta að vera nokkuð brýnar ástæður til þess að við hér og nú förum í svo harða umræðu um frv. sem verið er að leggja fram þegar jafnlítið lifir eftir af þessu þingi. Auðvitað er það nú svo að öll mál þurfa sína skoðun ef þingið vinnur sitt verk, þ.e. að breyta frumvörpum í lög með þeirri aðgát sem nauðsynleg er.

Ég ætla ekki að fara langt út í umræðu um þessi mál en mér er ljóst að það gætir þeirrar hugsunar úti í samfélaginu að ef það verði sett upp ein skoðunarstöð í hverju kjördæmi þá komi það nú dálítið einkennilega út ef bifreið sem búið er að aka t.d. frá Brú í Hrútafirði á Ísafjörð yrði dæmd óökufær þegar hún kæmi þangað. Verður þá ekki annað séð en eiganda hennar hafi verið stefnt í hreina lífshættu með því að láta hann keyra bifreiðina alla leiðina. Má vera að ætlunin sé að halda uppi þjónustunni á mörgum stöðum þrátt fyrir þetta. En hins vegar spyr ég sjálfan mig að því hvort þörfin fyrir að stofna hlutafélag sé jafnbrýn og hér er látið í veðri vaka. Við látum bifreiðaeigendur um það að fá sér ljósastillingarvottorð. Mér er ljóst að það er mikil nauðsyn að kanna betur en nú er gert hvort bremsur á bifreiðum eru í lagi. Eitt verkstæði hér í bænum, Lúkas, er með fullkomin tæki sem það notar á þessu sviði og skv. athugunum sem átt hafa sér stað bæði í Hollandi og Frakklandi hefur það skilað verulegum árangri í að draga úr umferðarslysum hafi bílar verið bremsumældir. En það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að það verði skylda að bílar komi með vottorð upp á það að þeir hafi verið bremsumældir þegar þeir mæta til skoðunar.

Ég ætla ekki að fara langt út í umræðu um þetta. Mér kemur það ákaflega undarlega fyrir sjónir ef það hefur mikinn tilgang að ræða þetta mál á þessu þingi vegna þess hve lítill tími er eftir. Sé tilgangurinn sá að koma því til nefndar og senda það til umsagnar út til ýmissa aðila þá er út af fyrir sig ekkert við það að athuga, en mér finnst, svo að ég segi nú eins og er, hæstv. forseti keyra þetta áfram af verulegri fylgni þegar klukkan nálgast það að verða í miðjum matartíma og skal þó skýrt tekið fram að ég ætti seinastur manna að kvarta í þeim efnum.