05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7591 í B-deild Alþingistíðinda. (5638)

360. mál, umferðarlög

Steingrímur J. Sigfússon:

Það eru nú ekki mörg orð af minni hálfu, herra forseti, þó að reyndar sé nú komið talsvert fram yfir þann tíma sem við höfðum hugsað okkur til fundahaldanna. Ég ætla bara að segja það að eftir orð hæstv. dómsmrh., svo skýr sem þau voru, þá hafa nú ekki minnkað efasemdir mínar um að það sé á vísan að róa fyrir landsbyggðarmenn um þjónustuna hjá hinu nýja hlutfélagi því hæstv. ráðherra sagði ósköp einfaldlega: Þar verður hagkvæmni að ráða. Hér á að fara að byggja upp aðstöðu og það er gott og vel. En ég spyr auðvitað: Hagkvæmni hverra? Augljós er hagkvæmni hins nýja hlutafélags sem fælist auðvitað í því að byggja þessa aðstöðu upp á sem allra fæstum stöðum og láta bíleigendur um að bera kostnaðinn af því að keyra um langan veg til að mæta til skoðunar. Og ef reka á þetta nýja hlutafélag eins og hvert annað harðsvírað kapítalískt gróðafyrirtæki, þá að sjálfsögðu reynir það að hafa sem mesta hagkvæmni í sínum störfum og ég spyr: Hver á að vera úrskurðaraðili um það með hvaða hætti þjónustan verður byggð upp?

Ég segi fyrir mitt leyti, herra forseti, að eftir þessa umræðu er það af og frá að ég treysti mér til að standa að afgreiðslu þessara ákvæða frv. nema fyrir liggi miklu, miklu skýrari upplýsingar og ákvarðanir um það með hverjum hætti skuli staðið að þjónustunni, hve mikil hún verði, hve víða verði byggðar upp þessar stöðvar, hvort og þá hvernig verði samið við verkstæði í afskekktum byggðarlögum. Við getum nefnt Vopnafjörð sem dæmi. Ég hygg að það hafi verið vel valið dæmi hjá virðulegum forseta að Vopnfirðingum getur reynst umhent að aka yfir Hellisheiði eða upp Möðrudalsöræfi til skoðunar fyrri part ársins og líka seinni partinn. Það er kannski opið í eina 2–3 mánuði á ári fyrir þá til að mæta með bíla sína til skoðunar í einhverja glæsilega skoðunarstöð einhvers staðar á miðjum Austfjörðum og svona dæmi mætti nefna. Ég fer því fram á það að ef eigi að afgreiða þetta mál hér verði lagðar fram miklu meiri upplýsingar um það hvernig þjónustunni verður háttað, hvar hún verður byggð upp og með hvaða hætti verði staðið að þessum hlutum svo að það liggi ljóst fyrir hagkvæmni hverra, í hvaða hlutföllum sé verið að tala um, bíleiganda eða hins nýja hlutafélags.